Maraþon á morgun.

Eftir að hafa undirbúið þetta frá því í ágúst 2013 þá er loksins komið að því, Zurich maraþonið er á morgun. Ég veit um tvo Íslendinga fyrir utan mig sem ætla að reyna við heilt maraþon en það er slatti af mörlöndum sem ætla að fara 10 km. Hinir tveir sem ætla í heilt, Anton og Gylfi, komu í gær og þegar ég heyrði í þeim fyrr í dag þá voru þeir búnir að hlaupa úr sér hrollinn og ná í númerin sín. Þeir eru báðir ösku-fljótir og ég reikna með að þeir verði búnir í sturtu og komnir í jakkaföt þegar ég kem loksins í mark.

Við leggjum í hann kl. 8:30 að svissneskum tíma (6:30 að íslenskum tíma), stútfullir af hollustufæði sem við erum búnir að vera að stappa í okkur undanfarna dag. Þar fyrir utan er ég búinn að fjárfesta í (og hlaupa til) hátækni hlaupabomsum og svo dróg ég svitaband í hús s.l. föstudag ef ske kynni að maður myndi svitna á leiðinni. Þetta getur ekki klikkað. Reiknað er með sól en frekar köldu veðri. Ætli við séum ekki að hlaupa þetta í 4-8 gráðum sem er í sjálfu sér ekki svo slæmt fyrir langhlaup. Hitinn fer svo upp í 12-15 gráður seinni part dags en þá er vonandi allt um garð gengið.

Ég hef strögglað aðeins við það undanfarna daga á hvaða hraða ég á að reyna þetta því að löngu hlaupin sem ég er búinn að fara undanfarna 3 mánuði hafa verið hlaupin á ójöfnu tempói, oftar en ekki hægt í byrjun og svo koma kannski 20 km á góðum hraða en svo hægir á í restina. Ég hef farið 5 sinnum yfir 30 km og lengstu hlaupin í 16 vikna prógramminu voru 35-36 km. Í fyrsta skipti sem ég fór svona langt þá komst ég í gegnum krísu í kringum 31 km með því að hægja á mér á 2 km kafla og átti svo nóg eftir þegar ég hætti. Síðasta langa hlaup var á meiri hraða í upphafi en við frekar erfiðar aðstæður og ég átti ekki mikið úthald eftir þegar ég lauk því. Hefði þó klórað mig upp í heilt maraþon á örvæntingunni.

Annars eru langhlaup dálítið spes þegar kemur að taktík, a.m.k. þegar maður er að stunda þetta eins og amatör; því í flest öllum íþróttagreinum sem ég hef keppt í þá snýst sportið í raun um að maður leggur út með óbeisluðum ofsa frá fyrstu mínútu og lætur svo uppsafnaða reiði rigna yfir andstæðinginn þar til að maður getur ekki meira eða þarf að leggja á flótta. Langhlaup snúast um skynsemi sem hefur aldrei skilað mér langt en á morgun þá er sennilega rétt að eiga borð fyrir báru þegar kemur að því að velja sér tempó. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er öllum í heiminum sama um á hvaða hraða miðaldra skrifstofulúðar „hlaupa“ maraþon. Þar fyrir utan þá lofaði ég mömmu því að ég myndi bara taka taxa ef þetta færi að verða strembið og ég hefði helst viljað losna við þá niðurlægingu. Það er þó alls ekki hægt að útiloka að sú staða gæti komið upp.

Því er ekki að neita að ég sakna hérans (frúarinnar) hér á síðustu metrum fyrir hlaupið. Hún er á Íslandi að passa upp á að túristarnir villist ekki en hún hefur verið ómissandi hlekkur í undirbúningnum. Hún hefur betri skilning á mér en ég sjálfur og mig hefur bráðvantað hana til þess að „lesa á mælana“ hér undanfarna daga. En alla vega, markmiðin eru klár (sjá neðar). Mér skilst að það sé hægt að fylgjast með framvindunni á heimasíðu hlaupsins fyrir þá sem hafa áhuga. Keppnisnúmerið mitt er 2003 en tímaflögunúmerið er 22B285, ég veit ekki hvort númerið heimasíðan notar.

Markmiðin:

1)      Komast í mark (án þess að taka leigubíl)

2)      4 klst og 15 mín.

3)      4 klst og 10 mín.

4)      4 klst og 5 mín.

5)      4 klst og 0 mín.

Sem sagt, ég hefði ekkert á móti því að vera á 56-58 mínútum og í góðu standi eftir fyrstu 10 km og reyna svo að halda 56 mín per 10 km eftir það (draumar kosta ekkert). Ef þið sjáið á heimasíðunni að ég er farinn að fara miklu hraðar en það, þá er ég kominn upp í leigubíl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband