5.4.2017 | 13:52
Nei, þetta eru ekki 8 bestu skólar Bandaríkjanna
Stúlkan komst inn í alla 8 Ivy League skólana en ekki 8 bestu háskóla Bandaríkjanna (fyrir utan að komast inn í Stanford sem er ekki í Ivy League). Á því er töluverður munur. Afrekið er hins vegar frábært engu að síður.
Komst inn í 8 bestu háskóla Bandaríkjanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2016 | 14:14
Froða 101
Í ljósi stöðu Samfylkingarinnar, sem mælist við spærregrænsen eins og Danir myndu orða það, þá eru þessi bílalánaummæli Katrínar brjálæðislega vitfirrt.
Það ber enginn flokkur meiri ábyrgð á því að fólk þurfti að glíma við grensulausar innheimtuaðgerðir á t.d. bílalánum, sem meðal annars voru tilkomin vegna skipulagðrar ólöglegrar lánastarfsemi fjármálafyrirtækja í stjórnum hverra sátu í alla vega einu tilviki velferðarstjórnarþingmaður, en Samfylkingin sjálf. Og það er heldur engin skýring nærtækari á gjöreyðingu Samfylkingarinnar en akkúrat þessi efnahagslega árás á fólk og fyrirtæki sem flokkurinn var í forsvari fyrir. Velferðarstjórnin sat með allar upplýsingar um þessa ólöglegu lánastarfsemi og gat valið að nota þær gegn þrotabúunum til þess að hámarka afskriftir og takmarka skaðann fyrir íslensk heimili og fyrirtæki hagkerfinu til hagsbóta.
Ég hef oft og mörgum sinnum farið yfir það á þessari síðu að sú ákvörðun Samfylkingarinnar að reyna að hámarka lánasöfn gamla Landsbankans, til þess að fylla upp í Icesave holuna, sem var jú skilyrði ESB fyrir því að tekið yrði við umsókninni í sambandið sumarið 2009, er sennilega heimskulegasta skógarferð sem nokkurt íslenskt stjórnmálaafl hefur lagt upp í. Afleiðingin er gjöreyðing á ca. 30% fylgi. Það er sennilega ekki hægt að toppa það.
Það verður að teljast nokkurt heilbrigðismerki hjá íslenskum kjósendum ef þeir velja að leggja þennan flokk niður. En að hlusta á hvern frammámanninn/-konuna úr þessari fylkingu koma fram full af vandlætingu á ástandinu og bjóðandi samtal um framtíðina eða aðra álíka froðu er fyrst og fremst óhugnanlegt. Það koma nefninlega bara tvær skýringar til greina á þessum málflutningi; önnur er heimska en hin er hræsni.
Í þyrlu á meðan aðrir greiði bílalán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2016 | 14:47
Algjör snilld
Er það bara ég eða erum við fá íslenskan NBA spilara eftir nokkur ár ? En ég er hér með orðinn Jeremy Lin aðdáandi, algjörlega brilliant hjá honum að taka þátt í þessu. Og já, maður sér það þegar hann tekur smá á því að þá má sennilega ekki blikka auga því þá er hann bara horfinn. Mér sýnist að ég gæti þurft að hafa hálfan körfuboltavöll af dagsljósi á milli okkar ef ég ætti að drippla "nálægt honum" án þess að eiga það á hættu að hann steli boltanum.
En að vellinum sjálfum sem hlýtur að vera með þeim æðislegri sem maður sér. Þvílíkt útsýni! Nú hef ég ekki áhyggjur að hinum unga Júlíusi Orra en ef það væru verri skyttur á þessum velli en hann, ættu þær þá á hættu að þurfa að sækja boltann niðri á Drottningarbraut ef þær hitta ekki spjaldið?
Hélt ég væri að ruglast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2016 | 11:24
Er óvinur óvinar míns vinur minn?
Það er varla að það taki því að blogga um svona fréttir. Hlutirnir gerast það hratt að allt sem maður skrifar er orðið úrelt á einum seinni parti. En jæja, látum bara tímann um að fylla í sporin.
Ég er ekki sá eini á netinu sem lætur sér orðið "hefnd" detta sér í hug um þetta framboð DO. M.o.ö. að hann sé að fara fram til þess að splitta fylgi Ólafs og tryggja Guðna kjörið. Eða er fólk virkilega á þeirri skoðun að DO eigi einhvern vinningsmöguleika í þessum kosningum? Þegar það er sagt þá er auðvitað ekkert víst að þetta fari svona en það yrði enginn hissa ef þetta yrði útkoman. Sumir eru reyndar að giska á að ÓRG dragi framboð sitt til baka. Það kann að vera. ÓRG gæti reyndar gert DO grikk og dregið framboð sitt til baka með orðum um að nú væri kominn kandidat sem hann styddi heilshugar og svo horft á DO tapa kosningunum.
En það er auðvitað dálítið mergjað, ef þetta er tilfellið, að DO noti restina af lífsneistanum í að reyna að ná fram hefndum á ÓRG til þess að koma Icesave-sinnanum Guðna Th. á Bessastaði. En DO væri þá alla vega ekki sá eini sem væri rekinn áfram af hefndarþorsta, a.m.k. þá kætist vinstri vængurinn gríðarlega á fésbókinni er mér sagt af fésbókarfulltrúa heimilisins. Og vissulega er það staðreynd að sitjandi forseti hefur tjargað og fiðrað til bæði hægri og vinstri í gegnum tíðana. En menn geta svo velt því fyrir sér hvort að óvinur óvinar míns sé vinnur minn í raun.
Annars fær Magnús Helgi Björgvinsson moggabloggari prik fyrir að spá því fyrr í vikunni að DO færi fram. Þegar ég las það þá datt mér í hug að MHB hefði komist á happy hour en ég verða að beygja mig í duftið og játa að hann hitti naglann á höfuðið.
En í öðrum framboðsfréttum get ég nefnt að ég spurði frúnna hér fyrir stuttu hvort að ég ætti ekki að fara fram, ég yrði örugglega frábær forseti og það virtust allir telja sig eiga góðan séns. Það kom hik á hana, meira að segja dálítið langt hik. Og svo svaraði hún, af úthugsaðari diplómatíu: "Ég held að þú yrðir fínn aðstoðar eitthvað". Ég játa að það dróg dálítið úr áhuga mínum á að fara fram að ég myndi sennilega ekki einu sinni ná kjöri inni á Neunbrunnenstrasse. Það kom svo auðvitað í ljós í framhaldinu að sú staðreynd að ég á launareikning í svissneskum banka kemur auðvitað gjörsamlega í veg fyrir að það myndist jákvæð múgæsing í kringum framboð mitt.
Hvað sem þessu líður þá er ljóst að ég á erindi við Herr Dr. Wiederkehr ræðismann. Það er ekki hægt að sleppa því að kjósa í þessum kosningum.
Davíð býður sig fram til forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2016 | 16:48
Hvernig slítur maður stjórnarsamstarfi
Ef ég man rétt þá stendur það á blaðsíðu 1 í bókinni um "hvernig eigi að slíta stjórnarsamstarfi" að forðast beri að verða sá flokkur sem að lokum er hægt að benda á sem þann sem formlega slítur samstarfinu. Þ.e.a.s. að það verði notað gegn manni í eftirfylgjandi kosningabaráttu (flokkurinn ekki traustsins verður og svo framvegis). Ég ímynda mér að það sé það sem er í gangi hér, að frammararnir ætli að láta eins og ekkert sé, styðja sinn mann, og þar með verði það sjallarnir sem verða að fella stjórnina ef þeir þora. Það er varla nokkur maður sem gerir ráð fyrir að stjórnin sitji áfram eftir það sem á undan er gengið, er það nokkuð?
Röð í ræðustól að krefjast afsagnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2016 | 12:16
Loksins eitthvað um Icesave
Ég held að þetta sé ekkert sérlega flókið; Meðferð verlferðarstjórnarinnar á Icesave málinu er órjúfanlega tengd umsókninni um aðild að ESB. Já, já. Ég hef skrifað þetta oft áður en málið er bara það skuggalegt að það er nauðsynlegt að halda því á lofti.
Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir orðuðu þetta einhvern veginn þannig að ESB hefði ekki tekið við umsókn Íslands í sambandið sumarið 2009 ef íslensk stjórnvöld hefðu ekki ábyrgst þessar greiðslur til Hollendinga og Breta án málaferla. Þetta sjónarmið kemur trúlega upp á borðið þegar í október 2008 samanber umsátur ESB ráðherra um Árna Matthiesen þegar dæma átti í málinu á 24 tímum. Í framhaldinu geysa Árni Páll og Össur fram á ritvöllinn til þess að mæla fyrir mikilvægi þess að þetta sé uppgert enda þá þegar væntanlega búnir að lúra að hrunið gefur möguleika á leiftursókn í átt að ESB aðild. Árni Páll kallaði inngöngu í sambandið og upptöku Evru kraftaverkameðal eða eitthvað álíka í grein í MBL í okt. 2008. Og ef ég man rétt þá fordæmir Össur í MBL grein í október eða nóvember 2008 þá lögfræðinga sem vilja skoða lagastöðuna í málinu en ekki greiða þetta umhugsunarlaust.
Svavar kemur heim með vonlausan samning í júní 2009 nokkrum dögum áður en það á að skila inn umsókninni í sambandið og kannski ekkert sérstaklega við hann að sakast. Hann virðist hafa fallið á tíma og trúlega er nefndin hans í lítilli aðstöðu til þess að semja þegar íslensk stjórnvöld hafa það sem útgangspunkt að málið fari ekki í dóm til þess að verða við kröfu ESB. Þess má geta að Hreyfingin greiddi ekki aðildarumsókninni atkvæði sitt vegna þess að þingmenn hennar töldu að umsóknin um aðild að ESB og Icesave málið væru nátengdir hlutir.
Lee Bucheit fékk svo það verkefni að ná betri samningi en Svavar en hann hafði sömu skorður og Svavar þ.e.a.s. að málið mætti ekki fara í dóm. Ef ég man rétt þá kom þetta fram í viðtalinu sem Þóra Arnórs tók við Bucheit eftir að samningurinn var í höfn.
Ábyrgðalaus meðferð á fé er ekki síðasti frasinn sem manni dettur í hug um þessa nálgun velferðarvængsins á þessu máli.
Hefði kostað 208 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.2.2016 | 08:09
Fundaritarar í veikindaleyfi
Fréttin er reyndar ekki um þetta, en þessi mál eru þó nátengd. Það verður að taka hattinn ofan fyrir Vigdísi Hauks fyrir að gefast ekki upp á að reyna að fá öll gögn um endurreisn bankanna upp á yfirborðið. Víglundur reyndi en það vantaði inn í þau gögn sem hann fékk afhent. Ég býst ekki við að ég sé sá eini sem þykir það örlítið óþægilegt að sami hópur átti að sjá um að passa upp á þessi pappírssnifsi og reyndi að fá þingmenn til þess að samþykkja Icesave samning Svavars án þess að þingmenn fengju að sjá hann. Við erum ekki að tala um neina spaða hérna, þetta er einfaldlega rjóminn úr landsliðinu fyrir vond vinnubrögð á Íslandi.
En það er ekki annað hægt en að dást að embættismönnum fjármálaráðuneytisins fyrir fimlegar varnir í málinu. Það neistar af trésverðunum þegar þau rista hálfan millimetra niður fyrir skjaldarendurnar. Og það er sennilega ekki hægt að toppa þá skýringu á því að 2 fundargerðir vanti í gögnin um endurreisn bankakerfisins, sem að því að mér skilst fyrir tilviljun dekka akkúrat það tímabil þegar verið er að ganga frá hluthafasamkomulagi nýju bankana, að gömul þynnka hafi tekið sig upp hjá ritara stýrihópsins um endurreisn bankakerfisins og þess vegna séu engar fundagerðir til af þessum tveimur lykilfundum hjá nefndinni.
Nú er það svoleiðis að ég lifi af því að naga blýanta og sitja fundi og það sem við gerum alltaf þegar við boðum fundi er að boða aldrei færri en tvo aðila á þá sem kunna bæði að lesa og skrifa. Þannig að ef að annar þeirra kemst ekki vegna óvarkárni í umgengi með áfengi kvöldinu áður, þá getur hinn skrifað fundargerðina. Þeir þurfa ekki að vera þjálfaðir sérstaklega til verksins, þeir þurfa bara að kunna að skrifa. Og Guð blessi Ísland ef það endurspeglar vinnubrögð ráðuneytana okkar að geta ekki haldið í formfestu eins og að rita fundargerðir þegar verið er að taka ákvarðanir um risastóra hagsmuni fyrir íslenskt samfélag. Það hefði bara einhver úr þeirri handfylli af íslenskum embættismönnum sem sat þessa fundi þurft að taka upp penna til þess að bjarga þessu máli. Er það glórulaus samsæriskenning að halda því fram fundergerðirnar hafi í raun verið ritaðar en að þær hafi einfaldlega ekki náð fram í dagsljósið ennþá?
Og þá að fréttinni, að minnsta kosti eins og ég skil hana. Það hefði auðvitað verið stílbrot ef að velferðarstjórnin hefði ekki aðstoðað slitabú Kaupthings við að fjármagna nýja bankann og hjálpa honum svo við að hámarka virði lánasafnsins sem fór inn í Arion svo að slitabúið þyrfti nú örugglega ekki að koma með raunverulegt fé inn í bankann. Mig er farið að gruna að hluthafasamkomulagið og síðustu fundargerðirnar kunni að innihalda samkomulag um að stjórvöld gerðu ekkert sem gæti rýrt möguleika slitabúanna á að innheimta að fullu t.d. ólögleg gengistryggð lánasöfn. Í því efni sýnist mér að hagsmunir stjórnvalda og slitabúanna hafi farið saman því velferðarstjórnin vildi jú hámarka útkomuna úr lánasafni gamla landsbankans sem rann inn í þann nýja til þess að hámarka það sem fengist upp í Icesave. Þetta myndi að minnsta kosti skýra margt í sambandi við undarlega hegðun Más Guðmundssonar, Gylfa Magnússonar og Steingríms J. í tengslum við dómsmálin tengdri gengistryggingunni.
En þvílíkt ógæfuplan sem velferðarstjórnin setti saman og gerði tilraun til þess að útfæra. Það var yfirnáttúrulega heimskulegt. Að reyna að hámarka innkomu slítabúanna og þar með tjónið fyrir íslenskt samfélag og leysa það smámál með því að taka upp Evru svo vogunnarsjóðir kæmust með allan hagnaðinn úr landi án þess að vörnum yrði við komið. Það er nokkur huggun í því að þetta hefur haft a.m.k. pólitískar afleiðingar fyrir þann mannskap og þá flokka sem stóðu að þessari helför. Það sýnir manni að það er ennþá von í íslenskum kjósendum.
Áhættan var öll ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2016 | 20:57
Ástþór, Stefán Jón, Björn Valur, Þorgrímur Þráins og ÓRG
Konan sagði mér að vera kurteis í þetta skiptið, þess vegna er ég búinn að vera 12 tíma með þennan pistil. En ég held að það hafi tekist.
Fólk er að máta sig í forsetaembættið eftir að ÓRG lýsti því yfir að það væru líkur á því að hann myndi hætta ... einhvern tímann. Og allir karlmennirnir í hópnum (að Þorgrími undanskildum) eru búnir að rífa sig úr að ofan, ákvörðun ÓRG um að hætta hefði engu breytt um þeirra áform, þeir hefðu farið fram hvort sem ÓRG hefði verið í framboði eða ekki. Ég dreg það reyndar í efa, það er enginn kandidat í sjónmáli sem ÓRG hefði ekki farið létt með að tjarga, fiðra, draga í gegnum olíupoll og bróka upp að bringuspjaldi.
Og nú sýnist mér að Björn Valur Gíslason, vinstri græna sameiningartáknið, gæti verið að máta sig í embættið. Alla vega steitir hann hnefanum í átt að ÓRG, sem að mati BVG náði að kljúfa þjóðina í herðar niður 97% vs. 3% í fyrri Icesave kosningunni á meðan BVG hafi náð að sameina báða vinstrimennina (hann og SJS). Illar tungur sögðu mér reyndar að BVG gæti ekki einu sinni náð kjöri til embættis á tveggja manna trillu. Ég veit það svo sem ekki, hann yrði að minnsta kosti varamaður.
Ég er annálaður falsspámaður þegar kemur að kosningaúrslitum, ég taldi Ólaf ekki eiga neinn séns þegar hann fór fyrst fram og engar líkur á því að ég muni hitta á þetta núna. En alla vega, ég dreg í efa að Stefán Jón nái flugi í þessu, nálgunin á þetta er of tecnókrataleg þ.e.a.s. það er búið að analýsera hlutverk forsetans í drasl áður en búið er að bjóða sig fram. Þetta er guð hjálpi mér bara forsetaembætti og ekki eitthvað flókið eins og skurðlækningar þar sem þarf að planleggja hvert einasta handtak áður en það er framkvæmt. Þorgrímur Þráins er held ég of mikil manneskja í þetta. Hann er góður, mannlegur og hrekklaus; sennilega vill þjóðin meiri rebba eftir ÓRG tímabilið. Þar fyrir utan þá sennilega hatar menningarelítan Þorgrím fyrir að skrifa bækur sem fólk les og eru ekki stútfullar af einhverju hokurblæti. Ég dáist að Ástþóri, það er sjálfsagt að reyna þetta einu sinni enn ef það tekst á annað borð að safna undirskriftum. Björn Valur gæti sópað til sín fylgi þess fólks sem fyrirlítur bæði lífið og tilveruna, það gæti fleytt honum spölkorn.
En einhver kona? Eins og Katrín Jakobs með broskall? Kannski, það er alltaf einhver eftirspurn eftir fólki með lágstemmdar skoðanir. Sjálfur væri ég dálítið spenntur fyrir að heyra hvað Ólafur Jóhann hefur um þetta mál að segja en frá toppstöðu í Sony yfir í að tróna yfir íslenska fjósinu er kannski ekkert sérlega spennandi fyrir ferilskránna.
Jón Gnarr kannski? Sjáum hvað setur.
Ástþór vongóður í þetta skiptið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.12.2015 | 20:57
Þvaglát úr forsætisráðuneytinu
Ég biðst afsökunnar á orðbragðinu en ég var að hlusta á ávarp forsætisráðherra hér áðan. Það voru sennilega liðnar 30 sekúndur af því þegar hann byrjar í raun að míga yfir pólitíska andstæðinga og svo hélt það bara áfram og áfram og áfram og áfram ... og svo þegar ég hélt að hann væri að fara að renna upp buxnaklaufinni þá var eins og að ein vatnskannan enn hefði náð í gegnum kerfið og henni var skilað örugglega yfir þá sem hafa átt í nokkru brasi undanfarið með að sjá það jákvæða við stöðu þjóðarinnar.
Frúin flúði af hólmi mjög fljótlega undir ræðunni en ég þoli meira af svona löguðu og kallaði á eftir henni: Heldur þú að það geti verið að vinstri vængurinn sé farinn að vaska upp núna eða er hann ennþá að njóta ræðunnar ef svo mætti að orði komast?. Frúin taldi það líklegt að á mörgum heimilum væru menn farnir að þvo upp í höndunum í stað þess að stinga í vélina til þess að láta uppvaskið endast eins lengi og mögulegt væri.
Og svo endaði þetta á Ísland er land þitt meðan fallegar myndir af landinu okkar runnu yfir tölvuskjáin hjá mér. Ég söng hástöfum, með tárin í augunum; ... Ísland sé frjálst meðan sól gyllir haf.
En hvað á maður að segja? Einn af möguleikunum sem ráðherrann hefur við svona tækifæri er að vera diplómatískur og reyna að leika landsföður en ég get ímyndað mér að hann telji sig vera búinn að prófa það án þess að það hafi skilað miklu. Hann kom vinstri vængnum í raun til valda árið 2009 en þrátt fyrir það er einfaldlega ákveðinn hluti af honum sem froðufellir, afmyndaður af bræði bara við það að heyra í honum röddina. Og ætli "vatnsgusunni" verði ekki skilað aftur í hina áttina í skaupinu á eftir.
Staðreyndirnar, hverjar eru þær? Það er trúlega nokkuð bjart framundan og margt hefur áunnist en þegar það er sagt, þá er töluvert verk eftir óunnið við að koma öllum í þannig kjör að sæmd sé að.
Já, meðan ég man. Gleðilegt nýtt ár héðan frá Zurich.
Gæfurík þjóð í góðu landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2015 | 21:13
Vollgeld
Þetta er spennandi en ég geri mér ekki grein fyrir því hvernig svissneska þjóðin er skipt í afstöðu sinni til þessa máls, þ.e.a.s. að taka peningaprentunarvaldið af einkareknum bönkum og færa það inn í svissneska seðlabankann:
http://www.vollgeld-initiative.ch/english/
Það sem margir vita ekki er að svissneskum bönkum var bjargað í október 2008 í ótrúlegri aðgerð sem framkvæmd var í skjóli nætur. Ef ég man rétt þá var björgunnarpakkinn af stærðargráðuni 6000 milljarðar íslenskra króna (60 milljarðar franka) sem svissneski seðlabankinn lagði inn í UBS gegn því að bankinn afskrifaði eitraðar eignir. Á móti fékk seðlabankinn ca. 10% hlut í bankanum.
Í framhaldi af þessu má segja að ást hins almenna borgara á bankakerfinu hér suðurfrá hafi verið af skornum skammti tala nú ekki um þar sem bankabónusar urðu aftur normið örfáum árum eftir þessa björgunaraðgerð.
Á móti kemur að fólk er hér reglulega minnt á að svissnesk hagsæld sé að miklu leyti tilkomin vegna þess hversu fjármálageirinn sé öflugur. Svisslendingar hafa í raun svo til endalaust aðgengi að lánsfé á lágum eða engum vöxtum og hafa lært að umgangast slík forréttindi. Það verður seint sagt að íslenskir bankamenn hafi náð að tileinka sér þá list með sannfærandi hætti því það er verið að gera upp íslenska 2007 bankakerfið þessa dagana með ca. 50% afskriftum. Það er þrekvirki í ábyrgðarlausri bankastarfsemi.
Ef ég á að giska á eitthvað þá mun byrja hræðsluáróður í svissneskum fjölmiðlum (er reyndar þegar hafinn) til þess að vinna gegn þessari tillögu um að taka peningarprentunnarvaldið af bönkunum og ætli heimamenn endi ekki á að fella þetta 70/30 skipt eftir "Röstigraben" (þýskumælandi hlutinn á móti og frönsku-/ítölskumælandi hlutinn með). En sjáum til.
Ef það væri eitthvað vit í Pírötunum heima á Fróni þá myndu þeir fylkja sér að baki hugmyndum Frosta Sigurjóns um að koma þessu í framkvæmd á Íslandi. Nú er tækifærið, við sitjum með bróðurpartinn af bankakerfinu á ríkisreikningnum og því hægt að gera róttækar breytingar.
Bönkum bannað að búa til peninga? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Benedikt Helgason (Seiken)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar