Kjötlausar kjötbökur - Stjórnmál 2

„Ég er að fara að blogga elskan", kallaði ég í áttina að eldhúsinu þegar ég gekk inn í stofuna. 

„Allt í lagi vinur. Ætlarðu nokkuð að búa til fleiri óvini? Mér sýndist fólk á Fésinu vera bara ánægt með þessar kjúklingabringu-pælingar hjá þér síðast. Kannski þú ættir að koma bara með aðra uppskrift og vera ekkert að hrauna yfir fólk", var svarið sem ég fékk frá frúnni.  Það var ekki laust við að greina mætti nokkurn kvíðboga í rödd hennar. Sjálfsagt finnur hún til ábyrgðar eftir að hafa ræst þessa pistla vitleysu hjá eiginmanninum.

„Nei, nei.  Þetta verður voða lítið hraun.  Ég ætla að fjalla um frasana", svaraði ég án þess að hafa í raun hugmynd um hvar næstu skrif myndu enda. „Ok. Frasar elskan, það hljómar spennandi, he, he" svaraði hún en ég get svarið það að það mátti greina ákveðið trúleysi í rödd hennar. Mér fannst hún í framhaldinu tuldra eitthvað ofan í hálsmálið en ég veit ekki hvað hún sagði. Gæti hafa verið „Guð blessi Sviss".

„En svo mun ég læða inn einni mataruppskrif elskan, engar áhyggjur", bætti ég við í framhaldinu. „Nú, hvaða uppskrift" svaraði hún".  „Hún heitir kjötlausar kjötbökur", svaraði ég að bragði. „Ok. Grænmetisréttur,  það er áhugavert. Þú hefur aldrei eldað hann fyrir mig", heyrðist þá í frúnni.  „Þetta er búið að vera vinsælt á klakanum elskan mín, þú hefur ekki búið þar lengi.  Þetta er samt ekkert fyrir þig", svaraði ég.  „Fyrir hvern þá", spurði hún.  „Ég ætla að troða honum ofan í sjallana", svaraði ég og fann að ég skildi ástkæra eiginkonu mína eftir með stórt spurningamerki á vörum án þess að frá þeim bærist nokkurt orð.

Þessi pistill er um Sjálfstæðisflokkinn og ég sé af lengdinni á honum að þessi pistlaröð um stjórnmál verður eitthvað lengri en ég gerði upphaflega ráð fyrir. Ég á enn eftir nokkra flokka.

Það eru takmörk fyrir því hversu margar kjötlausar kjötbökur fyrirtæki geta sett á markað án þess að fara í þrot.  Og maður hefði haldið að flokkur sem hefur auglýst sig sem frasanum stétt-með-stétt sem trúlega reyndist nær stétt-rænir-stétt þegar hugmyndin var útfærð, sem hefur auglýst sig með frasanum: „Traust efnahagsstjórn-helsta velferðarmálið", sem í útfærslu líktist grískum efnahags-harmleik, hefði lært að hafa kjöt í réttinum þegar innihaldslýsingin kvæði á um það.

Undir engum kringumstæðum og ég endurtek, UNDIR ENGUM KRINGUMSTÆÐUM, auglýsir flokkur með slíka forsögu landsfund með undirtitlinum: „Fyrir Heimilin", og notar hann svo í að leggja á ráðin um hvernig hann ætlar endanlega að leggja þau í rúst með því að viðhalda verðtryggingu og yfirveðsetningu. Og framhaldið af þessu væri fyndið ef það væri ekki svona sorglegt.  Í bakherbergjum á þessum landsfundi hefur það þótt við hæfi, að senda þá sem reyndu að selja almenningi síðustu kjötlausu kjötböku sem hét „traust efnahagsstjórn", á vettvang til þess að markaðssetja þessa nýjustu afurð. Og því verður ekki lýst öðruvísi en sem mannlegum harmleik þegar Illugi Gunnarsson var á mánudeginum eftir landsfund í Bítið á Bylgjunni að reyna að sannfæra Heimi og Kollu um að það væri raunverulega kjöt í uppskriftinni; og það sem væri í raun og veru vont fyrir heimlin væri gott fyrir þau.  Það er ekki að sökum að spyrja. Fylgið er á leiðinni niður í klóakið og kemur ekki tilbaka nema að rörin verði tekin upp og þeim hallað í hina áttina.

Andstætt Össuri, sem spilar á svart eða rautt þangað til hann vinnur, þá er eins og að það hvíli sú bölvun yfir Bjarna Ben að geta spilað 100 sinnum á svart eða rautt og tapað í öll skiptin.  Gæfuleysið í ákvarðanatöku er með ólíkindum. Og hafi Sjálfstæðismenn haldið að Hanna Birna væri „svarið" þá má segja að eftir frammistöðu hennar í kjötbökusölunni eftir landsfundin, ríki nokkur óvissa um hver gæti þá verið „spurningin". Það er hérna sem frasarnir koma inn í myndina. Í þeim viðtölum sem hún fór í eftir landsfundinn þá hefði verið hægt að mála á hana grátt Árna Páls skegg og þið hefðuð ekki þekkt á þeim muninn. Frasar alveg þangað til að fólk örmagnast, „stétt-með-stétt", „fyrir atvinnulífið", „20/20", „upp úr hjólförunum", „samtal við framtíðina" ...

En eitt af megin vandamálum Sjálfstæðisflokksins kristallast í umræðum á landsfundinum um verðtrygginguna. Það er það sem ég hef stundum kallað „ræflavæddur kapítalismi". Flokkurinn boðar tiltölulega frjálsan kapítalisma en ræflavæðir hann við öll tækifæri.  Birtingarmyndin af þessu er þannig að þeir treysta sér ekki til þess að keppa nema með einhverri forgjöf. Þeir þurfa að fá auðlindirnar gefins, einokun á markaði, skattfrelsi, ríkisfyrirtækin gefins, bankana gefins, orkuna gefins því annars er hætta á því að þeir verði ekki moldríkir. M.ö.o. trúin á kapítalismann takmarkast við hagnaðinn en hverfur við tapið. Og þegar kom að verðtryggingunni þá var kjötbakan klædd í umbúðir viðskiptafrelsis en er í raun ekkert annað en tilraun til þess að tryggja fjármagnseigendum hagnað án þess að þurfa að kunna fótum sínum forráð á markaði.

Sjálfstæðisflokkurinn er meira að segja með einstaklinga í framboði eins og Vilhjálm Bjarnason sem er fjárfestir og leggur áherslu á óheft frelsi til verðtryggingar. Vilhjálmur kennir við einhvern háskólann og maður hefði haldið að einstaklingur með akademíska tengingu myndi endurspegla það með akademískum vinnubrögðum þegar hann mótar eigin skoðanir. Hver sá sem boðar verðtryggingu í dag verður að minnsta kosti að svara þeirri gagnrýni sem komið hefur fram frá fræðimönnum og leikmönnum um verðbólguhvetjandi áhrif verðtryggingar. Þessi áhrif voru í fyrsta skipti metin tölulega í nýlegri grein Jacky Mallet sem birt var á vef  Cornell University. Þar fyrir utan þá hafa bæði Frosti Sigurjónsson og Ólafur Margeirsson bent sögulega fylgni peningaprentunnar bankastofnanna (sem taka sér ávalt stöðu með verðbólgu) og verðbólgu. Fjölmargir aðilar hafa bent á neikvæð áhrif verðtryggingar á möguleika Seðlabankans til þess að hemja þenslu.  Skortir fólk, sem hefur farið í gegnum eina efnahagsbólu með 18% stýrivöxtum, virkilega einhver dæmi þess að stýrivextir eru máttlaust tæki í verðtryggðu hagkerfi?      

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn megi vera sáttur ef hann fær 20% en ég ætla að leyfa mér að draga það í efa að hann nái því.  Ég áskil mér hins vegar rétt til þess að hafa rangt fyrir mér með þetta. Enn á stór hluti kjósenda eftir að gera upp hug sinn en ég væri hissa ef sá hópur, sem að einhverju leyti er fólk sem fyrirlítur stjórnmál, tæki upp á því núna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn - „fyrir heimilin".

Ég las það svo á netmiðlum þegar ég fór með lestinni í vinnuna í morgun að Framsókn er að mælast með 40% en sjallarnir eru komnir í tæp 18%.  Maðurinn með ljáinn fer trúlega hraðar yfir en ég gerði ráð fyrir þegar ég skrifaði pistilinn í gær.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Ég var að lesa grein á Eyjunni og svo nokkur "kommet", sem ég er reyndar að mestu hættur að lesa, því þar eru sömu mennirnir alltaf að skrifa og venjulega eintómt skítkast. Svo rakst ég á skrif frá "Seiken" sem voru málefnaleg, jafnvel með broslegu ívafi, sem benti til þess að maðurinn hefði húmor. Og ekkert skítkast! Það var svo óvenjulegt á Eyjunni, að ég smellti á Seiken og kom þá inn á þessa ágætu bloggsíðu. Hér eru pistlar sem eru skemmtilegir, svo maður brosir við lesturinn, málefnalegir, þú setur fram ákveðnar skoðanir, án skítkasts og svo ertu vel máli farinn. Þrír kostir, sem prýða blogg sem ástæða er til að lesa.   Ég skora á þig að halda áfram að skrifa.

Hákon Hansson (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 09:49

2 Smámynd: Benedikt Helgason

Takk fyrir það Hákon. Reyndar finnst frúnni ég vera alveg á grensunni með dónaskapinn og ég reyni að taka mark á því til þess að halda góðan frið á heimilinu.

Eyjan var oft á tíðum fín þarna í "gamla daga" ef horft var framhjá verstu eiturspýjunum. Synd hvernig þeir fóru með hana. 

Benedikt Helgason, 8.4.2013 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband