Steingrímur og erlendir kröfuhafar

Steingrímur J. Sigfússon skrifar grein á Vísi í dag með yfirskriftinni: „Ísland og erlendir kröfuhafar".

http://www.visir.is/island-og-erlendir-krofuhafar/article/2013704139985

Í henni fer hann fögrum orðum um eigin frammistöðu í sambandi við setningu laga í mars 2012 sem gera Seðlabankanum kleift að koma í veg fyrir greiðslur úr þrotabúum gömlu bankana til erlendra kröfuhafa. Það er svo sem allt gott um það að segja; ef það er enginn sem hrósar manni þá verður maður að gera það sjálfur.

Reyndar bendir Lúðvík Júlíusson, sem trúlega er bloggara fróðastur um framkvæmd og sögu gjaldeyrishaftanna, á að með lögunum frá í mars 2012 hafi Alþingi í raun bara verið að lagfæra eldra klúður, en látum það liggja á milli hluta.

http://ludvikjuliusson.blog.is/blog/ludvikjuliusson/entry/1292547/

Í greininni fer Steingrímur í grófum dráttum yfir stöðuna. Hann telur erlendar eignir þrotabúa gömlu bankana vera ca. 1600 milljarða, þar ofan á komi 400 milljarðar í krónueignum sem bætast þá ofan á upphaflegu snjóhengjuna sem var upp á aðra 400 milljarða. Þessar tölur eiga sennilega bara við um Arion og Íslandsbanka og tilsvarandi þrotabú, en alla vega. Steingrímur telur að útgreiðsla erlendu eignanna til kröfuhafa, eftir því sem þær breytast í reiðufé í erlendri mynt, hafi ekki bein áhrif á gjaldeyrisjöfnuð landsins vegna þess að þetta lendi utan hagkerfis.

Hér er rétt að staldra aðeins við.  Ég held að ég sé ekki að móðga neinn þegar ég segi að við höfum ekki sérstaklega jákvæða reynslu af því að láta núverandi stjórnvöld sjá um samninga fyrir okkur við erlenda aðila.  Þau hafa í raun samið þjóðina í greiðsluþrot og ég kem betur að því á eftir.  Og enn er höggvið í sama knérunn.  Mér er spurn: Af hverju í ósköpunum ættum við að taka erlendu eignir þrotabúanna út fyrir sviga og fara svo að semja um hversu mikinn gjaldeyri við eigum að skuldsetja landið fyrir, til þess að koma 800 milljarða virði af krónueignum úr landi?  Ef þetta er planið þá er þetta næsta Icesave-mál. Það er ekkert flóknara.

Hér er rétt að hafa í huga að íslenska ríkið skuldar þessum kröfuhöfum ekki neitt og ber engin skylda til þess að taka lán fyrir gjaldeyri svo þetta lið geti farið úr landi.  Það liggur í augum uppi að það hlýtur að vera samningsmarkmið Íslendinga í þessu máli að kröfuhafar fari úr landi með erlendu eignirnar en við fáum allar krónueignir á móti.  Kröfuhafarnir væru þá að fara út á genginu (1600+800)/1600*160 kr/Evra = 240 kr/Evru og mættu vel við una.  

En af hverju er þetta ekki samningsafstaða velferðarstjórnarinnar?

Ég geri ráð fyrir að þetta hafi með Icesave málið að gera því að til þess að það sé hægt að semja við kröfuhafa á þessum nótum, þá þarf maður að vera tilbúinn til þess að hóta því að gera upp þrotabúin í íslenskum krónum. Það blasir við að velferðarstjórnin, sem lofaði ESB að ganga frá Icesave áður en sótt yrði um í sambandið, hefur engan áhuga á því að gera upp gamla Landsbankann í íslenskum krónum.  Eftir fyrstu Icesave þjóðaratkvæðagreiðsluna snemma árs 2010 þá var nýi Landsbankinn endurreistur með því að gefa út skuldabréf í erlendri mynt sem lagt var inn í þrotabú gamla bankans.  Það fæst ekki séð að nýi Landsbankinn hafi tekið við neinum erlendum eignum á móti þessu skuldabréfi (þið megið leiðrétta mig ef þið vitið betur) og þetta lyktar einfaldlega eins og tilraun til þess að koma Hollendingum og Bretum framhjá gjaldeyrishöftunum með krónueignir.

Það sem er svo tragíókómískt við þetta mál er að gjaldeyristekjur þjóðarinnar duga ekki til þess að standa undir greiðslum á þessum skuldabréfi. Meira að segja Már Guðmundsson viðurkennir það.  Fræðilega séð er því búið að semja okkur í þrot.  Hvað gengur fólki til sem gengur svona frá málum?  Það eru ekki einu sinni liðin 3 ár frá því að þetta skuldabréf var gefið út með aðkomu Steingríms og það er byrjað að valda vandræðum meira að segja áður en til stóð að fara að borga af höfuðstólnum sem upphaflega var áætlað að hæfist 2015 ef ég man rétt!

Steingrímur heldur því einnig fram að það skaði á einhvern hátt samningstöðu Íslendinga að Framsókn sé að boða það hvernig hún óski að ráðstafa hluta af þessum krónueignum, áður en þessi mál eru kláruð.  Þessi fullyrðing stenst enga skoðun.  Fyrir það fyrsta þá tókst s.l. haust, sennilega fyrir ábendingar innan úr bankakerfinu eða ábendingar frá Heiðari Már Guðjónssyni, að koma í veg fyrir að gengið yrði frá nauðasamningum þrotabúanna við kröfuhafana sem hefðu trúlega rústað öllum möguleikum okkar á að ganga frá þessum málum með farsælum hætti. Í framhaldinu féllu kröfur á gömlu bankana í verði sem væntanlega endurspeglar að kröfuhafar töldu sig vera að missa af góðum díl.  Í öðru lagi þá bendir asinn, við að reyna að ganga frá sölu á bönkunum til Lífeyrissjóða fyrir kosningar, ekki til annars en að kröfuhafar telji sig vera í betri málum með núverandi stjórnvöld en þá stjórn sem tekur við eftir kosningar. Það er því væntanlega eftir einhverju að slægjast fyrir Íslendinga ef þeir fara að standa í fæturna.

Það eina sem rýrir samningsstöðu Íslendinga í þessu máli er í raun aðkoma norrænu velferðarstjórnarinnar að því. Sú stjórn sem tekur við eftir 27. apríl verður að gera það að sínu fyrsta verkefni að fara að taka sér stöðu með þjóðinni í þessu máli. Góð byrjun væri að skoða möguleikana á því að gera upp þrotabú allra bankana í krónum og skipta um Seðlabankastjóra. Það myndi senda kröfuhöfum þau skilaboð að sá tími, að þeir geti skroppið upp í SÍ til þess að drekka kaffi og spjalla, sé liðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband