19.4.2015 | 14:57
Maraþon í Zurich yfirstaðið
Við hlupum þetta í morgun og ég ætla að byrja á tímum félaganna áður en ég segi frá mínu hlaupi en drengirnir áttu frábæran dag. Gylfi Örn Gylfason stefndi að því að fara undir 3 klst og 5 mínútur og kemur í mark á 3:02.33,9. Anton Örn Schmidhauser, stefndi að því að komast undir 3 klst og 30 mínútur í sínu fyrsta maraþoni, og kemur í mark á 3:24.37,8. Æðislegir tímar tímar hjá þeim félögum.
Eins og ég skrifaði í pistilinn í gær þá var ég með þann draum að komast í mark án þess að taka leigubíl og svo kannski í einhverju glópaláni að komast undir 4 klst. Það hafðist, með naumindum þó, en tíminn minn er skráður 3:59.33,5. Það leit reyndar ekkert sérstaklega vel út á tímabili því ég feilreiknaði mig örlítið í fyrri hluta hlaupsins. Ég kom frekar seint inn í start slottið og það var töluverður spölur í 4:00 fána hlauparana þegar við lögðum af stað. Ég beit það hins vegar í mig að þetta hefðu verið 3:45 fánarnir og ég sá ekkert athugavert við að láta þá hverfa mér sjónum. Það er svo ekki fyrr en ég er að nálgast Meilen, þar sem snúið er við eftir ca. 25 km hlaup að ég mæti 4:00 fánunum sem eru þá nokkrum mínútum á undan mér. Þá var mig reyndar farið að gruna að ég væri eitthvað að klúðra þessu því það stemmdi ekki við mælingarnar á úrinu mínu að ég væri með 4:00 fánana fyrir aftan mig.
Ég byrjaði að fá verki í læri og kálfa þegar við km 6 sem entust mér alveg til loka hlaupsins en það var aldrei óyfirstíganlegt og allan daginn þá hafði ég gott bensín í bomsunum. Ég ákvað því að reyna að ná 4:00 fánunum og herti á mér allan seinni hluta hlaupsins. Þannig er seinna hálfmaraþonið mitt ca. 3 mínútum hraðara en fyrra hálfmaraþonið mitt. Síðasti fjórðungurinn minn er sá hraðasti í hlaupinu en hann var farinn á hreinni illsku. Það munaði svo um minna í lokinn að á km 39 þá kem ég auga á Oddnýu og Halldór sem hlupu 10 km fyrr um daginn en voru mætt á hliðarlínuna til þess að hvetja fólk áfram. Það fór um mig ótrúlegur adrenalínstraumur þegar ég heyrði í þeim og síðustu 3 km eru hröðustu kílómetrarnir í hlaupinu mínu. Þessi lokaspölur er hlaupinn inni í miðborg Zurich og í tvígang þurfti ég að öskra ACHTUNG þegar fólk var að lauma sér yfir brautina en því var auðvitað nokkur vorkunn því það býst enginn við að það séu einhverjir hálfvitar að taka endasprett eftir tæplega 4 klst hlaup bara til þess að ná einhverjum hallærismarkmiðum sem öllum er sama um. En hvað um það, það var gaman að geta sett inn aðeins meira í lokin og lofar góðu fyrir frekari bætingu í framtíðinni.
Með öðrum orðum, hlaupið gekk framar björtustu vonum hjá okkur öllum og þar kann að hafa ráðið einhverju um að aðstæður voru fáranlega góðar. Það var sól allan tímann og léttur andvari en aldrei svo heitt að maður þyrfti að hlaupa inn í skuggana sem er algengt þegar maður hleypur hérna suðurfrá.
Við ætlum að fagna þessu með því að fá okkur steik niðri í bæ í kvöld. Og ég ætla að fá mér franskar sem hafa verið á bannlista í langan tíma. Ef maður á ekki skilið að fá sér lúku af transfitu eftir að hafa leikið íþróttaálf allan daginn þá veit ég ekki hvenær maður á það.
Um bloggið
Benedikt Helgason (Seiken)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 1009
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.