Það var mikið

Það er margt athyglsivert að gerast í umræðunni um þessi mál þessa dagana. Kanarífuglarnir eru byrjaðir að syngja. Núna Jónas en fyrr í vikunni Ásgeir Jónsson hagfræðingur.  

En því ber auðvitað að fagna að fólk sem einhver nennir að hlusta á, eða að minnsta kosti rífast við, byrjar að gagnrýna uppbyggingu bankakerfisins. Ég hef öskrað mig hásan í netheimum frá því fyrir seinni Icesave atkvæðagreiðsluna um að útgáfa á skuldabréfi í erlendri mynt, af hálfu nýja Landsbankans til þess að greiða fyrir lánasöfn úr gamla bankanum, jafngildi árás á efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Útkoman úr því ferli má einungis verða annað að tvennu; að gamli bankinn verði settur í gjaldþrotameðferð og í framhaldinu gerður upp í krónum en ef það tekst ekki að þá verði þeir ráðherrar sem stóðu að útgáfu á þessu skuldabréfi látnir svari fyrir gerðir sínar fyrir Landsdómi, því tjónið verður hægt að sanna. En hver tekur svo sem mark á okkur vitleysingunum á blogginu. 

En það eru fleiri byrjaðir að syngja og renna stoðum undir "samsærirskenningar". Ég sé að Arnar Guðmundsson, sem mér skilst að sé fermdur inn í Samfylkinguna (ritari), skilur eftir sig þessa athugasemd við frétt um Jónas Fr. á Pressunni/Eyjunni:

"Ef ég man rétt var vandinn sá að Íslendingar höfðu ekki sjálfdæmi um verðmat á búum föllnu bankanna. Til að tryggja fullt gagnsæi og jafnræði innlendra og erlendra kröfuhafa (forsenda þess að það tókst að halda oopnum viðskiptum við umheiminn sem var fjarri því sjálfgefið eins og margir þekkja af eigin raun) voru fengin tvö alþjóðleg fyrirtæki. Annað bjó til matsaðferðina, hitt mat eignir á grundvelli hennar og svo voru niðurstöður yfirfarnar af fyrra fyrirtækinu. Auðvitað hefði verið gott að geta sett verðmiða einhliða".

Hér er í raun verið að segja að stjórnvöld hafi látið hóta sér til þess að byggja upp bankakerfið með þeim hætti að kröfuhafar næðu að hámarka innheimtur með hjálp stjórnvalda og geta núna tekið hagnaðinn af uppfærslu lánasafnanna inn, hvort sem hann kemur fram í nýju bönkunum eða þrotabúunum.  Og leyfið mér að giska.  Hin raunverulega "hótun" sem velferðarstjórnin stóð frammi fyrir var sú að ESB umsóknin fengi ekki framgang nema að sleikjugangur við evrópska kröfuhafa væri innbyggður í endurreisn bankakerfisins.  Skuldabréfaútgáfa nýja Landsbankans ber þessu glöggt vitni.

Og afleiðingarnar af þessu eru hrikalegar. En gleymið því aldrei lesendur góðir að þetta er hin raunverulegi kostnaður við ESB umsóknina. En það þurfti auðvitað sérstaka snillinga til þess að velja að fara þessa leið í stað þess að klára hrunmálin og fara svo í ESB umsóknina í framhaldinu þegar skútan væri laus af strandstað.

Og talandi um strand.  Ég hef svo sem ekki viljað álasa Jónasi eða t.d. Geir fyrir frammistöðuna á strandstað.  Þar heppnaðist margt vel. En það firrir menn hins vegar ekki ábyrgð á strandinu í sjóprófum.


mbl.is „Seldi“ ríkið bankana of lágu verði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Eins og jafnan áður er skörp sýn hjá Seiken á helstu meginefni sem fylgja bankahruninu. Það á varla að dyljast nokkrum manni sem fylgdist með uppbyggingu bankahrunsins að framvinda síðustu ára fyrir hrun, var svo víðs fjarri allri raunverulegri fjármálaþekkingu og skynsemi að þar gat ekki verið um óvitaskap eða ímyndaða öryggistilfinningu að ræða hjá hinum erlendu fjárfestum. Svo miklir og margir þungaviktarmenn í alþjóðlegu fjármálaumhverfi, höfðu um þriggja ára skeið fyrir hrun, lýst hættunni sem steðjaði að Íslandi með hinni gengdarlausu skammtíma skuldasöfnun bankanna. Þrátt fyrir allar þessar aðvaranir, fluttu hinir erlendu fjárfestar erlendan gjaldeyri að verðmæti rúmlega 7.000 milljarða ísl.kr. hingað til lands síðustu 18 mánuðina fyrir hrun. Er einhver ástæða til þess að þjóðin, sem hvorki átti bankana né naut einhvers af þessum gengdarlausa fjáraustri, taki á sig skuldbindingar vegna hreinlega glæpsamlegs kæruleysis hinna erlendu fjármagnseigenda? Glæpaverk þessi gátu hinir erlendu fjárfestar framkvæmt vegna hreins óvitaskapar hinna nýtilkomnu bankastjórnenda hér á landi, sem í óvitaskap sínum töldu sig geta kennt heimsbyggðinni hvernig ætti að græða peninga.

Í ljósi allra þessara staðreynda, sem lágu fyrir þann 6. október 2008, og höfðu þá verið ljósar íslenskum ráðmönnum í meira en 4 mánuði, voru viðbrögðin þann 6. okt. svo arfavitlaus að enga skynsemi er hægt að finna í þeim. Engin þörf var á neyðarlögum þar sem ríkið var hvergi í ábyrgðum vegna gömlu bankanna. Það eina sem ríkið þurfti að gera, þann 6. október 2008, var að stofna nýja ríkis viðskiptabanka, sem yfirtæki innlánsdeildir gömlu bankanna auk lánasafna þeirra í útlánaskuldabréfum (höfuðbók 75) og flokk viðskiptaskuldbindinga (höfuðbók 66) og láta alla glæframennsku og áhættufjárfestinga verða eftir í gömlu bönkunum. Með því að allir viðskiptagjörningar við önnur lönd væru komnir í nýjan banka með ríkisábyrgð, hefðu erlendir viðskiptaaðila ekki haft neina ástæðu til að óttast um sinn hag, þó erlendir glæfrafjárfestar væru að tapa gífurlegum fjárhæðum, sem þeir mokuðu til landsins eftir að búið var að gefa út alþjóðlega viðvörun um ósjálfbæra skuldasöfnun íslensku bankanna.

Ef þessi leið hefði verið farin, hefði aldrei orðið til neitt IceSave mál og engin snjóhengja. Við værum ekki í dag að bíða eftir lokauppgjöri gömlu bankanna, því búið væri að loka gjaldþrotaskiptum þar fyrir meira en ári síðan. Ríkissjóður skuldaði líklega meira en 1.000 milljörðum lægri fjárhæð en nú er talið og við værum ekki búin að vera hnýpin og ráðalaus að horfa á mörg þúsund fjölskyldur lenda á vergangi vegna hinnar ólögmætu lánastarfsemi gömlu bankanna.

Og hverjir eru það svo sem sigla þöndum fjármálaseglum vítt og breytt um heiminn? Jú alveg rétt. Það eru þeir aðilar sem framkvæmdu glæpina sem komu íslensku þjóðinni á vonarvöl. Og þeir nutu dyggilegrar aðstoðar við það frá algjörum fjármálaóvitum, hvort sem litið er til Seðlabanka, ríkisstjórnar, Alþingis eða dómstóla. Allir þessir aðilar hafa allan þennan tíma verið svo tryggir taglhnýtingar heimskunnar að með hreinum ólíkindum er. Hvort einhver skynsemisglæta er framundan kemur í ljós á næstu vikum og á komandi vetrarþingi.

Guðbjörn Jónsson, 11.10.2013 kl. 19:42

2 identicon

það fóru yfir 800 hundruð milljarðar í víkjandi lán til stóru bankanna fyrir hrun 2003-2008 og ég þekki soltið vel inn á Basel 2 regluverkið og samkvæmt þeim áhættugrunni sem að stóru bankarnir voru að nota og eru að nota en í dag þá eru þeir fjárfestingarbankar(Tier 1) og þeir máttu ekki fá þessi víkjandi lán og mig langar að spyrja Jónas Fr því ég veit að hann mun lesa þetta hvernig Seðlabankinn á að fara að því að ná þessum pening til baka ef það er þá hægt.

valli (IP-tala skráð) 11.10.2013 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband