Hótun ehf.

Jú, jú.  Við sáum þetta í Icesave málinu líka. Matsfyrirtækin reyna að hafa áhrif á atburðarrásina. Núna held ég hins vegar að það sé komin tími á líta aðeins á hvað er í gangi í þessu skuldamáli.

Kjarni málsins er sá að með því að afhenda kröfuhöfum bankana og hverfa þar með frá upphaflegum markmiðum neyðarlaganna, sem var að taka yfir lánasöfn frá gömlu bönkunum, verðmeta þau á raunhæfu verði, para þau síðan á móti innistæðuskuldbindingum, þá tókst norrænu velferðarstjórninni að læsa skuldamálunum í þeim hnút sem þau eru í.  Ég hef áður farið yfir það í færslu hvaða kraftar drifu verkið þegar stjórnin tók þessa ákvörðun á sínum tíma þannig að við skulum láta það liggja á milli hluta ...  að mestu.

Alla vega þá hefur þetta verið réttlætt af SF-liðum alveg fram á þennan dag með því að engin mannlegur máttur geti átt við kröfuhafa (sérstaklega ekki ef þeir eru ESB tengdir). ÁPÁ verður a.m.k. að algjöru slitti þegar minnst er á kröfuhafa og er svo að segja óhuggandi þegar hann er að lýsa því hversu miklu þeir töpuðu á útrásarvíkingunum sem virðast nú samt hafa verið fjárhagslegur bakhjarl Samfylkingarinnar meðan á útrásinni stóð.

Stóra spurningin er hins vegar sú á hvaða verði hefði verið hægt að færa lánasöfnin á milli bankanna ef farin hefði verið sú leið sem lagt var af stað með við setningu neyðarlaganna.  Samkvæmt ÁPÁ þá var ekki hægt að fá neinn afslátt af þeim umfram það sem raunverulega var hægt að kreista út úr lánþegum. Það liggur hins vegar í augum uppi að núna þegar að jafnvel Seðlabankastjóri talar um að kröfuhafar þurfi að afskrifa allt að 75% af krónueignum að það var rými á sínum tíma til þess að færa lánasöfnin yfir á miklum afslætti og fara í framhaldinu í skuldaleiðréttingar. Ástæðan fyrir því að þetta hefði verið hægt er sú að verðmatið á lánsöfnunum endurspeglar þá staðreynd að það eru ekki krónuupphæðirnar sem skipta kröfuhafana neinu máli heldur hversu mikinn gjaldeyri er hægt að komast með úr landi.  Hann er augljóslega miklu minni en sem nemur nafnvirði þessara krónueigna breytt yfir í gjaldeyri á SÍ gengi samanber mat Más Seðlabankastjóra á afskriftarþörfinni.

En maður hefði auðvitað orðið fyrir vonbrigðum ef Samfylkingingin hefði ekki reynt að gera sér mat úr fjárhagslegum ógöngum sem íslensk heimili lentu í við hrunið.  Allt annað hefði verið stílbrot. Og núna er það auðvitað svo að ESB sinnar telja afskriftirnar af lánasöfnunum vera orðna að eign ríkisins sem það geti ráðstafað að vild til þess að greiða niður sínar skuldir svo komast megi nær því að uppfylla ERM II skilyrði um skuldastöðu ríkissjóðs.  Og ef marka má fréttina, sem þessi færsla er athugasemd við, þá eru matsfyrirtækin stöppuð upp í rjáfur af sósíal-demókrötum með ESB blæti.  

Og ef þið eruð ennþá í vafa um hvaða kraftar drifu verkið hjá fyrri ríkistjórn þá má minna á að þeim tókst, ásamt Bretum og Hollendingum, að haga málum í Nýja Landsbankanum þannig að verið er að verðlauna starfsmenn hans með hlutabréfagjöfum fyrir að taka sér stöðu gegn hagsmunum landsins. Þeim mun meira sem Nýji Landsbankinn nær að innheimta fyrir gamla bankann þeim mun hærri verður þrýstingurinn á krónuna fyrir aftan höftin því þessum peningum ætlar þríeykið (velferðarstjórnin, Bretar og Hollendingar) að koma úr landi.

En elsku vinir, hvort sem þið veljið að láta S&P hræða úr ykkur líftóruna eða ekki, þá fyrir alla muni ekki trúa neinu kjaftæði um að það að nota fjármuni í skuldaleiðréttingar, sem losna við að kröfuhafar verða svældir af landi brott, sé ígildi peningaprentunnar. A.m.k. þá skuluð þið áður en þið gerið það spyrja ykkur þeirrar spurningar, að ef allar innistæður í bankakerfinu væru notaðar til þess að greiða niður skuldir, hvort myndi þá peningamagn í umferð aukast eða minnka?
mbl.is Skuldalækkun skilar verri horfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengistryggingarfarsinn enn og aftur

Það að það skuli vera hægt, tæpum 5 árum eftir hrun, að fá birt eftir sig svona ummæli eins og þessi lögfræðingur lætur hafa eftir sér, segir meira en mörg orð um hversu illa það hefur gengið að vinna úr afleiðingum hrunsins. Á þessu ber norræna velferðarstjórnin 90% ábyrgð. Hún átti auðvitað að vinda ofan af þessum farsa í stað þess að reyna að gera sér ástandið að féþúfu. Restin af ábyrgðinni, 10%, má skrifa á Hæstarétt sem hefur látið teyma sig eins og naut á nefhring og þá sérstaklega í upphaflega Lýsingardómnum sem er í raun skandall. Lögfræðingurinn sem vitnað er í í fréttinni ýjar að því að niðurstaðan í máli Borgarbyggðar gegn Arion jafngildi því að lán þeirra hafi borið neikvæða raunvexti sem geti á einhvern hátt ekki staðist.

Í fyrsta lagi þá er það eins mikilvægt og að sólin haldi áfram að rísa í austri og setjast í vestri, að lánastofnanir sem hafa tekið þátt í að stunda stórfellda ólöglega lánastarfsemi, tapi á því svo undan svíði.  Ef það er ekki hægt að tryggja það þá er enginn agi eftir í kerfinu og ekkert sem kemur í veg fyrir að þær endurtaki leikinn. Á þessu hefur Evrópudómstóllinn auðvitað áttað sig saman ber t.d. niðurstöðuna í máli C-618/10.

Í öðru lagi þá er ágætt að hafa í huga hvað gerist þegar fjármálastofnun lánar íslenskar krónur með gengistryggingu. Nú er það svo að peningaprentun í hagkerfinu fer að mestu (ca. 95%) fram í gegnum lánveitingar, þannig að þegar banki lánar íslenskar krónur út til viðskiptamanns þá getur hann gert það með því að auka innistæðu viðskiptamannsins á t.d. höfuðbók 26 (ávísanareikningar) en á móti þá geri ég ráð fyrir því að höfuðbók gengistryggðra lána hækki um sömu upphæð. Hagnaður bankana af þessum viðskiptum, ef kúnnarnir standa í skilum, er þá í grófum dráttum vaxtamunurinn af upphæðunum á innlánsreikningunum sem mynduðust við lánveitingu gengistryggðra króna og vöxtunum að viðbættum gengismuninum sem fást af höfuðbók gengistryggðra lána.

Ég geri ekki ráð fyrir því að ég þurfi að skýra það út fyrir ykkur hverskonar hagnað fjármálastofnanir, sem jafnframt áttu bróðurpartinn af öllum viðskiptum á gjaldeyrismarkaði, skapa sér þegar krónan loksins fellur eins og steinn og vaxta og gengismunurinn á milli þessara höfuðbóka fer upp í ca. 100%. Það verður svo að teljast þrekvirki í siðleysi að stjórnvöld eftir hrunið skuli ekki hafa nýtt sér þessar staðreyndir til þess að fá sanngjarnt uppgjör á þessum ólöglegu lánum en í stað þess senda ráðherra sína af stað til þess að grugga vatnið með keppni í undarlegum ummælum.  Í þessu samhengi ber að hafa það í huga að margt fólk stóð í þeim sporum rétt eftir hruna að sjá fram á að þurfa að greiða af þessum lánum meira en sem nemur öllum tekjum heimilisins um ókomna framtíð.  Það segir sig sjálft að fólk er þvingað í þeirri stöðu til þess að láta „draslið gossa" ef orða má það þannig. Því miður þá hefur Hæstiréttur dregið einhvers konar línu í sandinn við „að standa í skilum" sem í raun tryggir fjármálastofnunum hagnað af brotunum.  Mörgum þessara lántakenda hefði verið hægt að bjarga frá fjárhagslegum ógöngum ef fólk í stjórnsýslu og bönkum hefði haft sterkara siðferðisþrek. Ég velti því síðan fyrir mér hvort að þetta fólk geti átt skaðabótakröfu á t.d. FME, ef að þau orð Árna Þórs Sigurðssonar um að stofnunin hafi fyrir sitt leyti samþykkt þessi lánaform á sínum tíma þegar þau komu fyrst fram, eru sannleikanum samkvæmt.

Og í samhengi við óraunhæfar væntingar sem minnst er á í fréttinni þá er það spurning hvor aðilinn í þessum málum hefur óraunhæfar væntingar um útkomuna. Mér vitandi þá hefur nefninlega ekki ennþá verið tekið fyrir dóm mál um lifandi gengistryggt skuldabréf neytanda sem er í fullum skilum.  Það er erfitt að sjá fyrir sér að setja megi seðlabankavexti á slík lán því samningur aðilanna er efnanlegur þó svo að gengistryggingarákvæðið falli burt og að hann ber að efna sé það krafa neytandans.  Þessi afstaða hefur verið margsinnis rökkstudd af Magnúsi Thoroddsen, fyrrv. forseta Hæstaréttar, í blaðagreinum og viðtölum.  Ég væri í raun hissa á því ef að bankarnir hefðu ekki þegar borgað sig frá málaferlum þar sem fólk hefur lagt af stað með slík mál. 


mbl.is Ofmeti ekki gengisdóma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að leggja niður Landsdóm.

 

Hver ykkar sitja í störfum þar sem þið berið enga ábyrgð ef þið verðið staðin að vítaverðum skussaskap?  Eiga láglaunaðir lögreglumenn, sem oft þurfa að taka leiftursnöggar ákvarðanir undir miklu álagi, ekki á hættu að verða dæmdir til refsingar fari þeir út fyrir þann ramma sem þeirra starfi er settur?

Hvað með skurðlækna? Dæmum við þá ekki til refsingar ef þeir sýna af sér vítavert gáleysi í starfi? Jafnvel þó svo að ekki hafi verið um ásetning að ræða?

Já, eða verkfræðinga? Þegar ég sinnti ráðgjafastörfum á erlendri grundu var í því fyrirtæki sem ég starfaði í stundum talað um byggingaverkfræðinginn sem hannaði múr sem bundinn var við steyptan vegg með of fáum vírum.  Múrinn hrundi ofan á bíl og banaði þar með að minnsta kosti einni manneskju.  Hönnuðurinn var dæmdur til fangelsisvistar.

Og af hverju í ósköpunum ættum við að leggja niður Landsdóm? Til þess að skapa kjörnum fulltrúum vettvang til þess að komast refsilaust upp með skussaskap eða ásetning um að valda þjóðinni tjóni? Eigum við ekki að minnsta kosti að bíða með að leggja dóminn niður þar til komin er niðurstaða í það hvort aðkoma hrunstjórnarinnar að endurreisn nýja Landsbankans mun kosta þjóðarbúið 100 milljarða umfram það sem endurreisnin hefði þurft að gera?

Að mínu mati endurspeglar þetta viðhorf Bjarna eitt af þjóðarmeinum íslensks samfélags þ.e.a.s. að við erum sífellt að gefa hvort öðru afslátt af góðum vinnubrögðum. Slíkt tíðkast fyrst og fremst í umhverfi þar sem of margir eru að sinna störfum sem þeir eru ekki hæfir til að gegna.

 


mbl.is Ætla að leggja niður landsdóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagar trúðsins.

Ég vissi ekki hvað ég átti að kalla pistilinn en ég veit það þó fyrir víst að þetta eru svo sannarlega dagar trúðsins.

Áður en ég byrja á trúðunum þá skulum við hafa (langan) inngang að þessu. Við erum búin að tala nógu lengi í kringum hlutina og ég læt það fara í taugarnar á mér að fólk skuli ekki segja það berum orðum hvað raunverulega gerðist fyrir hrun og í kjölfar hrunsins. Og auðvitað þarf ég að giska í eyðurnar því þetta er ekki allt skjalfest. Þetta er púsluspil sem þarf að raða saman til þess að átta sig á myndinni. Svona lítur myndin mín út.

Fyrri part árs 2008 er stjórnvöldum orðið ljóst að það eru vandamál í uppsiglingu í bankakerfinu. Ég hef hins vegar ekki fundið neitt sem styður að þau hafi raunverulega áttað sig á hversu alvarlegt vandamálið var.  Öll viðbrögð voru að minnsta kosti á þann veg að menn töldu sig vera að eiga við lausafjárvanda.  Ég geri mér fulla grein fyrir því að nokkrir starfsmenn SÍ reyndu að halda því fram við réttarhaldið yfir Geir H. Haarde að þeir hefðu verið með það á hreinu að allt stefndi í hrun. Það var því nokkuð háðulegt að það skyldu vera bankastjórar föllnu bankana sem þvoðu málninguna úr andlitum trúðanna í það skiptið, með því að benda á hið augljósa í vitnastúkunni, að ef SÍ vissi að það stefndi í hrun, af hverju reyndu þeir þá að taka yfir Glitni og lána síðasta gjaldeyrinn í landinu til Kaupþings daginn fyrir hrun? Það blasir við að SÍ var víðs fjarri því að gera sér raunverulega grein fyrir stöðunni. Eftir hrun hefur orðið lítil breyting þar á. Það er alveg eins gott að horfast í augu við það að bankinn er heiðarlega sagt orðsporslaus og rúinn trausti. Hann hefur verið virkur í þeirri atburðarrás sem ég lýsi hér.

Í þessum óróa fyrir hrun fara Samfylkingarliðar að ýta við ESB málinu og tala um Evruna sem lausn á þeim vanda sem við væri að etja. Því var ekki tekið neitt sérstaklega fagnandi hjá samstarfsflokkinum í ríkisstjórn. Alla vega.  Þegar allt hrynur svo 6. Október 2008 og stjórnvöld gera sér loksins grein fyrir því að bankakerfið hefur í raun verið gjaldþrota svo árum skipti, þá hefst ESB/Evru pressan af hálfu Samfylkingarinnar fyrir alvöru.  Mig minnir að Árni Páll hafi skrifað grein í Morgunblaðið 8. Október 2008, tveimur dögum eftir hrun, um að Evran væri hreinasta töfralausn í stöðu eins og Ísland væri í.  Í framhaldinu þá fer her af ESB sinnum af stað, þ.m.t. Þorvaldur Gylfason, og skrifa greinar í blöð um að Icesave verði að borga og skipti þá engu hvort að lagaleg skylda væri fyrir hendi.

Það má kalla þetta leifturárás af hálfu ESB sinna þegar helsta mótstaða gegn aðild, Sjálfstæðisflokkurinn, var veikur fyrir. Til þess að rifja upp stemminguna frá þessum tíma þá má minna á að Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson furðuðu sig á því í fimmtu greininni sem þeir skrifuðu í Morgunblaðið um Icesave, að það virtist ekki vera nokkur leið að fá stjórnvöld til þess þó ekki væri annað en að hlusta á þau rök þeirra að íslenska ríkinu bæri ekki endilega lagaleg skylda til þess að ábyrgjast Icesave. Við skulum rifja það upp að íslensk stjórnvöld samanstóðu á þeim tíma af „shell shocked" forsætisráðherra og samfylkingarliði sem firraði sig ábyrgð á hruninu en beið eftir tækifæri til þess að keyra ESB málið í gegn.

Það gerðist þrennt á þessum fyrstu vikum eftir hrunið sem skiptir máli hvað varðar samhengi hlutanna.  Í fyrsta lagi þá hringdi Manuel Barosso í Geir H. Haarde (upplýst af Geir í kjölfar Landsdóms) og bað hann um að vel yrði farið með evrópska kröfuhafa í kjölfar hrunsins. Í öðru lagi þá var upp mjög sterk krafa af hálfu ESB um að íslenska ríkið gengi frá Icesave málinu með ásættanlegum hætti fyrir Breta og Hollendinga samanber mikla pressu sem lögð var á Árna Matt á fundi erlendis þar sem hann stóð svo að segja einn á móti ráðherra-/ráðamannaskara frá ESB. Þó að ráðherratíð Árna hafi kannski ekki endilega verið rismikil þá reis hún þó sennilega hæst þarna.  Hann stóð í lappirnar undir mikilli pressu. Í þriðja lagi þá mun Jóhanna Sig, hafa falið Gylfa Arnbjörnssyni að kanna hvort taka bæri lánskjaravísitölu úr sambandi til þess að bjarga lántakendum sem var í samræmi við tillögu sem Jón Magnússon hafði haldið á lofti hrunhelgina og lagt til að yrði tekin inn í neyðarlögin. Niðurstaða Gylfa, fengin með hjálp Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur samkvæmt Benedikt Sigurðarsyni, var sú að það ætti ekki að gera það. Í því samhengi er rétt að rifja upp að stjórnvöld töldu allt eins líklegt hrunhelgina að lífeyrissjóðirnir væru farnir samkvæmt bók Björgvins G um hrunið.

En alla vega. Færum okkur áfram tímalínuna. Hrun-stjórninni var auðvitað mokað út úr stjórnarráðinu eins og þið munið og í kjölfarið þá vinna vinstri flokkarnir sigur í kosningum í apríl 2009. Og þá hefst fyrir alvöru sú atburðarrás sem landið og ekki síst heimilin glíma nú við afleiðingarnar af. Hraðferð var boðuð inn í ESB með tilheyrandi upptöku Evru og að umsókn skyldi send inn ekki seinna en á sumarmánuðum 2009.

Og í þessu samhengi er rétt að rifja upp þau atriði sem ég minntist á hér að ofan. ESB hélt auðvitað kröfunni um „farsælan" endi á Icesave málinu til streitu, en Atli Gíslason hefur upplýst að ESB neitaði að taka við umsókninni nema að gengið yrði frá málinu með samningum. Við þessu var brugðist með því að senda Svavar til þess að semja um málið. Hann kemur svo heim með samning snemma í júni nokkrum dögum áður en það átti að skila inn umsókninni.  Það liggur í augum uppi að hann var einfaldlega brunninn á tíma og varð bara að koma heim með það sem hann hafði í höndunum.

Við kröfunni um góða meðferð á Evrópskum kröfuhöfum virðist hafa verið brugðist með því að hverfa frá þeirri leið um uppbyggingu bankakerfisins sem lagt var af stað með í kjölfar neyðarlaganna. Hún gerði ráð fyrir því að tekin yrðu yfir lánasöfn úr þrotabúunum til þess að mæta innistæðuskuldbindingum og að ríkið myndi svo leggja nýju bönkunum til eiginfé. Til þess að fara þá leið þá þurfti að finna afslátt á yfirteknu lánasöfnin og para svo verðið á lánasöfnunum á móti yfirteknum innistæðunum. Þetta hefði mögulega skapað nokkuð svigrum til leiðréttingar lána því lánasöfn í íslenskum krónum voru ekki verðmikil á þessum tíma. Þess í stað þá eru Arion og Íslandsbanki endurreistir með þeim hætti (að því er virðist) að lánasöfnin eru skráð á tvöföldu gengi, annars vegar með miklum afslætti og svo því verði sem reiknað er með að lánasöfnin innheimtist á.  Mismunurinn á þessu tvennu er kallað eiginfé. Með þessu vannst þrennt frá sjónarhóli ESB sinnaðrar ríkisstjórnar. Í fyrsta lagi þá þurfti ríkið ekki að leggja bönkunum til eiginfé sem minnkaði skuldir ríkisins á blaði og færði ríkið þar með nær því að uppfylla ERM II skilyrðið um skuldastöðu ríkissjóðs. Í öðru lagi var þetta í fullu samræmi við kröfu Manuel Barosso um að farið yrði vel með evrópska kröfuhafa en stór lánasöfn voru t.d. í eigu Deutsche Bank sem hafði aðkomu að samningum við stjórnvöld á vormánuðum 2009. Í þriðja lagi þá myndi þetta lágmarka askriftir til heimila sem höfðu veikasta lagalega stöðu til þess að verjast innheimtunni sem myndi þá líka tryggja nýja Landsbankanum og þar með Hollendingum og Bretum hámarks innheimtur upp í Icesave kröfurnar.  

Þegar það sem ég skrifa hér að ofan er haft í huga þá verður auðveldara að skilja margt af því sem gerðist á síðasta kjörtímabil. T.d. af hverju gengið var frá skuldbréfi nýja Landsbankans með þeim hætti sem það var gert, heift ESB liða út í Lilju Mósesdóttur og villikettina, af hverju andstaða samfylkingarinnar við leiðréttingar skulda var svona hörð, af hverju Gylfi Magnússon, SÍ og FME gengu jafn langt og raun bar vitni í að reyna að sannfæra dómskerfið um að það bæri að reikna SÍ vexti afturvirkt á ólögleg gengistryggð og af hverju stjórnvöld þóttust ekkert vita af vafasömu lögmæti þess lánaforms samanber svar Gylfa Magnússonar við fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á síðasta kjörtímabili áður en fyrstu dómar féllu um lögmæti lánanna.

Og þá erum við loksins komin að þessu með trúðana.

Í ljósi þess ritað er hér að ofan, sem er í sjálfu sér ekkert annað en lýsing á efnahagslegri árás á íslensk heimili í þágu pólitískra hagsmuna, þá eru ummæli Árna Páls Árnasonar um Dróma, ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um leiðréttingu námslána, breytingartillaga Helga Hjörvars um að skerpa bæri á loforðum um leiðréttingu lána, óþolinmæði Össur um efndir framsóknarloforðanna, álit OECD um leiðréttingar lána sem væntanlega er skrifað af íslenskum álitsgjöfum, til þess eins fallin að minna okkur á að þetta eru svo sannarlega dagar trúðsins.

 


mbl.is Flöt lækkun lána ekki ráðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drómi og annað í þeim dúr.

Ég veit ekki með ykkur hin en ég hefði haldið að það kæmi einhvern tímann að því, ef að það á að takast að koma þjóðinni út úr andlega áfallinu sem fylgdi hruninu 2008, að við þyrftum að segja við okkur sjálf að Ísland er ekki og ætlar ekki að vera bananalýðveldi. Það þýðir að menn gera rétt þrátt fyrir að það geti kostað, og menn breyta rétt þrátt fyrir að þurfa að horfast í augu við mistök sem hafa verið gerð. Menn breiða einfaldlega ekki yfir mistök stjórnsýslunnar undir neinum kringumstæðum.

Drómi er farsi sem verður að fara stöðva. Ein leið til þess að gera það er að stjórnsýslan hætti að hylma yfir með fjármálafyrirtækjum eða enn betra, að starfsmenn fjármálafyrirtækja fari að breyta rétt. Komum að því seinna en fyrst þetta.

Ef ég man þetta rétt þá er Drómi m.a. stofnaður til þess að halda utan um innheimtu á lánasöfnum sem standa sem veð vegna yfirtöku Arion banka á innistæðum sem hann tók yfir vegna falls SPRON og Frjálsa Fjárfestingarbankans. Þið megið leiðrétta mig ef þetta er rangt hjá mér en ég held að þessar innistæður nemi ca. 77 milljörðum. Ef lánasöfnin duga ekki til þess að dekka þessa upphæð þá hefur ríkið lofað að fylla upp í gatið hjá Arion banka.

Þá mun Drómi vera að innheimta lán fyrir „Hildu" sem mun vera einhver konar frontur Seðlabanka Íslands sem settur var upp til þess að halda utan um lánasöfn sem bankinn fékk í fangið við hrun. Ég veit ekki hvort að þessi lánasöfn eru hluti af þessum 77 milljarða pakka en það má einu gilda. En það er hins vegar ekkert sem sýnir ásetninginn með Árna Páls lögunum betur en sú staðreynd að það félag sem er að rukka fyrir Seðlabanka Íslands/íslenska ríkið tekur ekkert mark á lögunum.  Auðvitað var markmiðið með lögunum að senda dómsstólum landsins sterk skilaboð um það að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið teldu það æskilegt að út úr dómsmálunum kæmi sú niðurstaða að Seðlabankavexti mætti reikna afturvirkt. M.ö.o að Seðlabankinn, sem á hluta af þessum lánum, mætti ákvarða á þeim vextina í fortíð og framtíð þrátt fyrir að vaxtaákvæði væri vel skilgreind í þessum samningum.

Nú er það svo að gengistrygging á íslenskum krónueignum er ekki eitthvað sem féll af himnum ofan og enginn hafði hugmynd um að væri ólögleg. Þá verðum við að hætta að láta eins og tilkoma þessarar lánastarfsemi hafi verið hrein tilviljun.  Hún margfaldast eftir að skýrsla Danske Bank kom út árið 2006 sem sagði í raun að það stefndi í óefni.  Í framhaldinu af því virðist hefjast gengdarlaus prentun á íslenskum krónum sem eru lánaðar út með gengistryggingu. Og sé fólki ennþá hulið hver tilgangurinn var þá var sterkar vísbendingar að spora sumarið 2008 þegar bankarnir biðu með galopna goggana eins og ungar í hreiðri mömmu, tilbúnir til þess að gleypa þá 500 milljarða af gjaldeyri sem þeir voru að reyna að fá Seðlabankann til þess að taka að láni erlendis.  Það lán kom aldrei, því enginn vildi lána SÍ alvöru gjaldeyri gegn veðum í gervi-gjaldeyri (gengistryggðum íslenskum krónum), sem betur fer sennilega því annars væri Ísland hola í jörðinni í dag.

Hvað Seðlabanka Íslands varðar þá kemur bara tvennt til greina; annað hvort vissu menn allan tímann að þessi lánastarfsemi væri ólögleg, enda áttu þeir aðkomu að gerð laganna, en völdu að sjá í gegnum fingur sér með þetta sem hluta af einhvers konar tilraun til björgunnar bankakerfisins vegna þeirra viðvaranna sem komu fram í Danske Bank skýrslunni; eða að þeir vissu í raun ekkert hvað var í gangi í bankakerfinu sem er næstum því verra. Til þess að upplýsa þetta þurfa starfsmenn bankans að byrja að breyta rétt í stað þess að hylma yfir með þessari starfsemi.  Bankinn þarf að svara því nákvæmlega með framlagningu gagna, þ.m.t. dagsettum lögfræðiálitum sem er vitað að voru til innan bankans, hvenær honum var ljóst að þessi starfsemi væri ólögleg og í framhaldinu að ná sáttum við lántakendur undir lánasöfnum Hildu um lausn þessara mála. Bankinn og starfsmenn hans eiga að gera þetta af því að það er siðferðislega rétt.

Hvað FME varðar, þá verður sú stofnun og starfsmenn hennar að fara að breyta rétt.  Það er búið að benda margsinnis á að sum fyrirtækjanna sem stunda innheimtustarfsemi byggða á þessum lánasöfnum, hafa mögulega ekki starfsleyfi sem ná yfir þeirra starfsemi. FME verður að koma böndum yfir það hvaða fyrirtæki eru að innheimta lán án þess að hafa frumritin af skuldabréfunum undir höndum. Þá er ekki augljóst að staðið hafi verið löglega að endurreisn bankanna ef yfirfærsluvirði einstakra skuldabréfa hefur ekki verið skráð sértaklega í stofnreikning nýju bankana.  

Núverandi ríkisstjórn verður að vinda ofan af þessu farsa til þess að það náist einhver sátt í þessi mál. Þar undir getur heyrt að hreinsa þurfi til í stofnunum eins og FME og SÍ ef það skortir á sannleiksástina á þeim stöðum. Þá verður að upplýsa yfirfærsluvirði lánasafna til nýju bankana og greina frá því hvað búið er að semja um við kröfuhafa. Fram að þessu hefur Steingrími J. tekist að hylja þá slóð með því að yfirstrika þann texta í t.d. skýrslunni um endurreisn fjármálakerfisins og í svari á Alþingi við fyrirspurn Guðlaugs Þórs um þetta mál.  Slík vinnubrögð eiga að heyra sögunni til.  Þó að fjármálastöðugleiki sé göfugt markmið þá má hann aldrei byggja á illa fengnu eiginfé. Slíkt gerist bara í bananalýðveldum.   

Að lokum má svo minna á að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sat í stjórn Frjálsa Fjárfestingarbankans. Hann lét hafa eftir sér, í viðtali við Pressuna 20.10.2010:

Ég man þegar þessi lán komu til sögunnar að þá var spurt hvort þau samrýmdust lögum. Þá lágu fyrir lögfræðiálit um að þau væru leyfileg og eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið samþykktu þau. Eftir á að hyggja má spyrja hvort við hefðum getað farið öðru vísi að, rannsakað eitthvað betur, en það eru allir seldir undir sömu sök. Nú hefur Hæstiréttur skorið úr um það að lánin voru ólögmæt, hvað sem öllum lögfræðiálitum líður".

Hvar eru þessi lögfræðiálit Árni Þór?


mbl.is Vill að Alþingi grípi í taumana hjá Dróma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptamódel ÍBLS

Íbúðalánasjóður, sem er gjaldþrota, er að vara við afnámi verðtryggingar. Ja, hérna segi ég nú bara.

Þarf virkilega að minna einhvern á að sjóðurinn er gjaldþrota vegna þess að hann byggði viðskiptamódel sitt alfarið á verðtryggingu.


mbl.is Varar við afnámi verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um þjóðaratkvæðagreiðslur

Það ber nokkuð á því þessa dagana að þeir sem fundu Icesave undirskriftasöfnununum allt til forráttu elska núna undirskriftasöfnunina gegn breytingu á veiðileyfagjaldinu og svo öfugt. Það er auðvitað ekki alveg laust við hræsni svo ég orði það nú bara óritskoðað.

Ég bý í landi þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur fara fram á 3-gja mánaða fresti. Kjósendur fá einfaldlega senda heim til sín bæklinga með góðum fyrirvara með þeim málum sem eru á dagskrá í næstu atkvæðagreiðslu. Það fer eitthvað eftir málum auðvitað hversu mikil þátttakan er hverju sinni en sum málanna eru heit eins og til dæmis takmörkun á bónus-greiðslum til stjórnenda fyrirtækja, sem var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða þrátt fyrir umtalsverðan nei-áróður frá stórfyrirtækjum. Þá var tillaga um að lengja frí úr 5 vikum í 6 felld nokkuð örugglega í fyrra eða hitteðfyrra. Ég nefni það til þess að minna á að frasinn um að fólk muni alltaf kjósa með skattalækkunum, lengra fríi eða öðru slíku, ef öll mál verði hægt að setja í þjóðaratkvæði, er innihaldslaust þvaður. 

Þá er ég ekki sammála því þegar menn halda því fram að sum mál henti ekki í þjóðaratkvæðagreiðslur eins og viðkvæðið var í kringum Icesave því að enginn vilji semja við stjórnvöld sem eiga á hættu að fá samninga í hausinn þegar kjósendur eru búnir að fara höndum um þá.  Ég veit nú ekki betur en að Steingrímur og Jóhanna hafi reynt að selja þá hugmynd að fyrsta Icesave þjóðaratkvæðagreiðslan hafi verið "ómark" því að betri samningur hafi legið á borðinu þegar kosið var. Nú ef betri samningur lág á borðinu þá er víst ekki hægt að þakka það neinu öðru en ótta viðsemjenda okkar við að upphaflegi samningurinn yrði felldur af þjóðinni. Slyngari stjórnmálamenn en SJS og JS hefðu nýtt sér þetta við samningaborðið í stað þess að kjökra sig í svefn á hverri nóttu vikurnar eftir 98-2 atkvæðagreiðsluna.   

Og hvers vegna ætti veiðileyfagjaldið ekki að fara í þjóðaratkvæði ef það er kjósendum hjartansmál að fá að segja hug sinn um það efni?

Við eigum einfaldlega að koma söfnun undirskrifta í fastar skorður þannig að þetta sé alltaf gert með sömu aðferðinni, festa ákveðna lágmarks prósentutölu sem þarf til þess að knýja fram atkvæðagreiðslu og svo bara kjósa þegar nógu margir óska eftir því. Ég er sannfærður um að það muni með tímanum aga stjórnmálamenn til betri verka. 


Um listina að stappa í sig pönnukökum

Mér var skipað að vera jákvæður, af því að það er 17. Júní, þannig að ég byrja á einhverju öðru en pönnsunum.

Það er búið að vera heitt undanfarið. Um helgina fór hitinn í ca. 27 gráður en í dag, á morgun og hinn erum við að tala um 33-34 gráður. Og að sjálfsögðu engan vind. Ég vel mér að jafnaði heitustu dagana til þess að fara út að hlaupa, til þess að „spara“ mér upphitun, en ég man þó ekki eftir að hafa lagt í hann í jafn heitu veðri og í dag. Og ég er að segja ykkur það, að þegar ég lagði af stað frá skrifstofubyggingunni okkar og út í skóg, þá hafði ég á tilfinningunni að ég myndi þurfa að virkja sjúkratrygginguna mína áður en yfir lyki.  Frá húsinu og að fyrstu trjám eru ca. 100 metrar án nokkurs skugga og það var bara eins og að hlaupa inni í gufubaði.  En þetta lagaðist þegar ég komst í skuggann inni í skógi.

Auðvitað er það dáltið bratt að kalla þetta hlaup en maður kemst upp með það þegar það eru engin vitni.  Það væri nær að kalla þetta að „berast undan andvaranum“. Hinn eiginlegi tilgangur með þessu puði mínu er auðvitað sá að ég geti stappað í mig meiri ís og þá helst með betri samvisku. Reyndar vóg frúin að frelsi mínu til ísinntöku á laugardaginn þegar hún sagði mér að hún hefði lesið að minn uppáhalds ís væri búinn til úr ódýrri, margunninni dýrafitu sem væri bragðbætt með einhverjum gerviefnum til þess að ná fram ísbragðinu.

Ég neita því ekkert að þetta vakti mig til umhugsunnar, a.m.k. rétt á meðan ég var að greiða fyrir síðasta íspinna. En það rifjast upp fyrir mér í þessu samhengi að við karlmenn erum oft taldir innihalda sömu efni og pylsur, þ.e.a.s. ca. 80% fitu og 20% svín. Það er ekkert ósvipað og innihaldið í íspinnunum mínum og þessi efni hafa dugað mér bærilega fram að þessu.

En nú skulum við snúa okkur að pönnsunum því það eru fleiri að stappa í sig þessa dagana en ég. Og ekki get ég hugsað mér að skrifa heilan pistil byggðan eingöngu á innihaldslausri jákvæðni. Alla vega þá hefur Steingrímur J. áhyggjur af því að valdhafarnir séu sífellt að úða í sig í stað þess að vinna.  Ég skal játa það að ég hefði getað hugsað mér að Steingrímur hefði eytt meiri tíma í að stappa í sig en að vinna að sínum óhæfuverkum eins og t.d. að semja nýja Landsbankann í þrot.  Svo kvartaði Össur yfir því að nýja stjórnin væri ekki með neitt plan og ég skal líka játa það að ég hefði getað hugsað mér að Össur hefði verið með færri plön um inngöngu í ríkjabandalög og sleikjugang við andstæðinga okkar á meðan hann réði ríkjum í utanríkisráðuneytinu.

En SJS og Össur, að ekki sé nú talað um Ögmund sem uppgvötvaði það ekki fyrr en eftir kosningar að það væri til innanríkisráðuneyti, þurfa ekki að gera sér upp ímyndaðar áhyggjur af efndum eða vanefndum nýrrar stjórnar mín vegna.  Ef nýja stjórnin svíkur lit þá dreg ég það ekki í efa að velferðar-skátarnir munu í nafni andstöðu við auðvaldið og samstöðu með þeim sem minna mega sín aðstoða við að bera nýju stjórninu út úr Stjórnarráðinu. En gleymum því hins vegar ekki, að enn sem komið er, þá hefur bara einni ríkisstjórn tekist að svíkja loforð um að reisa skjaldborg um íslensk heimili, hvað sem seinna kann að verða.

 


Nei, takk. Þetta er orðið fínt Hr. Barroso.

Ég minni á að Geir H. Haarde upplýsti að þessi maður hefði hringt í sig strax eftir hrun og farið fram á að farið yrði vel með evrópska kröfuhafa.  Og það verður ekki sagt að velferðarstjórnin hafi valdið honum vonbrigðum í þeim efnum.

Og núna standa Íslendingar frammi fyrir því að skuldabréf Landsbankans, sem gefið er út evrópskum kröfhöfum til dýrðar, er að setja þjóðarbúið á hliðina.  Endurfjármögnun segið þið? Að öllu jöfnu hafa þjóðir í vandræðum ekki verið í brasi með það hér undanfarið að fá lengt í sínum AGS lánum. En hverjar haldið þið að séu líkurnar á því að Hollendingar og Bretar muni ekki beita sér gegn okkur innan AGS ef farið verður í að vinda ofan af þessum glórlausa gjafagerningi SJS með því að gera upp gamla bankann í krónum? Landsdómur einhver?

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/25/barroso_hlakkar_til_samstarfs/

 


Staða ríkissjóðs

Ég veit það ekki.  Hvað á maður að segja um þetta uppgjör á vinstri vængnum sem er í gangi núna? Steingrímur J farinn að skrifa í Financial Times og þá væntanlega vegna þess að það er lítill markaður fyrir skoðanir hans á Íslandi. Þetta er dálítið eins og að hlusta á einhvern draga glerbrot niður krítartöflu, en alla vega. Nú er það sem sagt komið í ljós að fjárlög fyrir 2013 halda engan veginn og þá fara þeir sem mest hafa haft sig í frammi við blekkingarnar á eftir Sigmundi Davíð fyrir að segja frá þessu.

Nú veit ég ekki hvort þið munið svo langt aftur sem í apríl s.l. þegar vinstri menn yljuðu sér við það á kvöldin að senda hver öðrum lista með ca. 19 atriðum sem formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, hafði tekið saman til þess að minna á árangur norrænu velferðarstjórnarinnar.  Já ég endurtek; formaður fjárlaganefndar. Þið hafið einhvers konar útgáfu af þessum lista hérna og ekki úr vegi að staldra aðeins við atriði 2:

http://maggib.blog.is/blog/maggib/entry/1275195/

Sem sagt, fyrir nokkrum vikum, þá var verið að reyna að selja landsmönnum þann fögnuð að búið væri að loka fjárlagagatinu því fjárlög 2013 gerðu bara ráð fyrir 3.6 milljarða halla. Nú kemur það svo í ljós að það er hola í áætlunum fyrir 2013 upp á tugi milljarða og enginn farinn að spá í stöðu Íbúðalánasjóðs ennþá.  Hann er 150 milljarða króna hola í jörðinni. En það er svo sem í takt við annað. Og ég geri ekki ráð fyrir því að Oddný, Katrín Júlíusdóttir eða aðrir í áróðurshernum hafi minnsta áhuga á að bera stöðuna á Íslandi saman við upphaflegu AGS-planið. Það væri trúlega of þungbært.

En hver ætlar að verða fyrstur meðal stjórnarliða til þess að segja bara hlutina eins og þeir eru?  Er virkilega enginn tilbúinn að horfast í augu við það sem gerðist á síðasta kjörtímabili?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband