1.5.2013 | 16:19
Mjólk og grenjukex
Það þarf ekki að rífast um kosningaúrslitin. Þegar jafnvel samfylkingarfólk er farið að viðurkenna að það hafi tapað þá er manni óhætt að kalla það afhroð. Og nú höggva þeir í hvern annan, fyrrverandi þingmenn án atvinnu og svo formaðurinn. En er ekki full ástæða til þess fyrir Samfylkingarfólk að klára að maula í sig grenjukexið og skella bara í sig mjólkinni? Ég sé ekki betur en að flokkurinn komi vel til greina sem aðili að næstu ríkisstjórn. A.m.k. eins og staðan er núna í stjórnarmyndunnarferlinu.
Á tímabili um kosninganóttina leit út fyrir að VG slyppi eitthvað betur en Samfylkingin en það má svo sem vart á milli sjá. Hins vegar held ég að Katrín Jakobs hafi gert vel á lokasprettinum í að tjóðra hundana og keyra kosningabaráttuna á blíðari nótum. Það bjargaði trúlega því sem bjargað varð hjá flokknum.
En það er auðvitað athyglisvert að Samfylkingin, sá flokkur sem lagði upp með neikvæðustu kosningabaráttuna, geldur stærst afhroðið. Velferðarfjölmiðlarnir hömuðust á Framsóknarflokknum allt kjörtímabilið og hafa eytt dálkfermetrum undanfarnar vikur í að fara persónulega á eftir t.d. Sigmundi Davíð í sambandi við námið hans og reyna að draga upp gamlar stöðumælasektir hjá öllum frambjóðendum sem voru líklegir til þess að hafa fylgi af velferðarflokkunum. Þá lá gjaldkeri Samfylkingarinnar, ásamt vel þjálfuðum rökkum, linnulaust inni inni á fésbókar síðu Frosta Sigurjónssonar dagana fyrir kosningarnar á fullu við að reyna að grugga vatnið og draga heiðarleika hans í efa. En svona hugsa auðvitað bara taparar og niðurstaðan eftir kosningarnar er sú að Samfylkingarbústaðurinn lítur út að innan eins og sprengdur kamar.
Í framhaldinu fer núna fram fyrir opnum tjöldum einhvers konar naflaskoðun Samfylkingarfólks um hvað hafi farið úrskeiðis. Dofri Hermannsson veltir þeirri hugmynd fyrir sér hvort að rétt sé að leggja flokkinn niður og byrja í raun bara upp á nýtt. Sú hugsun er vissulega áleitin en hins vegar held ég að Sigmundur Davíð hafi nú engu að síður sýnt fram á að það er hægt að endurreisa ónýt vörumerki þrátt fyrir að þau hafi í gegnum tíðina verið notuð af óprúttnum aðilum sem farartæki fyrir vafasöm markmið.
En í stað þess að benda bara á foringjann sem einu rót vandans þá held ég að það væri góð byrjun hjá hinum almenna Samfylkingarmanni að svara eftirfarandi spurningum:
Sætti ég mig við að þingflokkurinn hafi verið tilbúinn að samþykkja Icesave I án þess að fá að lesa samninginn?
Sætti ég mig við leyndarhyggju þegar stjórnin mín lofaði opinni stjórnsýslu?
Sætti ég mig við að ráðherra bankamála beiti sér ekki þegar verið er að vörslusvipta fólk eigum sínum á veikum lagalegum grunn?
Sætti ég mig við að flokkurinn minn kom í veg fyrir að stuðlað yrði að flýtimeðferð í dómsmálum lántakenda?
Sætti ég mig við að hræðsluáróður og neikvæðni eru aðalsmerki flokksins?
Sætti ég mig við að FME svipti ekki fjármálafyrirtæki starfsleyfi þegar þau fara ekki eftir fordæmisgefandi hæstaréttardómum?
Sætti ég mig við að þingmenn mínir tali niður til fólks í fjárhagslegum vandræðum?
Sætti ég mig við að forusta flokksins, sem árum saman hefur talað fyrir afnámi verðtryggingar, neiti að beita sér fyrir afnámi hennar þegar flokkurinn kemst í stjórn?
Sætti ég mig við að velferðarstjórnin endurreisi bankana og fái að halda samningunum leyndum fyrir alþjóð?
Sætti ég mig við að velferðarstjórnin standi að útgáfu á gjaldeyrisskuldabréfi af hálfu ríkisbankans sem gerir hann ógjaldfæran?
Sætti ég mig við að bloggher flokksins fari persónulega á eftir öllum sem eru flokknum ósammála?
Kaustu formann sem festi í lög eignaupptöku hjá lántakendum með gengistryggð lán?
Ef svarið við öllum þessum spurningum er já þá er sko ekki ástæða til þess að leggja niður flokkinn þín vegna. En á sama tíma þá ertu jafnframt búin(n) að komast að því hver er munurinn á þér og þeim sem kusu ekki flokkinn. Þeirra svar við einhverri eða öllum af ofangreindum spurningum var nei.
Um bloggið
Benedikt Helgason (Seiken)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Meira bullið. Ég hefði t.d. ekki boðið í það ef við hefðum ekki reynt að semja um Icesave. Þú kannski varst erlendis en Ísland var bara ekki í neinni annarri stöðu en að reyna að semja þar sem við áttum ekki gjaldeyrir fyrir nauðþurftum. Ríkissjórn ræður ekki yfir FME það er sjálfstætt því annað biði upp á bein afskipti ráðherra að málefnum einstakra fyrirtækja. Afnmám verðtrygginar hjálapar ekki skuldugum. Því að það er bannað að láta það gilda á þegar gerða samaninga. Flokkurinn hefur ekki talað fyrir afnmámi verðtrygginar. Eini þingmaður hans sem það hefur gert er Jóhanna og gerði það 1997. Þetta er bara ekki svona auðvelt. T.d. þá voru nær öll verkalýðsfélög á móti því nema á Akranesi og Húsavík. Bankarnir eru vissulega endurreistir en vildir þú að almenningur væri nú í málaferlum við þrotabúin að ná út peningum sínum þar sem og lífeyrissjóðir. Ríkisstjórn kom ekki í veg fyrir að komið yrði á flýtimeðferð. Það er Alþingis að gera það. Og í gær féll einn dómur sem vísaði frá máli sem varðaði vertryggingu og að hún væri ólögleg. Það þurfiti að kaupa innistæður út úr gamla Landbanknaum og það var aðeins hægt að gera með skuldabréfi í gjaldeyrir á þeim tíma sem það var gert . Annars ættum við þann banka ekki í dag. Og svo framvegis og framvegis. ekki trúa öllu sem HH og stjórnarandstaðan hefur sagt.
Svo að lokum. Það var Árni Páll sem tók við Icesave eftir seinni þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hann kallaði alla aðila að borðinu. M.a. Indefence og Atac hópin ásamt stjórnarandstöðu. Og skpaði síðan lögfræðiteymið sem vann málið fyrir okkur og telst afrek um alla Evrópu.
Magnús Helgi Björgvinsson, 1.5.2013 kl. 16:58
Ég dreg það ekki í efa eitt augnablik Magnús Helgi að þú hefðir sagt „já“ við öllum þessum spurningum og þó þær hefðu verið fleiri.
Semja um Icesave! Þið reynduð ekki bara að semja um Icesave. Það var varla liðin vika frá hruni þegar þið beinlínis kröfðust þess að fá að borga þetta hvað sem liði öllum lagarökum bara af því að krafan kom frá ESB. Og það er eitt að semja um Icesave og annað að semja um gjaldþrot þjóðarinnar og fara svo fram á að þingmenn skrifi undir það án þess að lesa samninginn. Það var gáfnapróf sem ekki einn einasti þingmaður SF virðist hafa staðist.
Nei, hvernig læt ég. Jóhanna er auðvitað bara óbreyttur Samfylkingarmaður og það sem hún kann að hafa sagt um verðtryggingu á árum áður skiptir auðvitað engu máli þegar hún er orðin forsætisráðherra. Og svarið er „nei“, Jóhanna er ekki sú eina sem hefur talað fyrir afnámi verðtryggingar á árum áður. Það gerði SJS líka. Staðreyndin í þessu verðtryggingarmáli er einfaldlega sú að norræna velferðarstjórnin er að nota verðtrygginguna sem svipu til þess að fá fólk til fylgilags við ESB aðild. „Siðlaust“ er eitt af orðunum sem kemur upp í hugann í þessu sambandi.
Það getur einfaldlega ekki verið að þú trúir því að það hafi verið nauðsynlegt að gefa út skuldabréf upp á 300 milljarða og greiða af því með gjaldeyri til þess að bjarga íslenskum innistæðum gamla Landsbankans. Staðreyndin er sú að nýi Landsbankinn var endurreistur eftir að búið var að fella fyrsta Icesave samninginn. Til þess að mæta skuldbindingum vegna innistæðna á Íslandi tók nýji bankinn yfir lánasöfn úr þrotabúinu. Ef þú getur bent mér á hvaða erlendu lánasöfn það voru sem réttlættu útgáfu á 300 milljarða gjaldeyrisskuldabréfi þá mátt þú endilega gera það. Þangað til þá vel ég að trúa því að þetta hafi verið gjafagerningur sem settur var á svið til þess að koma Bretum og Hollendingum framhjá gjaldeyrishöftunum. Hafðu það svo í huga að þetta skuldabréf setur þjóðina í greiðsluþrot í erlendri mynt innan fárra ára ef ekki fæst á það endurfjármögnun.Benedikt Helgason, 1.5.2013 kl. 18:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.