Dagar trúðsins.

Ég vissi ekki hvað ég átti að kalla pistilinn en ég veit það þó fyrir víst að þetta eru svo sannarlega dagar trúðsins.

Áður en ég byrja á trúðunum þá skulum við hafa (langan) inngang að þessu. Við erum búin að tala nógu lengi í kringum hlutina og ég læt það fara í taugarnar á mér að fólk skuli ekki segja það berum orðum hvað raunverulega gerðist fyrir hrun og í kjölfar hrunsins. Og auðvitað þarf ég að giska í eyðurnar því þetta er ekki allt skjalfest. Þetta er púsluspil sem þarf að raða saman til þess að átta sig á myndinni. Svona lítur myndin mín út.

Fyrri part árs 2008 er stjórnvöldum orðið ljóst að það eru vandamál í uppsiglingu í bankakerfinu. Ég hef hins vegar ekki fundið neitt sem styður að þau hafi raunverulega áttað sig á hversu alvarlegt vandamálið var.  Öll viðbrögð voru að minnsta kosti á þann veg að menn töldu sig vera að eiga við lausafjárvanda.  Ég geri mér fulla grein fyrir því að nokkrir starfsmenn SÍ reyndu að halda því fram við réttarhaldið yfir Geir H. Haarde að þeir hefðu verið með það á hreinu að allt stefndi í hrun. Það var því nokkuð háðulegt að það skyldu vera bankastjórar föllnu bankana sem þvoðu málninguna úr andlitum trúðanna í það skiptið, með því að benda á hið augljósa í vitnastúkunni, að ef SÍ vissi að það stefndi í hrun, af hverju reyndu þeir þá að taka yfir Glitni og lána síðasta gjaldeyrinn í landinu til Kaupþings daginn fyrir hrun? Það blasir við að SÍ var víðs fjarri því að gera sér raunverulega grein fyrir stöðunni. Eftir hrun hefur orðið lítil breyting þar á. Það er alveg eins gott að horfast í augu við það að bankinn er heiðarlega sagt orðsporslaus og rúinn trausti. Hann hefur verið virkur í þeirri atburðarrás sem ég lýsi hér.

Í þessum óróa fyrir hrun fara Samfylkingarliðar að ýta við ESB málinu og tala um Evruna sem lausn á þeim vanda sem við væri að etja. Því var ekki tekið neitt sérstaklega fagnandi hjá samstarfsflokkinum í ríkisstjórn. Alla vega.  Þegar allt hrynur svo 6. Október 2008 og stjórnvöld gera sér loksins grein fyrir því að bankakerfið hefur í raun verið gjaldþrota svo árum skipti, þá hefst ESB/Evru pressan af hálfu Samfylkingarinnar fyrir alvöru.  Mig minnir að Árni Páll hafi skrifað grein í Morgunblaðið 8. Október 2008, tveimur dögum eftir hrun, um að Evran væri hreinasta töfralausn í stöðu eins og Ísland væri í.  Í framhaldinu þá fer her af ESB sinnum af stað, þ.m.t. Þorvaldur Gylfason, og skrifa greinar í blöð um að Icesave verði að borga og skipti þá engu hvort að lagaleg skylda væri fyrir hendi.

Það má kalla þetta leifturárás af hálfu ESB sinna þegar helsta mótstaða gegn aðild, Sjálfstæðisflokkurinn, var veikur fyrir. Til þess að rifja upp stemminguna frá þessum tíma þá má minna á að Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson furðuðu sig á því í fimmtu greininni sem þeir skrifuðu í Morgunblaðið um Icesave, að það virtist ekki vera nokkur leið að fá stjórnvöld til þess þó ekki væri annað en að hlusta á þau rök þeirra að íslenska ríkinu bæri ekki endilega lagaleg skylda til þess að ábyrgjast Icesave. Við skulum rifja það upp að íslensk stjórnvöld samanstóðu á þeim tíma af „shell shocked" forsætisráðherra og samfylkingarliði sem firraði sig ábyrgð á hruninu en beið eftir tækifæri til þess að keyra ESB málið í gegn.

Það gerðist þrennt á þessum fyrstu vikum eftir hrunið sem skiptir máli hvað varðar samhengi hlutanna.  Í fyrsta lagi þá hringdi Manuel Barosso í Geir H. Haarde (upplýst af Geir í kjölfar Landsdóms) og bað hann um að vel yrði farið með evrópska kröfuhafa í kjölfar hrunsins. Í öðru lagi þá var upp mjög sterk krafa af hálfu ESB um að íslenska ríkið gengi frá Icesave málinu með ásættanlegum hætti fyrir Breta og Hollendinga samanber mikla pressu sem lögð var á Árna Matt á fundi erlendis þar sem hann stóð svo að segja einn á móti ráðherra-/ráðamannaskara frá ESB. Þó að ráðherratíð Árna hafi kannski ekki endilega verið rismikil þá reis hún þó sennilega hæst þarna.  Hann stóð í lappirnar undir mikilli pressu. Í þriðja lagi þá mun Jóhanna Sig, hafa falið Gylfa Arnbjörnssyni að kanna hvort taka bæri lánskjaravísitölu úr sambandi til þess að bjarga lántakendum sem var í samræmi við tillögu sem Jón Magnússon hafði haldið á lofti hrunhelgina og lagt til að yrði tekin inn í neyðarlögin. Niðurstaða Gylfa, fengin með hjálp Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur samkvæmt Benedikt Sigurðarsyni, var sú að það ætti ekki að gera það. Í því samhengi er rétt að rifja upp að stjórnvöld töldu allt eins líklegt hrunhelgina að lífeyrissjóðirnir væru farnir samkvæmt bók Björgvins G um hrunið.

En alla vega. Færum okkur áfram tímalínuna. Hrun-stjórninni var auðvitað mokað út úr stjórnarráðinu eins og þið munið og í kjölfarið þá vinna vinstri flokkarnir sigur í kosningum í apríl 2009. Og þá hefst fyrir alvöru sú atburðarrás sem landið og ekki síst heimilin glíma nú við afleiðingarnar af. Hraðferð var boðuð inn í ESB með tilheyrandi upptöku Evru og að umsókn skyldi send inn ekki seinna en á sumarmánuðum 2009.

Og í þessu samhengi er rétt að rifja upp þau atriði sem ég minntist á hér að ofan. ESB hélt auðvitað kröfunni um „farsælan" endi á Icesave málinu til streitu, en Atli Gíslason hefur upplýst að ESB neitaði að taka við umsókninni nema að gengið yrði frá málinu með samningum. Við þessu var brugðist með því að senda Svavar til þess að semja um málið. Hann kemur svo heim með samning snemma í júni nokkrum dögum áður en það átti að skila inn umsókninni.  Það liggur í augum uppi að hann var einfaldlega brunninn á tíma og varð bara að koma heim með það sem hann hafði í höndunum.

Við kröfunni um góða meðferð á Evrópskum kröfuhöfum virðist hafa verið brugðist með því að hverfa frá þeirri leið um uppbyggingu bankakerfisins sem lagt var af stað með í kjölfar neyðarlaganna. Hún gerði ráð fyrir því að tekin yrðu yfir lánasöfn úr þrotabúunum til þess að mæta innistæðuskuldbindingum og að ríkið myndi svo leggja nýju bönkunum til eiginfé. Til þess að fara þá leið þá þurfti að finna afslátt á yfirteknu lánasöfnin og para svo verðið á lánasöfnunum á móti yfirteknum innistæðunum. Þetta hefði mögulega skapað nokkuð svigrum til leiðréttingar lána því lánasöfn í íslenskum krónum voru ekki verðmikil á þessum tíma. Þess í stað þá eru Arion og Íslandsbanki endurreistir með þeim hætti (að því er virðist) að lánasöfnin eru skráð á tvöföldu gengi, annars vegar með miklum afslætti og svo því verði sem reiknað er með að lánasöfnin innheimtist á.  Mismunurinn á þessu tvennu er kallað eiginfé. Með þessu vannst þrennt frá sjónarhóli ESB sinnaðrar ríkisstjórnar. Í fyrsta lagi þá þurfti ríkið ekki að leggja bönkunum til eiginfé sem minnkaði skuldir ríkisins á blaði og færði ríkið þar með nær því að uppfylla ERM II skilyrðið um skuldastöðu ríkissjóðs. Í öðru lagi var þetta í fullu samræmi við kröfu Manuel Barosso um að farið yrði vel með evrópska kröfuhafa en stór lánasöfn voru t.d. í eigu Deutsche Bank sem hafði aðkomu að samningum við stjórnvöld á vormánuðum 2009. Í þriðja lagi þá myndi þetta lágmarka askriftir til heimila sem höfðu veikasta lagalega stöðu til þess að verjast innheimtunni sem myndi þá líka tryggja nýja Landsbankanum og þar með Hollendingum og Bretum hámarks innheimtur upp í Icesave kröfurnar.  

Þegar það sem ég skrifa hér að ofan er haft í huga þá verður auðveldara að skilja margt af því sem gerðist á síðasta kjörtímabil. T.d. af hverju gengið var frá skuldbréfi nýja Landsbankans með þeim hætti sem það var gert, heift ESB liða út í Lilju Mósesdóttur og villikettina, af hverju andstaða samfylkingarinnar við leiðréttingar skulda var svona hörð, af hverju Gylfi Magnússon, SÍ og FME gengu jafn langt og raun bar vitni í að reyna að sannfæra dómskerfið um að það bæri að reikna SÍ vexti afturvirkt á ólögleg gengistryggð og af hverju stjórnvöld þóttust ekkert vita af vafasömu lögmæti þess lánaforms samanber svar Gylfa Magnússonar við fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á síðasta kjörtímabili áður en fyrstu dómar féllu um lögmæti lánanna.

Og þá erum við loksins komin að þessu með trúðana.

Í ljósi þess ritað er hér að ofan, sem er í sjálfu sér ekkert annað en lýsing á efnahagslegri árás á íslensk heimili í þágu pólitískra hagsmuna, þá eru ummæli Árna Páls Árnasonar um Dróma, ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um leiðréttingu námslána, breytingartillaga Helga Hjörvars um að skerpa bæri á loforðum um leiðréttingu lána, óþolinmæði Össur um efndir framsóknarloforðanna, álit OECD um leiðréttingar lána sem væntanlega er skrifað af íslenskum álitsgjöfum, til þess eins fallin að minna okkur á að þetta eru svo sannarlega dagar trúðsins.

 


mbl.is Flöt lækkun lána ekki ráðleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Vel að orði komist. Ætli þetta endi með því að Jón Gnarr verði forsætisráðherra?

Guðmundur Ásgeirsson, 29.6.2013 kl. 21:42

2 identicon

Alltaf finnst mér það jafn undarlegt þegar fólk segir að hrunið hafi komið á óvart. Nokkrum dögum eftir hrun voru komin vel útfærð neyðarlög til að taka á málinu. Er fólk svo illa farið andlega að það haldi að heill lagabálkur sé saminn á einni eða tveimur dagstundum? Neyðarlögin voru tilbúin ofan í skúffu því þau vissu í meira en rúmt á að hrunið væri á leiðinni. Þau þurftu bara þennan gálgafrest til að koma sínum málum og vina sinna í örugga höfn.

Ég mæli með að fólk lesi bókina "Falið Vald" eftir Jóhannes Björn þar sem lýst er hvernig kreppan fyrir seinni heimstyrjöld var undirbúin og henni stýrt.

Karl (IP-tala skráð) 29.6.2013 kl. 23:17

3 Smámynd: Benedikt Helgason

Það er spurning Guðmundur. En ég efa það ekki eitt augnablik að Jón Gnarr hefur a.m.k. betra hjartalag en sumir af því trúðum sem nefndir eru í pistlinum hér að ofan.

Benedikt Helgason, 30.6.2013 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband