10.8.2014 | 18:00
Maraþon undirbúningur
Ég hef verið latur að skrifa undanfarið en mér til varnar get ég sagt að ég hef verið nokkuð á flakki um heiminn þetta sumarið vegna vinnu. En aldrei þessu vant þá ætla ég ekki að nöldra í þágu einhvers vonlauss málstaðar; ég ætla að blogga um "hlaup".
Það var nánast upp á dag fyrir ári síðan að við ákváðum nokkrir félagar heima á Íslandi að stefna að því að hlaupa maraþon í Zurich í apríl 2015. Nú er svo komið að því að rapportera um hvernig undirbúningurinn hefur gengið hér suðurfrá. Auðvitað var mér það ljóst frá upphafi að þó að mér tækist að hlaupa þetta þá myndi ég líklega bara sjá félagana tvisvar á keppnisdaginn þ.e. við ráslínuna og svo þegar við værum að halda upp á "afrekið" um kvöldið að því gefnu að ég væri ennþá á lífi. Málið er að þeir eru frá náttúrunnar hendi skornir eins og gazellur, hannaðir fyrir langhlaup. Ég er hins vegar tiltölulega óverkaður frá náttúrunnar hendi.
En þetta smá kemur. Ég hef bara einu sinni þurft að fá saltvatn í æð á sjúkrahúsi vegna ofþornunnar og er farinn að hlaupa hálft maraþon með reglulegu millibili. Það sem ég hef hins vegar komist að er að hálft maraþon er bara hálft maraþon. M.ö.o. að þegar ég næ að skríða upp að hurð nær dauða en lífi eftir hafa farið 21 km þá er ég í raun bara hálfnaður með þá vegalengd sem ég er búinn að lofa að hlaupa í apríl á næsta ári.
En ég er auðvitað með plan eins og góðum tæknimanni sæmir. Mér sýnist að ef að náttúran nær að skera mig niður um 4-5 kg í viðbót við það sem þegar er farið af og að ég næ að bæta mig í vegalengd um ca. 4-5 km í ofan á þá 4-5 km sem ég geri ráð fyrir að þyngdartapið skili mér, þá er ég kominn vel norðan meginn við 30 km. Restina hlýtur að mega komast á hreinni örvæntingu sem hefur fram að þessu skilað mér þó nokkrum kílómetrum.
Sem liður í þessu plani hjá mér var að reyna við 23 km í dag en það var heitt og reyndar svo heitt að frúin, sem undanfarið hefur tekið að sér að vera héri fyrir mig, neitaði að hlaupa. Ég lagði hins vegar af stað, án héra, fullur af bjartsýni sem var horfin vega allrar veraldar eftir einungis 2000 metra þrátt fyrir að ég væri í nýjum hlaupabomsum og með nýja derhúfu. Eftir það var þetta bara ströggl við að koma sér styttri leiðina heim sem er 13.5 km.
Næsta vika býður upp á þægilegra hlaupaveður hér suðurfrá og ég geri ráð fyrir að reyna aftur við 22-25 km einhvern næstu daga. Ef heilsan helst svo góð þá stefni ég að því að skrá mig til leiks í Lausanne hálfmaraþon í október. Ég læt ykkur vita hvernig það gengur en ekki búast við miklu. Ég verð ykkur hins vegar ekki til skammar, ég er vanur að hlaupa í bol með íslenska fánann á réttunni og norska fánann á röngunni. Ef illa gengur þá sný ég norska fánanum út á við rétt áður en ég kem í mark. Menn geta þá dundað sér við að hæðast að "norska" hálvitanum sem varð sér til skammar á keppnisdag en við það tekur íslenskt orðspor engan skaða.
Um bloggið
Benedikt Helgason (Seiken)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 1009
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.