Að kjökra sig til valda

Þróunin í kosningabaráttunni undanfarna daga hefur verið athyglisverð.  Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Samfylking virðast vera að ná að kjökra dálítið fylgi aftur heim í hús en Framsókn leiðir áfram. Samt er fylgið eins og massar á tveimur strengjum; vinstri strengurinn hefur allt þetta kjörtímabil haft 40% fylgi.  Það sem týnist af Bjartri Framtíð fer yfir á  Samfylkingu og öfugt en líkurnar á því að fylgið hoppi yfir á hægri strenginn virðast engar.  Hann geymir 60% af fylginu þar sem Framsókn og Sjallar skiptast á að halda á því.

Nú virðist fylgi streyma frá BF yfir á SF hraðar en áður og skyldi kannski engan undra.  Þegar ríkið skuldar ca. 2000 milljarða, Íbúðalánasjóður er 150 milljarða hola í jörðinni og yfir hagkerfinu hangir 1000 milljarða snjóhengja, þá er það ekki boðlegt að boða stefnu sem heitir „ekkert vesen".  Það er eins og að koma að bílslysi og keyra bara áfram af því að maður „nennir ekki neinu brasi". Þá virðist Guðmundur Steingríms vilja ganga stjórnmálamanna lengst í sleikjugangi við eigendur krafna á þrotabú gömlu bankana og skortir þó enga samkeppni frá ÁPÁ í þeim leik. Þvílík framtíðarsýn.  Hún er að minnsta kosti ekki björt og kjósendur virðast vera að átta sig á þessu.

Um leið og fylgi Sjallana fór að aukast eftir að Bjarni mætti eins og blautur kettlingur í sjónvarpssal og Hanna Birna í framhaldinu boraði sínum pólitíska ferli 6 fet niður í jörðina, þá var eins og að Össur hefði loksins náð að kaupa rafhlöður í vasareikninn. Hlaðinn 2x6 volta spennu sýndu stafirnir á skjánum núna að ef úrslit verða eins og kannanir vikunnar gefa til kynna þá er aðeins eitt tveggja flokka mynstur í kortunum og það er xB og Sjallar með 38-40 þingmenn.  Össur er ekki vitlaus.  Hann sér að ef að þetta verða úrslitin þá getur hann trúlega gleymt ESB umsókninni og þar með væri allt eins hægt að leggja Samfylkinguna niður.

En Árni Páll ber sig mannalega. Það er eins og að hann hafi fundið ofurlítinn vott af karlmennsku neðst í pokahorninu eftir að honum fór að vaxa skegg.  Í staðinn fyrir að skjálfa á beinunum og tísta um að „enginn mannlegur máttur getur leiðrétt þessar skuldir", eins og hann er búinn að gera allt kjörtímabilið, þá er hann farinn að skora menn á hólm í kappræðum. Og Guð hjálpi mér ef að andstæðingurinn fær ekki líka að velja sér stað og stund. Þá lýsti hann því yfir í vikunni að heldur myndi hann sætta sig við lítið fylgi en að koma með einhvern loforðaflaum. En það er nú reyndar ekki eins og að ÁPÁ eigi eitthvert val í þeim efnum. Hann komst inn á þing undir loforðaflaumnum  „skjaldborg um heimilin".  Sá brandari gengur trúlega ekki tvisvar í sama áheyrendaskarann.

Stóra ósvaraða spurningin í þessum kosningum er hvert þau 30-40% kjósenda sem neita að gefa upp afstöðu sína í könnunum ætla með atkvæði sín. Ég er ekki frá því að eitthvert nýju framboðanna gæti átt inni hjá þessum hóp.  Svo er auðvitað ekki hægt að útiloka að þetta fylgi skiptist á fjórflokkinn með öðrum hætti en kannanir gefa nú til kynna.

Það er vika í þetta. Ég mun vaka fram eftir á kosninganóttina og stappa í mig gulrótum og vatni til þess að halda mér gangandi þar til úrslit eru orðin ljós. Pop og kók verða að bíða fram yfir 4. Maí þegar ég tek þátt í 115 km hlaupinu í hæðunum í kringum Zurich vatnið. Ég blogga um það seinna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband