Er Seðlabankinn vaknaður?

Það er spurning en hins vegar er ljóst að Ólína er ennþá steinsofandi.  Hún heldur að afhroð stjórnarflokkanna í kosningunum hafi verið „grís" hjá Framsókn út af því að sigurinn í Icesavemálinu hafi fallið þeirra meginn. Ólína reyndi á tímabili að selja okkur þá hugmynd að óuppgert Icesave myndi kosta þjóðarbúið 1900 milljarða.  Já, þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona sorglegt. Reyndar held ég að Ólína ætti að þakka fyrir hvern dag sem að hún getur vaknað með þá vissu að dómsmálið hafi unnist og þar með forðað henni frá því að taka þátt í því að setja landið endanlega í þrot.  Sigurinn í dómsmálinu gæti nefninlega á endanum reynst þjóðinni ákaflega dýrmætur.

Og Seðlabankinn virðist vera búinn að átta sig á því a.m.k. ef við eigum að taka mark á fréttaflutningi Moggans.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/11/fekk_ekki_undanthagu/

Þar á bæ telja menn sig hafa heimildir fyrir því að slitastjórn gamla Landsbankans hafi fengið neitun frá Seðlabankanum á undanþágu frá lögum um gjaldeyrismál. M.ö.o. að SÍ hafði komið í veg fyrir að slitastjórnin héldi áfram að lauma gjaldeyri úr landi, framhjá gjaldeyrirshöftunum, til þess að sleikja upp Hollendinga og Breta. En ef að það kemur ekki til greina að draga þá ráðherra sem stóðu að skuldabréfafléttunni á milli gamla og nýja Landsbankans fyrir Landsdóm, þá held ég að það væri allt eins gott að leggja dóminn niður. Þess skal þó getið, þessum ráðherrum til varnar, að þeir virðast hafa haft einhvers konar heimild frá Alþingi til þess að ganga frá málum á milli bankanna eftir eigin höfði.  Já, eftirlitsskylda alþingis er auðvitað bara eitthvað ofan á brauð.

Við hljótum að fagna því ef að það er rétt að Seðlabankinn sé vaknaður því það hefur verið átakanlegt að fylgjast með frammistöðu hans eftir hrun. Á köflum var það þannig að fólk fór inn á síðuna hjá Marínó G. Njálssyni til þess að ná sér í traustar upplýsingar um stöðu þjóðarbúsins eða heimilanna frekar en að fara inn á heimasíðu Seðlabankans.  Þar hefur lítið verið að marka tölur eða greiningar og tók eiginlega steininn úr stuttu fyrir áramót þegar bankinn fann allt í einu 130 milljarða af erlendum skuldum sem týndust á milli uppfærslu forrita eða eitthvað því um líkt. Annars gerir Sigurður Már Jónsson starfsemi SÍ ágætlega skil á sínu bloggi.

http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/sigurdurmar/1297673/

Hvort sem að bankinn er vaknaður eða ekki þá held ég að það sé kominn tími á að Már Seðlabankastjóri finni sér eitthvað annað að gera. Íslendingar eru ekki að fara að semja um einhvern 25-75% afslátt á krónueignum erlendra aðila eins og bankanstjórinn hefur verið að velta fyrir sér. Það myndi endanlega ganga frá efnahag landsins.

115 km hlaupi lokið

Reyndar skal það tekið fram að frúin vill að ég geti þess að um var að ræða boðhlaup í 14 hlutum og að ég hafi verið með næst styðstu leiðina, 4.5 km ... niður í móti.  Mér fannst það óþarfi en ef þetta viðhorf lýsir ekki í hnotskurn muninum á því hvernig konur og karlar hugsa þá veit ég ekki hvað gerir það.  Þær eru í smáatriðunum á meðan við erum alltaf með heildarmyndina í huga (eða þannig).

Ég hef í gegnum tíðina keppt í þó nokkrum íþróttagreinum, með einstaklega óeftirminnilegum árangri, en ég held að Sola hlaupið sé með allra skemmtilegustu keppnum sem ég hef tekið þátt í.  Hlaupið er sem sagt um 115 km langt og fer fram í hlíðunum í kringum Zurich vatnið.  Stemmingin er dálítið mergjuð því það er eins og að hlaupasnákurinn, sem á köflum nær ca. 20 km lengd, nái að læðast í gegnum borgina og stígana í hæðunum án þess að nokkur taki eftir því. Og það er sérstakt því að í hlaupinu taka þátt ca. 12500 hlauparar.

Til keppni eru skráð um 900 lið af öllum styrkleikum. Þegar maður hleypur leið 7 eins og ég hef gert undanfarin tvö ár, þá eru þátttakendurnir orðnir vel dreifðir. Maður tekur fram úr slatta af fólki sem er gangandi og útlítandi eins og það muni aldrei ná í mark, en þar fyrir utan þarf maður svo að forða sér þegar fram úr manni fræsa hlauparar sem maður getur hvorki kyn- eða litgreint þegar þeir skilja mann eftir í rykmekki. Í lang flestum liðanna skiptir engu máli hvað maður hleypur hratt.  Þetta snýst fyrst og fremst um að koma liðinu í mark á Irchel um kvöldmatarleytið. Þegar það er sagt þá skal þess þó getið að fljótustu liðin eru skipuð framúrskarandi íþróttafólki.  Sigurliðið í ár hljóp kílómeterinn á 3 mín og 37 sekúndum að meðaltali, sem telst gott á jafnsléttu að ekki sé nú talað um þegar verið er að hlaupa leiðir sem sumar hverjar bjóða upp á 3-400 metra hæðarmun. Ég væri sáttur að ná slíkum meðaltíma ef ég væri á bíl.

Skipulagið á hlaupinu er framúrskarandi og skipuleggjendur hlutu einhverju sinni verðlaun fyrir hversu umhverfisvænt mótshaldið er.  Það þýðir t.d. að allar girðingar og merki eru bara færð til eftir því sem líður á hlaupið og samið er við almenningssamgöngufyrirtæki kantónunnar um að þeir sem taka þátt fái frítt í lestir, sporvagna og strætisvagna daginn sem hlaupið fer fram. Þegar ég var búinn með minn legg tók ég strætó upp á Hönggerberg aftur þar sem ég hóf hlaupið og þá voru síðustu lið að renna í gegnum hliðið. Stuttu seinna voru engin verksummerki þess að þar hefði nokkuð verið í gangi á svæðinu þann daginn.

Það væri gaman ef einhver tæki upp þessa hugmynd og héldi svona keppni á Íslandi. Svona sprikl er ágætis tækifæri til þess að þétta raðirnar á vinnustöðum eða í vinahópum.

Mjólk og grenjukex

Það þarf ekki að rífast um kosningaúrslitin.  Þegar jafnvel samfylkingarfólk er farið að viðurkenna að það hafi tapað þá er manni óhætt að kalla það afhroð. Og nú höggva þeir í hvern annan, fyrrverandi þingmenn án atvinnu og svo formaðurinn. En er ekki full ástæða til þess fyrir Samfylkingarfólk að klára að maula í sig grenjukexið og skella bara í sig mjólkinni?  Ég sé ekki betur en að flokkurinn komi vel til greina sem aðili að næstu ríkisstjórn. A.m.k. eins og staðan er núna í stjórnarmyndunnarferlinu.

Á tímabili um kosninganóttina leit út fyrir að VG slyppi eitthvað betur en Samfylkingin en það má svo sem vart á milli sjá.  Hins vegar held ég að Katrín Jakobs hafi gert vel á lokasprettinum í að tjóðra hundana og keyra kosningabaráttuna á blíðari nótum. Það bjargaði trúlega því sem bjargað varð hjá flokknum.

En það er auðvitað athyglisvert að Samfylkingin, sá flokkur sem lagði upp með neikvæðustu kosningabaráttuna, geldur stærst afhroðið.  Velferðarfjölmiðlarnir hömuðust á Framsóknarflokknum allt kjörtímabilið og hafa eytt dálkfermetrum undanfarnar vikur í að fara persónulega á eftir t.d. Sigmundi Davíð í sambandi við námið hans og reyna að draga upp gamlar stöðumælasektir hjá öllum frambjóðendum sem voru líklegir til þess að hafa fylgi af velferðarflokkunum. Þá lá gjaldkeri Samfylkingarinnar, ásamt vel þjálfuðum rökkum, linnulaust inni inni á fésbókar síðu Frosta Sigurjónssonar dagana fyrir kosningarnar á fullu við að reyna að grugga vatnið og draga heiðarleika hans í efa. En svona hugsa auðvitað bara taparar og niðurstaðan eftir kosningarnar er sú að Samfylkingarbústaðurinn lítur út að innan eins og sprengdur kamar.

Í framhaldinu fer núna fram fyrir opnum tjöldum einhvers konar naflaskoðun Samfylkingarfólks um hvað hafi farið úrskeiðis.  Dofri Hermannsson veltir þeirri hugmynd fyrir sér hvort að rétt sé að leggja flokkinn niður og byrja í raun bara upp á nýtt.  Sú hugsun er vissulega áleitin en hins vegar held ég að Sigmundur Davíð hafi nú engu að síður sýnt fram á að það er hægt að endurreisa ónýt vörumerki þrátt fyrir að þau hafi í gegnum tíðina verið notuð af óprúttnum aðilum sem farartæki fyrir vafasöm markmið.

En í stað þess að benda bara á foringjann sem einu rót vandans þá held ég að það væri góð byrjun hjá hinum almenna Samfylkingarmanni að svara eftirfarandi spurningum:

Sætti ég mig við að þingflokkurinn hafi verið tilbúinn að samþykkja Icesave I án þess að fá að lesa samninginn?

Sætti ég mig við leyndarhyggju þegar stjórnin mín lofaði opinni stjórnsýslu?

Sætti ég mig við að ráðherra bankamála beiti sér ekki þegar verið er að vörslusvipta fólk eigum sínum á veikum lagalegum grunn?

Sætti ég mig við að flokkurinn minn kom í veg fyrir að stuðlað yrði að flýtimeðferð í dómsmálum lántakenda?

Sætti ég mig við að hræðsluáróður og neikvæðni eru aðalsmerki flokksins?

Sætti ég mig við að FME svipti ekki fjármálafyrirtæki starfsleyfi þegar þau fara ekki eftir fordæmisgefandi hæstaréttardómum?

Sætti ég mig við að þingmenn mínir tali niður til fólks í fjárhagslegum vandræðum?

Sætti ég mig við að forusta flokksins, sem árum saman hefur talað fyrir afnámi verðtryggingar, neiti að beita sér fyrir afnámi hennar þegar flokkurinn kemst í stjórn?

Sætti ég mig við að velferðarstjórnin endurreisi bankana og fái að halda samningunum leyndum fyrir alþjóð?

Sætti ég mig við að velferðarstjórnin standi að útgáfu á gjaldeyrisskuldabréfi af hálfu ríkisbankans sem gerir hann ógjaldfæran?

Sætti ég mig við að bloggher flokksins fari persónulega á eftir öllum sem eru flokknum ósammála?

Kaustu formann sem festi í lög eignaupptöku hjá lántakendum með gengistryggð lán?

Ef svarið við öllum þessum spurningum er „já“ þá er sko ekki ástæða til þess að leggja niður flokkinn þín vegna. En á sama tíma þá ertu jafnframt búin(n) að komast að því hver er munurinn á þér og þeim sem kusu ekki flokkinn.  Þeirra svar við einhverri eða öllum af ofangreindum spurningum var „nei“.


Andþenslukrónur Össurar

Við skulum ekki gera það að aðalatriði að Össur hefur áður borið fyrir sig fávisku þegar kemur að efnahags- eða bankamálum, samanber ódauðleg ummæli hans við rannsóknarnefnd Alþingis um aðkomu hans að „björgun" Glitnis. Það var nefnilega strangheiðarlegt svar og Ísland væri trúlega í töluvert skárri stöðu í dag ef restin af hrunstjórninni hefði verið jafn hreinskilin um sína þekkingu á sama málefni. 

En núna eru liðin rúm 4 ár og Össur hefur greinilega verið að viða að sér kunnáttu á ferðalögum sínum erlendis.  Verðum við ekki að minnsta kosti að gera ráð fyrir því að það sé það sem skýri af hverju hann er orðinn aðaltalsmaður Samfylkingarinnar í skuldamálunum, frekar en sú staðreynd að landsmenn myndu trúlega ekki vilja vinna sér það til lífs að kaupa „notaða bifreið" af formanni flokksins.

Og í dag þá fengum við lexíu 101 um þenslukrónur vs. andþenslukrónur.  Það er nefnilega ekki sama hvort að Össur greiðir niður skuldir með 300 milljörðunum sem áætlað er að sækja hjá kröfuhöfum eða hvort Frosti Sigurjónsson gerir það.  Því í Samfylkingarhagfræðinni þá veldur lækkun ríkisskulda ekki þenslu, væntanlega af því að þeir sem eiga þessar ríkisskuldir munu líma utan á sig seðlana sem þeir fá þegar skuldirnar eru uppgerðar, ef þeir bara fá að vita það að peningurinn kemur frá Samfylkingunni.  Og samkvæmt sömu hagfræði þá munu eigendur þeirra skulda sem Frosti greiðir niður fara hamförum í þensluskapandi eyðslu. Það eru auðvitað ekki til nein svör við svona lógík. Þetta er bara skák og mát.

Eða ...?  Hvernig var þetta aftur með peningamagn í umferð Össur?  Já einmitt, þessa sömu stærð og jókst um ca. 74% eftir að Samfylkingin tók við bankamálaráðuneytinu í maí 2007 og fram að hruni í október 2008? Ef innistæða er notuð til þess að greiða niður skuld þá verður heildar peningamagn í umferð meira, minna eða óbreytt Össur?  Og ef að það að greiða niður skuldir veldur þenslu Össur olli þá lántakan á sínum tíma samdrætti?

Við bíðum spennt eftir hagfræði 201.

Já, hverju eru þið búnir að lofa kröfuhöfum?

Við hljótum að geta tekið undir það með Ómari Geirssyni og Jóni Baldri L‘Orange að ef það lítur út eins og önd, kvakar eins og önd, þá er það trúlega önd.

http://omargeirsson.blog.is/blog/omargeirsson/entry/1294406/

http://islandsfengur.blog.is/blog/islandsfengur/entry/1294386/

Ómar hefur eftirfarandi eftir Ívari Páli Jónssyni, viðskiptablaðamanni á Morgunblaðinu: „íslensk stjórnvöld skrifuðu undir viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins haustið 2008, um að þau ábyrgist að erlendir eigendur íslenskra eigna geti skipt þeim í erlendan gjaldeyri þegar gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt, á stöðugu gengi.  Þar er um að ræða hundraða milljarða króna ríkisábyrgð  á skuldum við útlendinga". Ofan á þetta kom svo auðvitað loforð um að gengið yrði frá Icesave áður en umsóknin í ESB hlyti brautargengi. Við þurfum ekki að giska mörgum sinnum á í hvað átti að nota skuldsettan gjaldeyrisvaraforðann þegar þessi loforð eru höfð í huga.

Og hafi fólk skort einhverja skýringu á því af hverju Samfylkingingarfólk og Sjallar eru vitstola af bræði á öllum umræðuþráðum þessa dagana, þegar þeir reyna að hræða úrganginn úr landslýð ef hann vogar sér að trúa á það markmið Framsóknarflokksins að taka á erlendum kröfuhöfum í stað þess að fylgja „réttum-þeim-veskið-stefnu" Samfylkingar og Sjálfstæðismanna, þá er hún sennilega falin í þessum orðum sem Ómar vitnar í.

Vegsummerkin eftir þessa atburðarrás eru alls staðar. Bendið mér t.d. á einhvern sem hefur talað máli kröfuhafa af meiri innlifun en Árni Páll Árnason. Við hann eru meira að segja kennd lög sem hann setti kröfuhöfum til dýrðar. Já, ég veit að hann sagði að lögin hefðu verið gjöf hans til skuldugra heimila en markmið þeirra kristallast í þeirri staðreynd að Drómi, sem innheimtir ca. 1400 lán sem Seðlabankinn á, tekur ekkert mark á þessum lögum.

Og hverjir eru það sem hrópa hæst núna um að við verðum að standa við „alþjóðlegar skuldbindingar" þegar kröfuhafa ber á góma? Hvaða skuldbindingar eru það? Er það viljayfirlýsingin um að kröfuhafar geti valsað úr landi með fúlgur fjár og skilið landsmenn eftir með gjaldeyrisskuldir upp á hundruð milljarða. Er það þetta sem er átt við þegar talað er um velferðarstjórn í anda norrænna jafnaðarmanna? Að byrðum vegna taps áhættufjárfesta, sem þjóðin ber enga ábyrgð á, sé dreift jafnt á alla?

Og hagsmuna hverra eru menn eins og Einar K. Guðfinnsson að gæta þegar þeir eru að grugga vatnið með svona skrifum eins og birtast hérna?

http://ekg.blog.is/blog/ekg/entry/1294483/

Er það sama „ískalda hagsmunamat" og fékk Einar til þess að segja já við seinni Icesave lögunum?

Er engin einasta leið til þess að fá þennan mannskap til þess að standa þó ekki væri nema einu sinni í lappirnar?


Að kjökra sig til valda

Þróunin í kosningabaráttunni undanfarna daga hefur verið athyglisverð.  Sjálfstæðisflokkurinn, VG og Samfylking virðast vera að ná að kjökra dálítið fylgi aftur heim í hús en Framsókn leiðir áfram. Samt er fylgið eins og massar á tveimur strengjum; vinstri strengurinn hefur allt þetta kjörtímabil haft 40% fylgi.  Það sem týnist af Bjartri Framtíð fer yfir á  Samfylkingu og öfugt en líkurnar á því að fylgið hoppi yfir á hægri strenginn virðast engar.  Hann geymir 60% af fylginu þar sem Framsókn og Sjallar skiptast á að halda á því.

Nú virðist fylgi streyma frá BF yfir á SF hraðar en áður og skyldi kannski engan undra.  Þegar ríkið skuldar ca. 2000 milljarða, Íbúðalánasjóður er 150 milljarða hola í jörðinni og yfir hagkerfinu hangir 1000 milljarða snjóhengja, þá er það ekki boðlegt að boða stefnu sem heitir „ekkert vesen".  Það er eins og að koma að bílslysi og keyra bara áfram af því að maður „nennir ekki neinu brasi". Þá virðist Guðmundur Steingríms vilja ganga stjórnmálamanna lengst í sleikjugangi við eigendur krafna á þrotabú gömlu bankana og skortir þó enga samkeppni frá ÁPÁ í þeim leik. Þvílík framtíðarsýn.  Hún er að minnsta kosti ekki björt og kjósendur virðast vera að átta sig á þessu.

Um leið og fylgi Sjallana fór að aukast eftir að Bjarni mætti eins og blautur kettlingur í sjónvarpssal og Hanna Birna í framhaldinu boraði sínum pólitíska ferli 6 fet niður í jörðina, þá var eins og að Össur hefði loksins náð að kaupa rafhlöður í vasareikninn. Hlaðinn 2x6 volta spennu sýndu stafirnir á skjánum núna að ef úrslit verða eins og kannanir vikunnar gefa til kynna þá er aðeins eitt tveggja flokka mynstur í kortunum og það er xB og Sjallar með 38-40 þingmenn.  Össur er ekki vitlaus.  Hann sér að ef að þetta verða úrslitin þá getur hann trúlega gleymt ESB umsókninni og þar með væri allt eins hægt að leggja Samfylkinguna niður.

En Árni Páll ber sig mannalega. Það er eins og að hann hafi fundið ofurlítinn vott af karlmennsku neðst í pokahorninu eftir að honum fór að vaxa skegg.  Í staðinn fyrir að skjálfa á beinunum og tísta um að „enginn mannlegur máttur getur leiðrétt þessar skuldir", eins og hann er búinn að gera allt kjörtímabilið, þá er hann farinn að skora menn á hólm í kappræðum. Og Guð hjálpi mér ef að andstæðingurinn fær ekki líka að velja sér stað og stund. Þá lýsti hann því yfir í vikunni að heldur myndi hann sætta sig við lítið fylgi en að koma með einhvern loforðaflaum. En það er nú reyndar ekki eins og að ÁPÁ eigi eitthvert val í þeim efnum. Hann komst inn á þing undir loforðaflaumnum  „skjaldborg um heimilin".  Sá brandari gengur trúlega ekki tvisvar í sama áheyrendaskarann.

Stóra ósvaraða spurningin í þessum kosningum er hvert þau 30-40% kjósenda sem neita að gefa upp afstöðu sína í könnunum ætla með atkvæði sín. Ég er ekki frá því að eitthvert nýju framboðanna gæti átt inni hjá þessum hóp.  Svo er auðvitað ekki hægt að útiloka að þetta fylgi skiptist á fjórflokkinn með öðrum hætti en kannanir gefa nú til kynna.

Það er vika í þetta. Ég mun vaka fram eftir á kosninganóttina og stappa í mig gulrótum og vatni til þess að halda mér gangandi þar til úrslit eru orðin ljós. Pop og kók verða að bíða fram yfir 4. Maí þegar ég tek þátt í 115 km hlaupinu í hæðunum í kringum Zurich vatnið. Ég blogga um það seinna.

Steingrímur og erlendir kröfuhafar

Steingrímur J. Sigfússon skrifar grein á Vísi í dag með yfirskriftinni: „Ísland og erlendir kröfuhafar".

http://www.visir.is/island-og-erlendir-krofuhafar/article/2013704139985

Í henni fer hann fögrum orðum um eigin frammistöðu í sambandi við setningu laga í mars 2012 sem gera Seðlabankanum kleift að koma í veg fyrir greiðslur úr þrotabúum gömlu bankana til erlendra kröfuhafa. Það er svo sem allt gott um það að segja; ef það er enginn sem hrósar manni þá verður maður að gera það sjálfur.

Reyndar bendir Lúðvík Júlíusson, sem trúlega er bloggara fróðastur um framkvæmd og sögu gjaldeyrishaftanna, á að með lögunum frá í mars 2012 hafi Alþingi í raun bara verið að lagfæra eldra klúður, en látum það liggja á milli hluta.

http://ludvikjuliusson.blog.is/blog/ludvikjuliusson/entry/1292547/

Í greininni fer Steingrímur í grófum dráttum yfir stöðuna. Hann telur erlendar eignir þrotabúa gömlu bankana vera ca. 1600 milljarða, þar ofan á komi 400 milljarðar í krónueignum sem bætast þá ofan á upphaflegu snjóhengjuna sem var upp á aðra 400 milljarða. Þessar tölur eiga sennilega bara við um Arion og Íslandsbanka og tilsvarandi þrotabú, en alla vega. Steingrímur telur að útgreiðsla erlendu eignanna til kröfuhafa, eftir því sem þær breytast í reiðufé í erlendri mynt, hafi ekki bein áhrif á gjaldeyrisjöfnuð landsins vegna þess að þetta lendi utan hagkerfis.

Hér er rétt að staldra aðeins við.  Ég held að ég sé ekki að móðga neinn þegar ég segi að við höfum ekki sérstaklega jákvæða reynslu af því að láta núverandi stjórnvöld sjá um samninga fyrir okkur við erlenda aðila.  Þau hafa í raun samið þjóðina í greiðsluþrot og ég kem betur að því á eftir.  Og enn er höggvið í sama knérunn.  Mér er spurn: Af hverju í ósköpunum ættum við að taka erlendu eignir þrotabúanna út fyrir sviga og fara svo að semja um hversu mikinn gjaldeyri við eigum að skuldsetja landið fyrir, til þess að koma 800 milljarða virði af krónueignum úr landi?  Ef þetta er planið þá er þetta næsta Icesave-mál. Það er ekkert flóknara.

Hér er rétt að hafa í huga að íslenska ríkið skuldar þessum kröfuhöfum ekki neitt og ber engin skylda til þess að taka lán fyrir gjaldeyri svo þetta lið geti farið úr landi.  Það liggur í augum uppi að það hlýtur að vera samningsmarkmið Íslendinga í þessu máli að kröfuhafar fari úr landi með erlendu eignirnar en við fáum allar krónueignir á móti.  Kröfuhafarnir væru þá að fara út á genginu (1600+800)/1600*160 kr/Evra = 240 kr/Evru og mættu vel við una.  

En af hverju er þetta ekki samningsafstaða velferðarstjórnarinnar?

Ég geri ráð fyrir að þetta hafi með Icesave málið að gera því að til þess að það sé hægt að semja við kröfuhafa á þessum nótum, þá þarf maður að vera tilbúinn til þess að hóta því að gera upp þrotabúin í íslenskum krónum. Það blasir við að velferðarstjórnin, sem lofaði ESB að ganga frá Icesave áður en sótt yrði um í sambandið, hefur engan áhuga á því að gera upp gamla Landsbankann í íslenskum krónum.  Eftir fyrstu Icesave þjóðaratkvæðagreiðsluna snemma árs 2010 þá var nýi Landsbankinn endurreistur með því að gefa út skuldabréf í erlendri mynt sem lagt var inn í þrotabú gamla bankans.  Það fæst ekki séð að nýi Landsbankinn hafi tekið við neinum erlendum eignum á móti þessu skuldabréfi (þið megið leiðrétta mig ef þið vitið betur) og þetta lyktar einfaldlega eins og tilraun til þess að koma Hollendingum og Bretum framhjá gjaldeyrishöftunum með krónueignir.

Það sem er svo tragíókómískt við þetta mál er að gjaldeyristekjur þjóðarinnar duga ekki til þess að standa undir greiðslum á þessum skuldabréfi. Meira að segja Már Guðmundsson viðurkennir það.  Fræðilega séð er því búið að semja okkur í þrot.  Hvað gengur fólki til sem gengur svona frá málum?  Það eru ekki einu sinni liðin 3 ár frá því að þetta skuldabréf var gefið út með aðkomu Steingríms og það er byrjað að valda vandræðum meira að segja áður en til stóð að fara að borga af höfuðstólnum sem upphaflega var áætlað að hæfist 2015 ef ég man rétt!

Steingrímur heldur því einnig fram að það skaði á einhvern hátt samningstöðu Íslendinga að Framsókn sé að boða það hvernig hún óski að ráðstafa hluta af þessum krónueignum, áður en þessi mál eru kláruð.  Þessi fullyrðing stenst enga skoðun.  Fyrir það fyrsta þá tókst s.l. haust, sennilega fyrir ábendingar innan úr bankakerfinu eða ábendingar frá Heiðari Már Guðjónssyni, að koma í veg fyrir að gengið yrði frá nauðasamningum þrotabúanna við kröfuhafana sem hefðu trúlega rústað öllum möguleikum okkar á að ganga frá þessum málum með farsælum hætti. Í framhaldinu féllu kröfur á gömlu bankana í verði sem væntanlega endurspeglar að kröfuhafar töldu sig vera að missa af góðum díl.  Í öðru lagi þá bendir asinn, við að reyna að ganga frá sölu á bönkunum til Lífeyrissjóða fyrir kosningar, ekki til annars en að kröfuhafar telji sig vera í betri málum með núverandi stjórnvöld en þá stjórn sem tekur við eftir kosningar. Það er því væntanlega eftir einhverju að slægjast fyrir Íslendinga ef þeir fara að standa í fæturna.

Það eina sem rýrir samningsstöðu Íslendinga í þessu máli er í raun aðkoma norrænu velferðarstjórnarinnar að því. Sú stjórn sem tekur við eftir 27. apríl verður að gera það að sínu fyrsta verkefni að fara að taka sér stöðu með þjóðinni í þessu máli. Góð byrjun væri að skoða möguleikana á því að gera upp þrotabú allra bankana í krónum og skipta um Seðlabankastjóra. Það myndi senda kröfuhöfum þau skilaboð að sá tími, að þeir geti skroppið upp í SÍ til þess að drekka kaffi og spjalla, sé liðinn.


Mannleg reisn í ósigri

Að óreyndu hefði maður haldið að það myndi síast inn fyrir rest að það er ekki stemming fyrir þessum málflutningi:

http://smugan.is/2013/04/byltingin-bitur-i-skottid-a-ser/ 

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir lætur það hins vegar ekkert á sig fá þegar hún hraunar yfir Sigmund Davíð á Smugunni, hæðist að útliti hans og svo framvegis. Það er auðvitað engin leið að átta sig á því af hverju Smugan er að fara í þrot.

En alla vega, eftir að vera búnir að hreyta ónotum í forsetann, hrauna yfir pólitíska andstæðinga, tala samfellt niður til kjósenda allt kjörtímabilið, svíkja öll helstu stefnumál flokksins og gjöreyða fylginu, þá er bara eitt eftir og það er að míga í alla brunna á undanhaldinu.

Mannleg reisn í ósigri er ekki öllum gefin.

Framsókn - Stjórnmál 3

Sleppum öllum mataruppskriftum í dag og förum beint í þetta. Ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki þrútið af innblæstri en það verður að hafa það.

Ég sá að Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur lýsti því yfir á DV í dag að hann væri í raun búinn að eingangra einu breytuna sem gæti útskýrt fylgisaukningu Framsóknar;  það væri Icesavedómurinn. Niðurstaðan í Icesave málinu hefur auðvitað oft verið nefnd sem möguleg skýring í þessu samhengi en ég er ekki viss um að það sé endilega „sigur“ Framsóknar í málinu sem við ættum að vera að skoða.  Ég held að „tap“ stjórnarflokkana hafi skipt mun meira máli. Þá á ég við að þegar búið er að hrópa úlfur, úlfur nógu oft þá hætta menn að taka mark á því. Þetta virðist hafa verið nóg til þess að kjósendur byrjuðu að hreyfa sig því það verður að segjast eins og er að fólk hefur mest allt kjörtímabilið veigrað sér við því að lýsa yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn opinberlega, vegna hættu á að verða svívirt af velferðar-blogghernum. Hann hefur verið afmyndaður af bræði á öllum þráðum í hvert skipti sem minnst er á Framsókn.  Á því hefur svo sem ekki orðið nein breyting en munurinn núna er sá að fólk hefur upplifað það nokkrum sinnum í Icesave málinu hversu skeikulir stjórnarliðar geta verið þegar þeir fórna vitsmunum fyrir hagsmuni. Það dugar til þess að stappa stálinu í kjósendur Framsóknar sem núna virðast ætla að segja: „Hingað og ekki lengra“.

Að mínu viti þá liggur það í augum uppi að það eru fyrst og fremst skuldamál heimilanna sem skýra fylgisaukningu Framsóknar. Til þess að styðja þá kenningu er svo sem enginn skortur á vísbendingum. Ef við reynum t.d. að átta okkur á því hversu hversu mörg heimili gætu verið í vandræðum þá finnið þið nokkuð ítarlega úttekt á fjöldanum á blogginu hjá Marínó G. N. En við það get ég svo bætt eftirfarandi: Bankarnir þrír og ÍBLS hafa leyst til sín um 4500 íbúðir eftir hrun. Ef ég hef skilið fréttaflutning Viðskiptablaðsins af þessu rétt þá hefur Íslandsbanki leyst til sín, það sem af er ári, fleiri eignir en hann gerði á sama tímabili hin eftirhruns árin. M.ö.o. það er ekki einu sinni víst að við höfum séð toppinn á þessari uppboðsöldu ennþá. Ef við speglum þessum upplýsingum um ás sem dreginn er við daginn í dag og gerum þar með ráð fyrir að fjöldi uppboða fari jafn hratt niður og hann fór upp, þá endar það með því að fjármálastofnanir eignast 9000 íbúðir þegar landið er komið í gegnum þetta. Og þetta eru bara þeir „húsnæðiseigendur“ sem eru farnir endanlega fram af bjargbrúninni.

Þá var birt könnun í vikunni sem leiddi í ljós að 2/3 kjósenda velja skuldamálin sem eitt af þremur mikilvægustu málum þessara kosninga. Og það rifjast einnig upp fyrir mér að önnur nýleg könnun á fylgi flokkana sýndi að fylgi VG hjá kjósendum í aldurshópnum 18-50 ára mælist varla og hjá Samfylkingunni er þetta svipað en þó eitthvað örlítið skárra. M.ö.o. þessi flokkar eru á góðri leið með að losa sig við allt fylgi frá ca. tveimur kynslóðum. Geri aðrir betur.

En allar umræður þessa dagana snúast um útfærslur Framsóknar á leiðréttingu skuldastöðu heimilanna eða skort á þeim útfærslum. Á meðan er Árni Páll að reyna að eiga samtal við framtíðina sem enginn virðist nenna að hlusta á því vandamálin eru í nútíð. Það er svo auðvitað dæmi um mergjað karma að það sé Árni Páll sem þurfi núna að fara út á meðal kjósenda, sem nenna ekki að tala um neitt annað en lánamálin, og reyna að sannfæra þá um að hann hafi viljað þeim vel þegar hann reyndi að setja þá í þrot með lögleiðingu stjórnarskrárbrota.

Að lokum skulum við víkja aðeins að hugmyndum Framsóknar á skuldaleiðréttingum. Andstæðingar þessara hugmynda eru viti sínu fjær af bræði á öllum þráðum þegar þessi mál eru rædd. Og það er dálítið kómískt að fylgjast með málflutningum. Annar helmingur andstæðinga flokksins reynir að grugga vatnið og sannfæra fólk um að það standi til að nota sama peninginn tvisvar á meðan hinn helmingurinn hefur áttað sig á því að þetta snýst fyrst og fremst um hvernig á að forgangsraða ef að samningar nást við kröfuhafa um skipti á gjaldeyri annars vegar og svo krónueignum hins vegar.  Sú umræða er miklu skynsamlegri og á fyllilega rétt á sér.

Einn af þeim sem lagði orð í belg um þetta í dag var Friðrik Már Baldursson, prófessor, sem einmitt benti á þetta að ef ríkið endaði t.d. með 300 milljarða af „hagnaði“ eftir þessi viðskipti þá væri hugsanlega skynsamlegast að greiða niður skuldir ríkisins en að nota það fé í lánaleiðréttingar. Hvort að það var vísvitandi eða ekki veit ég ekki, en hins vegar þá virðist Friðrik gera ráð fyrir því að þegar þetta væri orðin niðurstaðan þá eigi eftir að leysa upphaflega snjóhengjuvandann upp á ca. 400 milljarða.  Ég segi fyrir mitt leyti að það getur andskotinn ekki verið að menn ætli byrja að hleypa eigendum krafna í þrotabúin úr landi án þess að reyna að nýta þetta tækifæri til þess að losna við upphaflegu snjóhengjuna. Enda var sú þverpólitíska nefnd sem skipuð var til þess að ráðgefa um losun hafta að senda frá sér bréf til formanna stjórnmálaflokkanna, fyrir 4 dögum síðan, þar sem bent er á að núna sé kominn tími til þess að draga erlenda ráðgjafa að borðinu og semja um málin í heild sinni þ.m.t. upphaflegu snjóhengjuna.

Sú leið sem ég hefði viljað skoða er hvort ekki væri vænlegast að gera upp þrotabúin í krónum og fá þá kröfuhafa til þess að skipta í framhaldinu á öllum krónueignum og þeim gjaldeyri sem kæmi út úr búunum. Það væri lögum samkvæmt en sú leið verður trúlega ekki skoðuð á meðan núverandi stjórn er við völd því hún hefur jú unnið að því hörðum höndum að koma gjaldeyri framhjá höftunum til Hollendinga og Breta með því að láta nýja Landsbankann gefa út glórulaust skuldabréf í erlendri mynt, sem er svo í rólegheitum að setja greiðsluflæði þjóðarbúsins við útlönd í uppnám.

Ef við eigum að taka þessa langloku saman í eina spá um fylgi Framsóknar í komandi kosningum þá giska ég á að það verði á bilinu 32-35%.  Þá er miðað við að hræðsluáróður andstæðinga flokksins skili litlu en hann hefur svo sem ekki gert það allt kjörtímabilið og að skuldamálin verði áfram eina málið á dagskrá. Ég skal verða fyrstur til þess að viðurkenna að þessi spá eða ágiskun er háð töluverðri óvissu.

Kjötlausar kjötbökur - Stjórnmál 2

„Ég er að fara að blogga elskan", kallaði ég í áttina að eldhúsinu þegar ég gekk inn í stofuna. 

„Allt í lagi vinur. Ætlarðu nokkuð að búa til fleiri óvini? Mér sýndist fólk á Fésinu vera bara ánægt með þessar kjúklingabringu-pælingar hjá þér síðast. Kannski þú ættir að koma bara með aðra uppskrift og vera ekkert að hrauna yfir fólk", var svarið sem ég fékk frá frúnni.  Það var ekki laust við að greina mætti nokkurn kvíðboga í rödd hennar. Sjálfsagt finnur hún til ábyrgðar eftir að hafa ræst þessa pistla vitleysu hjá eiginmanninum.

„Nei, nei.  Þetta verður voða lítið hraun.  Ég ætla að fjalla um frasana", svaraði ég án þess að hafa í raun hugmynd um hvar næstu skrif myndu enda. „Ok. Frasar elskan, það hljómar spennandi, he, he" svaraði hún en ég get svarið það að það mátti greina ákveðið trúleysi í rödd hennar. Mér fannst hún í framhaldinu tuldra eitthvað ofan í hálsmálið en ég veit ekki hvað hún sagði. Gæti hafa verið „Guð blessi Sviss".

„En svo mun ég læða inn einni mataruppskrif elskan, engar áhyggjur", bætti ég við í framhaldinu. „Nú, hvaða uppskrift" svaraði hún".  „Hún heitir kjötlausar kjötbökur", svaraði ég að bragði. „Ok. Grænmetisréttur,  það er áhugavert. Þú hefur aldrei eldað hann fyrir mig", heyrðist þá í frúnni.  „Þetta er búið að vera vinsælt á klakanum elskan mín, þú hefur ekki búið þar lengi.  Þetta er samt ekkert fyrir þig", svaraði ég.  „Fyrir hvern þá", spurði hún.  „Ég ætla að troða honum ofan í sjallana", svaraði ég og fann að ég skildi ástkæra eiginkonu mína eftir með stórt spurningamerki á vörum án þess að frá þeim bærist nokkurt orð.

Þessi pistill er um Sjálfstæðisflokkinn og ég sé af lengdinni á honum að þessi pistlaröð um stjórnmál verður eitthvað lengri en ég gerði upphaflega ráð fyrir. Ég á enn eftir nokkra flokka.

Það eru takmörk fyrir því hversu margar kjötlausar kjötbökur fyrirtæki geta sett á markað án þess að fara í þrot.  Og maður hefði haldið að flokkur sem hefur auglýst sig sem frasanum stétt-með-stétt sem trúlega reyndist nær stétt-rænir-stétt þegar hugmyndin var útfærð, sem hefur auglýst sig með frasanum: „Traust efnahagsstjórn-helsta velferðarmálið", sem í útfærslu líktist grískum efnahags-harmleik, hefði lært að hafa kjöt í réttinum þegar innihaldslýsingin kvæði á um það.

Undir engum kringumstæðum og ég endurtek, UNDIR ENGUM KRINGUMSTÆÐUM, auglýsir flokkur með slíka forsögu landsfund með undirtitlinum: „Fyrir Heimilin", og notar hann svo í að leggja á ráðin um hvernig hann ætlar endanlega að leggja þau í rúst með því að viðhalda verðtryggingu og yfirveðsetningu. Og framhaldið af þessu væri fyndið ef það væri ekki svona sorglegt.  Í bakherbergjum á þessum landsfundi hefur það þótt við hæfi, að senda þá sem reyndu að selja almenningi síðustu kjötlausu kjötböku sem hét „traust efnahagsstjórn", á vettvang til þess að markaðssetja þessa nýjustu afurð. Og því verður ekki lýst öðruvísi en sem mannlegum harmleik þegar Illugi Gunnarsson var á mánudeginum eftir landsfund í Bítið á Bylgjunni að reyna að sannfæra Heimi og Kollu um að það væri raunverulega kjöt í uppskriftinni; og það sem væri í raun og veru vont fyrir heimlin væri gott fyrir þau.  Það er ekki að sökum að spyrja. Fylgið er á leiðinni niður í klóakið og kemur ekki tilbaka nema að rörin verði tekin upp og þeim hallað í hina áttina.

Andstætt Össuri, sem spilar á svart eða rautt þangað til hann vinnur, þá er eins og að það hvíli sú bölvun yfir Bjarna Ben að geta spilað 100 sinnum á svart eða rautt og tapað í öll skiptin.  Gæfuleysið í ákvarðanatöku er með ólíkindum. Og hafi Sjálfstæðismenn haldið að Hanna Birna væri „svarið" þá má segja að eftir frammistöðu hennar í kjötbökusölunni eftir landsfundin, ríki nokkur óvissa um hver gæti þá verið „spurningin". Það er hérna sem frasarnir koma inn í myndina. Í þeim viðtölum sem hún fór í eftir landsfundinn þá hefði verið hægt að mála á hana grátt Árna Páls skegg og þið hefðuð ekki þekkt á þeim muninn. Frasar alveg þangað til að fólk örmagnast, „stétt-með-stétt", „fyrir atvinnulífið", „20/20", „upp úr hjólförunum", „samtal við framtíðina" ...

En eitt af megin vandamálum Sjálfstæðisflokksins kristallast í umræðum á landsfundinum um verðtrygginguna. Það er það sem ég hef stundum kallað „ræflavæddur kapítalismi". Flokkurinn boðar tiltölulega frjálsan kapítalisma en ræflavæðir hann við öll tækifæri.  Birtingarmyndin af þessu er þannig að þeir treysta sér ekki til þess að keppa nema með einhverri forgjöf. Þeir þurfa að fá auðlindirnar gefins, einokun á markaði, skattfrelsi, ríkisfyrirtækin gefins, bankana gefins, orkuna gefins því annars er hætta á því að þeir verði ekki moldríkir. M.ö.o. trúin á kapítalismann takmarkast við hagnaðinn en hverfur við tapið. Og þegar kom að verðtryggingunni þá var kjötbakan klædd í umbúðir viðskiptafrelsis en er í raun ekkert annað en tilraun til þess að tryggja fjármagnseigendum hagnað án þess að þurfa að kunna fótum sínum forráð á markaði.

Sjálfstæðisflokkurinn er meira að segja með einstaklinga í framboði eins og Vilhjálm Bjarnason sem er fjárfestir og leggur áherslu á óheft frelsi til verðtryggingar. Vilhjálmur kennir við einhvern háskólann og maður hefði haldið að einstaklingur með akademíska tengingu myndi endurspegla það með akademískum vinnubrögðum þegar hann mótar eigin skoðanir. Hver sá sem boðar verðtryggingu í dag verður að minnsta kosti að svara þeirri gagnrýni sem komið hefur fram frá fræðimönnum og leikmönnum um verðbólguhvetjandi áhrif verðtryggingar. Þessi áhrif voru í fyrsta skipti metin tölulega í nýlegri grein Jacky Mallet sem birt var á vef  Cornell University. Þar fyrir utan þá hafa bæði Frosti Sigurjónsson og Ólafur Margeirsson bent sögulega fylgni peningaprentunnar bankastofnanna (sem taka sér ávalt stöðu með verðbólgu) og verðbólgu. Fjölmargir aðilar hafa bent á neikvæð áhrif verðtryggingar á möguleika Seðlabankans til þess að hemja þenslu.  Skortir fólk, sem hefur farið í gegnum eina efnahagsbólu með 18% stýrivöxtum, virkilega einhver dæmi þess að stýrivextir eru máttlaust tæki í verðtryggðu hagkerfi?      

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn megi vera sáttur ef hann fær 20% en ég ætla að leyfa mér að draga það í efa að hann nái því.  Ég áskil mér hins vegar rétt til þess að hafa rangt fyrir mér með þetta. Enn á stór hluti kjósenda eftir að gera upp hug sinn en ég væri hissa ef sá hópur, sem að einhverju leyti er fólk sem fyrirlítur stjórnmál, tæki upp á því núna að kjósa Sjálfstæðisflokkinn - „fyrir heimilin".

Ég las það svo á netmiðlum þegar ég fór með lestinni í vinnuna í morgun að Framsókn er að mælast með 40% en sjallarnir eru komnir í tæp 18%.  Maðurinn með ljáinn fer trúlega hraðar yfir en ég gerði ráð fyrir þegar ég skrifaði pistilinn í gær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband