Drómi og annað í þeim dúr.

Ég veit ekki með ykkur hin en ég hefði haldið að það kæmi einhvern tímann að því, ef að það á að takast að koma þjóðinni út úr andlega áfallinu sem fylgdi hruninu 2008, að við þyrftum að segja við okkur sjálf að Ísland er ekki og ætlar ekki að vera bananalýðveldi. Það þýðir að menn gera rétt þrátt fyrir að það geti kostað, og menn breyta rétt þrátt fyrir að þurfa að horfast í augu við mistök sem hafa verið gerð. Menn breiða einfaldlega ekki yfir mistök stjórnsýslunnar undir neinum kringumstæðum.

Drómi er farsi sem verður að fara stöðva. Ein leið til þess að gera það er að stjórnsýslan hætti að hylma yfir með fjármálafyrirtækjum eða enn betra, að starfsmenn fjármálafyrirtækja fari að breyta rétt. Komum að því seinna en fyrst þetta.

Ef ég man þetta rétt þá er Drómi m.a. stofnaður til þess að halda utan um innheimtu á lánasöfnum sem standa sem veð vegna yfirtöku Arion banka á innistæðum sem hann tók yfir vegna falls SPRON og Frjálsa Fjárfestingarbankans. Þið megið leiðrétta mig ef þetta er rangt hjá mér en ég held að þessar innistæður nemi ca. 77 milljörðum. Ef lánasöfnin duga ekki til þess að dekka þessa upphæð þá hefur ríkið lofað að fylla upp í gatið hjá Arion banka.

Þá mun Drómi vera að innheimta lán fyrir „Hildu" sem mun vera einhver konar frontur Seðlabanka Íslands sem settur var upp til þess að halda utan um lánasöfn sem bankinn fékk í fangið við hrun. Ég veit ekki hvort að þessi lánasöfn eru hluti af þessum 77 milljarða pakka en það má einu gilda. En það er hins vegar ekkert sem sýnir ásetninginn með Árna Páls lögunum betur en sú staðreynd að það félag sem er að rukka fyrir Seðlabanka Íslands/íslenska ríkið tekur ekkert mark á lögunum.  Auðvitað var markmiðið með lögunum að senda dómsstólum landsins sterk skilaboð um það að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið teldu það æskilegt að út úr dómsmálunum kæmi sú niðurstaða að Seðlabankavexti mætti reikna afturvirkt. M.ö.o að Seðlabankinn, sem á hluta af þessum lánum, mætti ákvarða á þeim vextina í fortíð og framtíð þrátt fyrir að vaxtaákvæði væri vel skilgreind í þessum samningum.

Nú er það svo að gengistrygging á íslenskum krónueignum er ekki eitthvað sem féll af himnum ofan og enginn hafði hugmynd um að væri ólögleg. Þá verðum við að hætta að láta eins og tilkoma þessarar lánastarfsemi hafi verið hrein tilviljun.  Hún margfaldast eftir að skýrsla Danske Bank kom út árið 2006 sem sagði í raun að það stefndi í óefni.  Í framhaldinu af því virðist hefjast gengdarlaus prentun á íslenskum krónum sem eru lánaðar út með gengistryggingu. Og sé fólki ennþá hulið hver tilgangurinn var þá var sterkar vísbendingar að spora sumarið 2008 þegar bankarnir biðu með galopna goggana eins og ungar í hreiðri mömmu, tilbúnir til þess að gleypa þá 500 milljarða af gjaldeyri sem þeir voru að reyna að fá Seðlabankann til þess að taka að láni erlendis.  Það lán kom aldrei, því enginn vildi lána SÍ alvöru gjaldeyri gegn veðum í gervi-gjaldeyri (gengistryggðum íslenskum krónum), sem betur fer sennilega því annars væri Ísland hola í jörðinni í dag.

Hvað Seðlabanka Íslands varðar þá kemur bara tvennt til greina; annað hvort vissu menn allan tímann að þessi lánastarfsemi væri ólögleg, enda áttu þeir aðkomu að gerð laganna, en völdu að sjá í gegnum fingur sér með þetta sem hluta af einhvers konar tilraun til björgunnar bankakerfisins vegna þeirra viðvaranna sem komu fram í Danske Bank skýrslunni; eða að þeir vissu í raun ekkert hvað var í gangi í bankakerfinu sem er næstum því verra. Til þess að upplýsa þetta þurfa starfsmenn bankans að byrja að breyta rétt í stað þess að hylma yfir með þessari starfsemi.  Bankinn þarf að svara því nákvæmlega með framlagningu gagna, þ.m.t. dagsettum lögfræðiálitum sem er vitað að voru til innan bankans, hvenær honum var ljóst að þessi starfsemi væri ólögleg og í framhaldinu að ná sáttum við lántakendur undir lánasöfnum Hildu um lausn þessara mála. Bankinn og starfsmenn hans eiga að gera þetta af því að það er siðferðislega rétt.

Hvað FME varðar, þá verður sú stofnun og starfsmenn hennar að fara að breyta rétt.  Það er búið að benda margsinnis á að sum fyrirtækjanna sem stunda innheimtustarfsemi byggða á þessum lánasöfnum, hafa mögulega ekki starfsleyfi sem ná yfir þeirra starfsemi. FME verður að koma böndum yfir það hvaða fyrirtæki eru að innheimta lán án þess að hafa frumritin af skuldabréfunum undir höndum. Þá er ekki augljóst að staðið hafi verið löglega að endurreisn bankanna ef yfirfærsluvirði einstakra skuldabréfa hefur ekki verið skráð sértaklega í stofnreikning nýju bankana.  

Núverandi ríkisstjórn verður að vinda ofan af þessu farsa til þess að það náist einhver sátt í þessi mál. Þar undir getur heyrt að hreinsa þurfi til í stofnunum eins og FME og SÍ ef það skortir á sannleiksástina á þeim stöðum. Þá verður að upplýsa yfirfærsluvirði lánasafna til nýju bankana og greina frá því hvað búið er að semja um við kröfuhafa. Fram að þessu hefur Steingrími J. tekist að hylja þá slóð með því að yfirstrika þann texta í t.d. skýrslunni um endurreisn fjármálakerfisins og í svari á Alþingi við fyrirspurn Guðlaugs Þórs um þetta mál.  Slík vinnubrögð eiga að heyra sögunni til.  Þó að fjármálastöðugleiki sé göfugt markmið þá má hann aldrei byggja á illa fengnu eiginfé. Slíkt gerist bara í bananalýðveldum.   

Að lokum má svo minna á að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, sat í stjórn Frjálsa Fjárfestingarbankans. Hann lét hafa eftir sér, í viðtali við Pressuna 20.10.2010:

Ég man þegar þessi lán komu til sögunnar að þá var spurt hvort þau samrýmdust lögum. Þá lágu fyrir lögfræðiálit um að þau væru leyfileg og eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið samþykktu þau. Eftir á að hyggja má spyrja hvort við hefðum getað farið öðru vísi að, rannsakað eitthvað betur, en það eru allir seldir undir sömu sök. Nú hefur Hæstiréttur skorið úr um það að lánin voru ólögmæt, hvað sem öllum lögfræðiálitum líður".

Hvar eru þessi lögfræðiálit Árni Þór?


mbl.is Vill að Alþingi grípi í taumana hjá Dróma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hvar eru þessi lögfræðiálit Árni Þór?

Tryggvi Þór Herbertsson sagðist á nefndarfundi á Alþingi hafa látið gera TVÖ lögfræðiálit um að bílalánin þeirra hjá Avant væru lögleg.

Þetta var í fyrra en þá voru tvö ár frá því að þau voru dæmd ólögleg.

Fjöldi fólks hefur tapað stórum fjárhæðum á þessum mönnum.

Drómi, er einfaldlega bara viðbjóðsleg ormahola.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.6.2013 kl. 11:51

2 Smámynd: Benedikt Helgason

Hefur Tryggvi birt þessi lögfræðiálit þér vitandi Guðmundur?

Það sem er athyglisvert við ummæli Árna Þórs er að hann talar um að: "... eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið samþykktu þau."

Í ljósi þess sem síðar gerðist þá er ekki óeðlilegt að fara fram á að öll þessi álit verði einfaldlega birt og þar undir öll samskipti sem FME kann að hafa átt við fjármálafyrirtæki um þessi lán hér á árum áður.

Benedikt Helgason, 27.6.2013 kl. 12:32

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei, og þetta heyrir svosem sögunni til og lítið á því að græða nú þegar þetta hefur verið dæmt ógilt og Avant löngu farið á hausinn.

Varðandi eftirlit FME með þessum lánum, þá er það önnur og verri saga sem þarf að upplýsa. Tilfellið er nefninlega að mörg þeirra fyrirtækja sem voru hvað duglegust að veita þessi lán (t.d. bílalánafyrirtækin) höfðu hvorki starfsleyfi til að versla með gjaldeyri eða gengistryggð bréf, en gerðu það samt. Þegar FME var innt eftir skýringum á þessu fólust viðbrögðin í því að fela gögnin sem sýndu leyfisleysið með því að fjarlægja þau af vefsíðu stofnunarinnar, og þegar farið var fram á afhendingu þeirra var reynt að halda því fram að um "innanhúss vinnugögn" væri að ræða. Svo voru lánin dæmd ólögleg og þáverandi viðskiptaráðherra sat fyrir svörum, meðal annars á borgarafundi þar sem hann var spurður út í starfsleyfin eða öllu heldur skort á þeim. Það varð fátt um svör nema roðn og stam, og því var lofað að málið yrði skoðað en skömmu seinna var búið að senda þann ráðherra aftur til fyrri starfa sinna í Háskóla Íslands þar sem hann er enn. Svipað er svo uppi á teningnum núna eftir hrun þegar Drómi var stofnaður, en hann er hvorki fjármálafyrirtæki né með starfsleyfi sem slíkt og þrotabú SPRON/Frjálsa sem starfsmenn Dróma eru með í "eignastýringu" undir tvöfaldri slitastjórn (væntanlega á tvennum launum) hafa ekki lengur starfsleyfi þar sem þau eru gjaldþrota. Drómi hefur ekki heldur innheimtuleyfi og er ekki skráður kröfuhafi á neinum af þeim lánum sem hann hefur verið að innheimta og stunda fullnustur , jafnvel fyrir þriðju aðila, til dæmis er í gildi samningur á milli Seðlabanka Íslands og Dróma um þessa innheimtu, sem er þó eins og áður gjörsamlega án tilskilinna starfsleyfa.

Ef þú hefur góða lausn á því hvernig hægt er að framfylgja lögum gegn löglausum aðilum, þegar þær stofnanir sem eiga að framfylgja þeim eru sjálfar hinir löglausu aðilar, þá máttu gjarnan láta mig vita. Hvernig "löggar" maður "lögguna" eiginlega?

Guðmundur Ásgeirsson, 27.6.2013 kl. 13:23

4 Smámynd: Benedikt Helgason

Ég hef ekki augljósa lausn á því nei, en við hljótum að binda vonir okkar við að nú hafa tekið nýjir aðilar við stjórn landsins. Þessir aðilar hafa í stjórnarandstöðu sýnt nokkurn vilja til þess að sinna þessum málum. 

Ég vil gjarnan fá alla þessa sögu upp á borðið, þar undir öll þessi álit og samskipti við eftirlitsstofnanir, einfaldlega vegna þess að það er ekki búið að útiloka að gengistryggð lánastarfsemi á árunum fyrir hrun, sem mun hafa numið allt að því 2300 milljörðum, sé í raun hutfallslega stærsta samsæri gegn neytendum í viðskiptasögu nokkurs ríkis í heiminum.  Að halda að hægt verði að fá slíka úttekt gerða með sannfærandi hætti er auðvitað glórulaus bjartsýni.

Benedikt Helgason, 27.6.2013 kl. 13:45

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

það er ekki búið að útiloka að gengistryggð lánastarfsemi á árunum fyrir hrun, sem mun hafa numið allt að því 2300 milljörðum, sé í raun hutfallslega stærsta samsæri gegn neytendum í viðskiptasögu nokkurs ríkis í heiminum

Reyndar þá er búið að sanna það, uppljóstrunin kom fram í nýjasta hefti Seðlabankans, man ekki hvort það var Fjármálastöðugleiki eða Peningamál, en allavega þá er þar hægt að sjá sundurgreiningu á annars vegar gjaldeyriseignum og hinsvegar gengistengdum.

Þetta er ekki bara stærsti glæpurinn í heiminum gegn neytendum, heldur jafnframt stærsta tilvik gjaldeyrisfölsunar sem dæmi eru um, og það eina sem fór fram með ekki aðeins þegjandi samþykki, heldur beinlínis samkvæmt reglum seðlabanka heimaríkis.

Þeir sem settu þær reglur, og ákváðu svo að framfylgja ekki lögum um vexti og verðtryggingu, eru stóru glæponarnir í þessu.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.6.2013 kl. 01:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Benedikt Helgason (Seiken)

Höfundur

Benedikt Helgason
Benedikt Helgason

Býr og starfar erlendis. Óflokksbundinn áhugamaður um þjóðmál en með ímugust á skipulögðu stjórnmálastarfi. Andsetinn af fluguveiðidellu.

Það er ekki reiknað með að nokkur lesi þetta blog en ef svo ólíklega vill til að einhver geri það þá er viðkomandi velkomið að skilja eftir sig athugasemd. Kjósi menn að hreyta ónotum í síðuhöfund þá gæti mér ekki verið meira sama en ég bið ykkur að halda slíku innan velsæmismarka gagnvart öðrum.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband