Sakvæðingin - Stjórnmál 1

Ég var inni í eldhúsi að brytja niður þurrkaða ávexti samkvæmt helmingaskiptareglunni (helmingurinn upp í mig og hinn helmingurinn í fyllinguna sem ég var í þann veginn að fara að stappa inn í kjúklingabringur) þegar frúin hrópaði úr stofunni: „Þú ert kominn með 7 læk á fyrsta pistilinn þinn“.  Fyrir ykkur sem ekki vitið það þá er „læk“ það næsta sem við, sem ekki erum á Fésbókinni, komust því að eignast vini. Ég tek fram að ég held að mér hafi tekist að fela það fyrir frúnni, að gómar mínir voru því sem næst samanlímdir af af eplum og sætum apríkósum, þegar ég svaraði henni: „En hvað er ég kominn með mörg diss-læk?“.  „Það er ekkert svoleiðis í þessu kerfi“, svaraði hún á móti. „Ja hérna“ hugsaði ég með mér og sagði svo hátt og snjallt um leið og ég hugsaði um efnið í næsta pistli: „Við verðum að finna okkur einhverja óvini!“.  „Úff, gat nú verið“, var það sem ég heyrði úr stofunni en frá herbergi dóttur minnar var kallað: „Ásta! Hverju ertu gift?“. Það fylgir þessari sögu að dóttir mín hefur um nokkurt skeið dregið í efa hæfni fósturmóður sinnar til þess að velja sér maka.

En alla vega. Hér kemur sennilega fyrri pistillinn af tveimur um stöðu stjórnmála eins og ég sé hana úr fjarlægð.  Ég byrja á stjórnarflokkunum.

Ég var að reyna að rifja það upp í lestinni í morgun í hversu mörgum alþingiskosningum ég hef kosið og satt að segja þá man ég bara eftir því að hafa farið einu sinni á kjörstað.  Að minnsta kosti þá man ég eftir að hafa kosið Ingibjörgu Sólrúnu í það skiptið en ekki hvaða ár það var og er ekki alveg viss um hvort það voru borgarstjórnarkosningar eða hvort kosið var til Alþingis.  Þetta endurspeglar á einhvern hátt þá staðreynd að ég hef verið helminginn af síðustu 25 árum erlendis og sjaldan verið nógu „trúaður“ til þess að finna ræðismenn eða sendiráð til þess að kjósa stjórnmálaflokka á Íslandi.

Ég þefaði hins vegar bæði uppi ræðismennina í Bern og Zurich fyrir Icesave kosningarnar til þess að segja nei og fyrir forsetakosningarnar til þess að kjósa Ólaf.  Ferðin á skrifstofuna í Bern var eftirminnilegri fyrir þær sakir að starfsmennirnir á lögfræðiskrifstofunni sem sér um þetta lítilræði fyrir Lýðveldið Ísland, höfðu trúlega ekki séð Íslendinga svo árum skipti. Ég er hins vegar óvenju spenntur fyrir alþingiskosningarnar sem eru framundan og þá einkum dýnamíkinni í kjósendahópnum en ég hef reynt að ráða í hana allt kjörtímabilið.

Nú held ég að ég sé ekki að móðga neinn þegar ég segi að nú er að ljúka einhverri glórulausustu pólitísku vegferð sem að nokkrum stjórnmálaöflum hefur dottið í hug að leggja upp í. Það hlýtur að vera súrrealískt að vera fermdur inn í Samfylkinguna þessa dagana og hafa heftað sig við það „snjallræði“ að þrusa Íslandi inn í ESB og taka upp Evru sem lausn á efnahagsvanda, áður en að gruggið sem hrunið þyrlaði upp næði að setjast. Horfa svo upp á í framhaldinu hvert ríkið innan myntbandalagsins á fætur öðru missa tök á efnahagsmálum sínum. Manni hlýtur að líða eins og að maður sé að reyna að selja snákaolíu til þess að lækna meiriháttar sjúkdóma. Að raða ummælum Samfylkingarforustunnar upp í tímaröð í samhengi við atburðarásina í Evrópu er átakanlegt.  Núna síðast var þetta kórónað með pistli Björgvins G. Sigurðssonar á Pressunni, sem berst fyrir því á sinn yfirvegaða hátt, að fá að gera snjóhengjurnar að skuld við evrópska seðlabankann með því að taka upp Evru til þess að losna við gjaldeyrishöftin. Og Guð hjálpi mér ef pistillinn birtist ekki föstudeginum áður en Kýpur fer í gegnum sitt „Guð blessi Kýpur“-móment ... og innleiðir í framhaldinu „gjaldeyrishöft“. Eina ályktunin sem hægt er að draga af þessu er sú að fyrir SF fer fólk sem aldrei, undir nokkrum kringumstæðum, má koma nálægt almannafé.

En um Össur þykir mér vænt um: „Evran er að styrkjast!“.  Hann mun veðja á rautt eða svart til skiptis þangað til hann hittir á það. Hins vegar, með formann sem er holdgervingur árásarinnar á heimili landsmanna þá myndi ég veðja á að SF ætti lítið inn af óákveðna fylginu. ÁPÁ gæti þurft að sætta sig við 12-15% en það fer eftir því hvort að fólk uppgötvar fyrir 27. Apríl að Björt framtíð er ekki með neina stefnu. Ef það gerist þá gæti eitthvað af fénu skilað sér heim til Árna Páls.

Hvernig Vinstri Grænir gátu farið svona illa að ráði sínu er mér hulin ráðgáta en þeir eru reyndar sjálfir með kenningu um þetta.  Þetta er forsetanum að kenna af því að hann varð við þeirri ósk þjóðarinnar að leyfa henni að segja álit sitt á því hvort leggja ætti allt efnahagskerfi þjóðarinnar undir til þess að geta orðið við kröfu ESB um að gengið yrði frá Icesave áður en Ísland gæti gengið inni í sambandið. Og fylgið var að nálgast 5% þegar ákveðið var skipta um kúrs á helfararfleyinu sem í framhaldinu er stýrt af Katrínu Jakobsdóttur. Hún hefur lofað okkur því að fylgja nákvæmlega sömu stefnu og áður en boða hana bara í blíðari tón en Steingrímur gerði. Sér til halds og traust hefur hún varaformann sem var hafnað í prófkjöri í flokki sem rétt slefar inn á þing.  Hversu niðurlægjandi er það? Svar Katrínar við fylgishruninu er sú að það sé óeðlilegt að VG hafi mikið fylgi. Myndir þú ráða manneskju með slíka sannfæringu í að stýra fyrirtækinu þínu? „You couldn´t make this shit up“ myndu Bretarnir segja.

Til þess að selja miða inn á norrænu velferðina þá lögðust stjórnarflokkarnir í það illvirki að ætla að sakvæða allan almenning. 200 milljarðar af ólöglegum gengistryggðum húsnæðislánum, sem meðal annars voru veitt af banka sem þingmaður VG sat í stjórn fyrir, voru orsök hrunsins.  Hrunið hafði auðvitað ekkert að gera með að afskrifa þurfti 7-9000 milljarða af lofti sem pumpað hafði verið inn í eignarhaldsfélög sem styrktu stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn. Staðreyndin er auðvitað sú að þær skuldir sem fást innheimtar eftir þetta hrun eru hjá heimilum og fyrirtækjum sem voru rekin með heiðarleg markmið í huga. Að ætla að innprenta þeim sjálfsfyrirlitningu eða kenna þeim einhverja lexíu með því að hneppa þau í skuldaþrældóm er vonlaus söluvara. Allt yfir 8% hjá Katrínu væri það sem Danir myndu kalla „jordskreds-sejr“.

En er virkilega enginn í VG eða SF sem veltir því fyrir séð eitt augnablik hvernig staða flokkana væri ef tímaröð aðgerða hefði bara verið snúið við? Hvað hefði gerst ef að norræna velferðarstjórnin hefði byrjað á að klára að vinna úr hruninu, nýtt þá staðreynd að þjóðin er þrátt fyrir allt með eigin gjaldmiðil sem gefur þá möguleika sem eru fyrir hendi núna við að leiðrétta skuldir, og sótt svo um aðild að ESB í framhaldinu? Er það ekki mögulegt að þjóðin hefði fylgt stjórninni með í þá vegferð í staðinn fyrir að fyrirlíta hana eins og staðan er núna?


Skuldaumræðan

Ég hef fylgst með umræðu um skuldamál heimila úr "fjarlægð" og gert við hana athugasemdir í "nálægð" hvar sem ég hef fengið því við komið. Og þessi umræða er að mínu viti komin í ákveðnar ógöngur engum til gagns og öllum til ama.

Undanfarið höfum við notið þeirrar "blessunar" að fá að lesa fallega framsett hugverk harðfullorðinna manna um verðtryggingu á einhvers konar dæmisöguformi sunnudagsskólanna. Einn þeirra talar um að þegar hann lánar hest þá vilji hann fá hann aftur, annar stillir upp einhverjum vinum sínum sem eru að braska með íbúðir í útleigu annars vegar og íbúðir til eigin nota hins vegar og sá þriðji þekkir einhvern Sigmund sem lánar einhverjum Davíð 1000 kall (eða var það öfugt) en nú getur Davíð ekki borgað sem er auðvitað svakaleg tragedía. Ályktunin sem þessir sómamenn draga af þessu öllu er svo auðvitað sú að mikilvægt sé að verðtryggja allt nema launin og að fólki beri að borga skuldir sínar þó það getið það ekki því annars verði engir hestar eftir til útreiðar.

Þessi barnsvæðing umræðunnar um skuldamál heimilanna er svo í óvenju skarpri andstöðu við "örlítið" faglegri innlegg hagfræðinga eins og Ólafs Margeirssonar, Ólafs Ísleifssonar, Lilju Mósesdóttur, Þórs Saari, Ólafs Arnarssonar og svo Paul Krugman´s (þessi með Nóbelinn) um þessi mál. Reyndar lét sá síðastnefndi hafa það eftir sér í viðtali eftir AGS ráðstefnuna í Hörpunni að við yrðum að leiðrétta skuldir heimilanna meðan við héldum praktískt séð ennþá á gömlu bönkunum en þess utan að hætta að verðtryggja. Þegar honum var bent á að þá yrðu lífeyrissjóðirnir óánægðir þá svaraði hann því til að það væri andsamfélagslegt því það kæmi í veg fyrir að hagkerfið næði sér.

Það furðulegasta við þessa umræðu alla eru kannski ekki endilega þessar helgisögur um fólk sem vill braska með húsdýr heldur sú staðreynd að það eru ennþá til aðilar sem eru að reyna að selja þá hugmynd að það sé í boði að gera ekki neitt. Og reyndar að það sé sérstaklega mikilvægt af því að allt annað muni kosta einhvern eitthvað.

Ég get ekki séð að aðgerðaleysi sé í boði vegna þess að í Íbúðalánasjóð mun þurfa að moka ca. 150 milljörðum ofan á það sem hefur verið skóflað inn í hann nú þegar ef ég hef skilið fréttir af fjárhagsstöðu sjóðsins rétt, þ.e.a.s. ef að menn velja að skipa honum ekki slitastjórn og senda skuldabréfaeigendur (lífeyrisjóðina) í klippingu. En hvernig hyggjast þeir sem engu vilja kosta til við lausn skuldamála heimilanna leysa vanda sjóðsins?


Vegna "fjölda" áskoranna

Eftir langa umhugsun hefur Seiken ákveðið að ræsa blog-síðu.  Það er ekki endilega vegna þess að eftirspurn eftir slíku hafi verið svo íþyngjandi heldur miklu fremur vegna þess að frúin skoraði á mig að byrja bara að blogga í stað þess að vera að þruma stöðugt yfir fjölskyldunni um menn og málefni undir miðju borðhaldi.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.    


« Fyrri síða

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband