17.6.2013 | 21:37
Um listina að stappa í sig pönnukökum
Mér var skipað að vera jákvæður, af því að það er 17. Júní, þannig að ég byrja á einhverju öðru en pönnsunum.
Það er búið að vera heitt undanfarið. Um helgina fór hitinn í ca. 27 gráður en í dag, á morgun og hinn erum við að tala um 33-34 gráður. Og að sjálfsögðu engan vind. Ég vel mér að jafnaði heitustu dagana til þess að fara út að hlaupa, til þess að spara mér upphitun, en ég man þó ekki eftir að hafa lagt í hann í jafn heitu veðri og í dag. Og ég er að segja ykkur það, að þegar ég lagði af stað frá skrifstofubyggingunni okkar og út í skóg, þá hafði ég á tilfinningunni að ég myndi þurfa að virkja sjúkratrygginguna mína áður en yfir lyki. Frá húsinu og að fyrstu trjám eru ca. 100 metrar án nokkurs skugga og það var bara eins og að hlaupa inni í gufubaði. En þetta lagaðist þegar ég komst í skuggann inni í skógi.
Auðvitað er það dáltið bratt að kalla þetta hlaup en maður kemst upp með það þegar það eru engin vitni. Það væri nær að kalla þetta að berast undan andvaranum. Hinn eiginlegi tilgangur með þessu puði mínu er auðvitað sá að ég geti stappað í mig meiri ís og þá helst með betri samvisku. Reyndar vóg frúin að frelsi mínu til ísinntöku á laugardaginn þegar hún sagði mér að hún hefði lesið að minn uppáhalds ís væri búinn til úr ódýrri, margunninni dýrafitu sem væri bragðbætt með einhverjum gerviefnum til þess að ná fram ísbragðinu.
Ég neita því ekkert að þetta vakti mig til umhugsunnar, a.m.k. rétt á meðan ég var að greiða fyrir síðasta íspinna. En það rifjast upp fyrir mér í þessu samhengi að við karlmenn erum oft taldir innihalda sömu efni og pylsur, þ.e.a.s. ca. 80% fitu og 20% svín. Það er ekkert ósvipað og innihaldið í íspinnunum mínum og þessi efni hafa dugað mér bærilega fram að þessu.
En nú skulum við snúa okkur að pönnsunum því það eru fleiri að stappa í sig þessa dagana en ég. Og ekki get ég hugsað mér að skrifa heilan pistil byggðan eingöngu á innihaldslausri jákvæðni. Alla vega þá hefur Steingrímur J. áhyggjur af því að valdhafarnir séu sífellt að úða í sig í stað þess að vinna. Ég skal játa það að ég hefði getað hugsað mér að Steingrímur hefði eytt meiri tíma í að stappa í sig en að vinna að sínum óhæfuverkum eins og t.d. að semja nýja Landsbankann í þrot. Svo kvartaði Össur yfir því að nýja stjórnin væri ekki með neitt plan og ég skal líka játa það að ég hefði getað hugsað mér að Össur hefði verið með færri plön um inngöngu í ríkjabandalög og sleikjugang við andstæðinga okkar á meðan hann réði ríkjum í utanríkisráðuneytinu.
En SJS og Össur, að ekki sé nú talað um Ögmund sem uppgvötvaði það ekki fyrr en eftir kosningar að það væri til innanríkisráðuneyti, þurfa ekki að gera sér upp ímyndaðar áhyggjur af efndum eða vanefndum nýrrar stjórnar mín vegna. Ef nýja stjórnin svíkur lit þá dreg ég það ekki í efa að velferðar-skátarnir munu í nafni andstöðu við auðvaldið og samstöðu með þeim sem minna mega sín aðstoða við að bera nýju stjórninu út úr Stjórnarráðinu. En gleymum því hins vegar ekki, að enn sem komið er, þá hefur bara einni ríkisstjórn tekist að svíkja loforð um að reisa skjaldborg um íslensk heimili, hvað sem seinna kann að verða.
Um bloggið
Benedikt Helgason (Seiken)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.