28.10.2015 | 21:58
Já, og beinduð henni að þjóðinni.
Það verður að taka undir með Árna Páli hérna; Jóhönnu stjórnin hlóð byssuna ... en beindi henni reyndar að þjóðinni. Það er rétt að rifja það upp hvernig ÁPÁ vildi leysa þetta mál, hann lýsir því best sjálfur, ganga í ESB og taka upp Evru:
http://www.arnipall.is/greinar/ad_ausa_fley_med_fingurbjorg/
Hviss, bang, og krónueignir slitabúanna orðnar að skuldum Íslendinga við Seðlabanka Evrópu. Breyta skuldum í ónýtum gjaldmiðli yfir í skuldir í alvöru gjaldmiðli. Það gera auðvitað bara snillingar. Til þess að koma þessari helstefnu í framkvæmd þurfti að samþykkja Svavars-samninginn, helst óséðan, og ljúga gjaldeyrisskuldum upp á nýja Landsbankann. Kúba norðursins, gefa bankana, hóta þjóðinni. Þetta gat einfaldlega ekki klikkað. Eða ...?
Hvað sem mönnum finnst um þessa lausn Laugarvatnsstjórnarinnar á þessum vanda þá er hún þó trúlega 1000 milljörðum skárri en business-planið sem ÁPA eyddi orðsporinu í að reyna að koma í framkvæmd.
Við settum kúluna í byssuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2015 | 20:57
Sirkús ehf.
Ég las þessa frétt og leit svo ofan í glasið mitt sem ég var að klára að súpa úr til þess að vera viss um að ég hefði ekki sett ofan í það kjarnorkuúrgang eða 3-gja ára gamla mjólk. MBL hefur eftir Steingrími J. Sigfússyni:
Hann sagði fullkomlegt ógagnsæi ríkisstjórnarinnar og möndl hennar með kröfuhöfum bak við luktar dyr mikið áhyggjuefni sem veki spurningar um hvert Ísland væri að fara.
Er þetta einhver annar Steingrímur J. en sá sem setti á fót samráðsvettfanginn með kröfuhöfum og stjórnvöldum, hvers fundargerðir Víglundur Þorsteinsson gat ekki fengið afhentar fyrr en eftir langa og stranga glímu við kerfið?
Það er vissulega ástæða til þess að hafa áhyggjur af því að kröfuhafar nái að breyta íslensku eignum þrotabúanna í erlendan gjaldeyri og rétt að nefna það einu sinni enn að allt annað en að kröfuhafar skilji allar íslensku eignirnar eftir fyrir ríkið og Seðlabanka til ráðstöfunnar þýðir þrýsting til lækkunnar á gengi krónunnar. En að verða vitni að því að vinstri vængurinn, sem vel að merkja taldi fyrir síðustu kosningar að ekki væri hægt að ná einni einustu krónu af kröfuhöfunum, er auðvitað áminning um það að það er enginn sirkús án trúða.
Ég minni svo á að Jóhönnu stjórnin ætlaði að leysa þetta mál með því að taka lán hjá evrópska Seðlabankanum og borga kröfuhafana út. Það væri búið að slökkva ljósin í Leifsstöð ef það hefði tekist.
Gagnrýndi afslátt á stöðugleikaskattinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2015 | 13:43
Reykjavíkur maraþon á laugardag
Það er komið að því, að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni í fyrsta sinn. Man ekki til þess að ég hafi nokkurn tíma tekið þátt en vil þó ekki útiloka að ég hafi skriðið í mark í skemmtiskokki fyrir einhverjum áratugum. Það gæti hafa verið fyrir tíma alnetsins (eða rafmagnsins) og ekki víst að til séu um þetta nokkrar heimildir.
Ég fer hálft maraþon með frúnni. Við ætlum að verða samferða í mark. Verkaskiptingin á milli okkar verður hefðbundin, ég sé um að halda á vatninu, kolvetnisgelinu, snyrtidótinu og hárþurrkunni. Hún sér um að líta óaðfinnanlega út. Stefnan er sett á að komast í mark í dagsbirtu en við myndum svo sem ekki fúlsa við tíma í kringum 2 klst og 7 mín sem gæti verið svipaður tími og ég hefði þurft í þetta 3 km skemmtiskokk hér um árið (sem enginn man eftir). Allt hraðar en það er bónus.
Ef þið viljið hvetja okkur á leiðinni þá erum við auðþekkjanleg, þið byrjið bara að klappa þegar þið sjáið mann sem er drekkhlaðinn nesti með rósótta snyrtibuddu sem hleypur við hliðina á fallegri konu sem er nýkomin úr lagningu.
Miðborgin verður lokuð bílum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2015 | 11:16
Guð blessi Grikkland
Já, mér sýnist við vera kominn á "Guð blessi" stigið í Grikklandi. Þegar það er sagt þá er ennþá hægt að bjarga einhverju í samningum það sem eftir lifir þessarar viku en þetta lítur ískyggilega út.
Ég ætla ekkert að hlífa ykkur við því að ég held með Grikkjum alla 7 daga vikunnar. Þið skulið ekki gleyma því að suður-Evrópu ríkin halda niðri genginu á Evrunni og lönd eins og Þýskaland, sem eru að nota gjaldmiðil sem undirverðleggur hagkerfi þeirra, raka inn fé. Þýskaland, sem framleiðir ef ég man 90% af þeim vörum sem það notar innanlands og er þar með tiltölulega vel varið fyrir gengissveiflum, getur tekið lán á ca. 0% vöxtum og atvinnuleysi í iðnaðar-suðrinu er af stærðargráðunni 1%. Ég geri mér grein fyrir því að Grikkir hafa ekki hagað sínum efnahagsmálum skynsamlega í gegnum tíðina en sagan er alls staðar sú sama, þ.e. að þeir sem minnstann þáttinn eiga í að koma landinu fram af bjargbrún, lenda í borga kostnaðinn við björgunina.
Það er auðvitað ekki mikill feminismi í því að maður sé farinn að nota Dominique Strauss Kahn til þess að styðja mál sitt en Egill Helga benti á það um helgina að Strauss Kahn hefði lagt til að Grikkjum yrði gefin friður frá skuldum í tvö ár og eftir það yrðu hluti af þeim felldur niður. Þetta er skynsamlega afstaða og að mínu mati þá eiga þau ríki sem hafa undirverðlagt hagkerfi sín innan Evrunnar að borga þessar niðurfellingar. Það eru þeir aðilar sem eru að hagnast í þessu gjaldmiðlastríði.
Og talandi um kostnaðinn af þessu. Bara til þess að setja hlutina í samhengi. Hlutabréfa vísitölur um allan heim féllu um nokkur prósent við opnun markaða í dag. Ef sú lækkun er varanleg þá má leiða að því líkur að eigendur hlutabréfa um allan heim hefðu komið betur fjárhagslega út ef þeir hefðu bara lagt í púkk og borgað niður skuldir Grikkja. Þegar það er sagt þá er ekki gott að sjá fyrir hvað Grexit myndi þýða fyrir heimsfjármálin til lengri tíma litið. Það má vera að þegar hlutirnir róast að þá taki markaðir jákvæðan kipp og einangri vandamálið við Grikkland þar sem grískur almenningur fær að þjást hinu evrópska sósíaldemokratí til frygðar.
En vandi Grikkja er gríðarlegur. Það er ekkert til sem heitir "íslensk leið" sem þeir geta farið. Hjá þeim skuldar ríkið 180% af landsframleiðslu ef ég man rétt en okkur varð það til lífs að ríkið skuldaði ekki mikið þegar ógæfan dundi yfir.
Ég get ekki orðið fátækari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2015 | 10:58
Már borgar
Lilja Móses var svo sem búin að ýja að þessu en það má segja að áætlunin um afnám hafta sem kynnt var í gær sé nokkur ósigur fyrir okkur sem höfum aðhyllst mesta hörku í þessu máli.
Planið virðist í grófum dráttum vera það nota afgang af vöruskiptum næstu árin í að borga út kröfuhafa í stað þess að sá afgangur fari í að styrkja krónuna. Afleiðingin er einfaldlega verri lífskjör fyrir landsmenn en þess ber þó að geta að þetta er hárfínn balans; styrking krónunnar myndi væntanlega auka eftirspurn eftir innfluttum vörum og fækka túristum sem fyrir rest kæmi niður á lífskjörum. Már ætlar í útboð með þann litla gjaldeyri sem hann hefur náð að nurla saman á tæpum áratug innan við hriplek höftin og ekki vantar krónueignirnar til þess að borga út. Þeim hefur verið rækilega ávaxtað með hjálp hel-vaxtastefnu SÍ.
Og viðbrögðin í gær voru svo sem eins og við mátti búast, það voru einfaldlega engar gagnrýnisraddir því yfir hverju átti t.d. norræna velferðarliðið að kvarta? Að ekki sé nú talað um kröfuhafa. Þetta var eins og votast draumur vinstri armsins að kostnaðinum af afléttingu hafta yrði komið að miklu leyti yfir á almenning sem ekki olli hruninu. Enda var SJS eins og hestur í afmæli þegar hann með glampan í augunum lýsti yfir ánægju sinni með það að "skynsemis raddir" hefðu ráðið för. M.ö.o. að það sé skynsamlegast að við tökum á okkur kostnaðinn af spákaupmennsku fjárfesta.
Um orð ÁPÁ, sem hélt því fram að þetta væri "nákvæmlega" eins og planið sem hann vann að, er það að segja að það er trúlega að einhverju leyti rétt en að öðru leyti tóm þvæla. ÁPÁ ætlaði að leysa þetta mál með því að gera krónueignir útlendinga að skuld íslenksra skattgreiðenda við Seðlabanka Evrópu alveg þar til árið 2011 þegar Samfylkingin áttar sig á því að hún hafði misskilið hvernig á að ganga inn í ESB. Eftir það fór einhver óljós stefna að myndast en enginn alvöru vinna virðist hafa veriði unnin við að kortleggja vandann. Það heyrir þó til bóta hjá Laugarvatnsstjórninni.
Ekki misskilja mig, ég tel að við hefðum átt að beyta meiri hörku í þessu máli en þegar það er sagt þá held ég að framhaldið þurfi ekki að líta illa út. Sennilega batnar hagur hjá okkur hægt og rólega og landsmenn munu una sáttir við sitt. En þeir munu trúlega aldrei uppgvötva að þeir áttu að öllum líkindum betri kjör inni en þeir fengu.
Snjóhengjan brædd í útboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2015 | 07:49
Eftirgjöf skulda þrotabúanna skattskyld?
Þetta var til umræðu fyrir nokkrum mánuðum síðan og gott ef það var ekki skattalögfræðingur frá einmitt Deloitte sem benti á þennan möguleika við að gera upp þrotabúin. En eitt er auðvitað að það komi álit frá skattalögfræðingum um þessi mál en annað er að ef að þessi túlkun er komin inn í bindandi álit ríkisskattstjóra. Þá erum við klárlega búin að skrúfa hörkustigið upp um tvö hak.
Ég hef svo sem áður tjáð þá skoðun mína að það eigi að snýta þrotabúunum. Og mér sýnist þessi túlkun á lögunum gera það mögulegt. Ég missi engan svefn yfir því þó að kröfuhafar þurfi að hverfa af landi brott með skottið á milli fótanna. Og mér er þá alveg sama hvort um er að ræða vogunnarsjóði eða lífeyrissjóði þýskra tannlækna sem taka sér stöðu með vogunnarsjóðum. Þeir eru allir jafn óvinveittir íslensku samfélagi.
Í sem styðstu máli þá varð hrunið á Íslandi vegna þess að einkabankar tóku lán í útlöndum sem þeir gátu ekki borgað til baka. Á því bera þessir bankar (og þar með þrotabú þeirra) fyrst og fremst ábyrgð sjálfir. Flóknara er það ekki og almenningur á að beyta takmarkalausri hörku við að hafna ábyrgð á tapinu sem af þessu hlýst, því hvernig skilaboð eru það sem við sendum ef að við erum að bæta fjárfestum upp rænulausar lánveitingar? Það væri aumingjavæðing kapítalismans því með því værum við að taka úr sambandi einn allra mikilvægasta þáttinn í frjálsum viðskiptum sem er að eyða þeim aðilum úr kerfinu sem eru líklegastir til þess að fara sér að voða.
Kjarnin í þessu máli, sem er efnahagslegt uppgjör hrunsins er sá, að íslensk samfélag, ríkið, heimili og fyrirtæki hafa orðið fyrir gríðarlegu tjóni vegna þess og þá á ennþá eftir að greiða fyrir seinni hluta hrunsins sem er kostnaðurinn við afléttingu hafta. Og nú eru brátt liðin 7 ár frá hruni og það er fyrst núna sem íslenska ríkið er farið að spá í með skattlagningu að ná í fé upp það tjón sem hefur orðið á t.d. lánasafni íbúðalánasjóðs.
Göfugasta skylda ríkisins er að hugsa um almannahag sem er ósamrýmanlegur hag kröfuhafa. Ríkisskattsjóri fær prik frá mér með að standa fastur fyrir í þessu máli. Strippum þrotabúin eins langt og lög leyfa.
Eftirgjöf skulda ber 36% skatt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.5.2015 | 12:00
Mergjað
Þetta hlýtur að þýða að þjóðin sé ennþá stemmd fyrir breytingum sem margir héldu eflaust að þeir hefðu kosið með í kosningunum 2009. Að mínu viti þá klúðraði Hreyfingin svo sínu tækifæri til þess að verða afl breytinga þegar hún spilaði skuldamálunum upp í hendurnar á Framsókn fyrir kosningarnar 2013. En það er greinilega ekki öll von úti enn um að landsmenn taki sig saman og geri róttækar þjóðfélagsbreytingar, en vissulega áhyggjuefni að Píratar skila ennþá auðu í efnahags- og haftamálum.
Það er ólíklegt að við sjáum kosningar í bráð býst ég við. Það vilja sjálfsagt engir flokkar ganga til kosninga með svona skoðanakannanir í farteskinu nema þá náttúrulega Píratar.
Píratar lang vinsælastir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2015 | 14:57
Maraþon í Zurich yfirstaðið
Við hlupum þetta í morgun og ég ætla að byrja á tímum félaganna áður en ég segi frá mínu hlaupi en drengirnir áttu frábæran dag. Gylfi Örn Gylfason stefndi að því að fara undir 3 klst og 5 mínútur og kemur í mark á 3:02.33,9. Anton Örn Schmidhauser, stefndi að því að komast undir 3 klst og 30 mínútur í sínu fyrsta maraþoni, og kemur í mark á 3:24.37,8. Æðislegir tímar tímar hjá þeim félögum.
Eins og ég skrifaði í pistilinn í gær þá var ég með þann draum að komast í mark án þess að taka leigubíl og svo kannski í einhverju glópaláni að komast undir 4 klst. Það hafðist, með naumindum þó, en tíminn minn er skráður 3:59.33,5. Það leit reyndar ekkert sérstaklega vel út á tímabili því ég feilreiknaði mig örlítið í fyrri hluta hlaupsins. Ég kom frekar seint inn í start slottið og það var töluverður spölur í 4:00 fána hlauparana þegar við lögðum af stað. Ég beit það hins vegar í mig að þetta hefðu verið 3:45 fánarnir og ég sá ekkert athugavert við að láta þá hverfa mér sjónum. Það er svo ekki fyrr en ég er að nálgast Meilen, þar sem snúið er við eftir ca. 25 km hlaup að ég mæti 4:00 fánunum sem eru þá nokkrum mínútum á undan mér. Þá var mig reyndar farið að gruna að ég væri eitthvað að klúðra þessu því það stemmdi ekki við mælingarnar á úrinu mínu að ég væri með 4:00 fánana fyrir aftan mig.
Ég byrjaði að fá verki í læri og kálfa þegar við km 6 sem entust mér alveg til loka hlaupsins en það var aldrei óyfirstíganlegt og allan daginn þá hafði ég gott bensín í bomsunum. Ég ákvað því að reyna að ná 4:00 fánunum og herti á mér allan seinni hluta hlaupsins. Þannig er seinna hálfmaraþonið mitt ca. 3 mínútum hraðara en fyrra hálfmaraþonið mitt. Síðasti fjórðungurinn minn er sá hraðasti í hlaupinu en hann var farinn á hreinni illsku. Það munaði svo um minna í lokinn að á km 39 þá kem ég auga á Oddnýu og Halldór sem hlupu 10 km fyrr um daginn en voru mætt á hliðarlínuna til þess að hvetja fólk áfram. Það fór um mig ótrúlegur adrenalínstraumur þegar ég heyrði í þeim og síðustu 3 km eru hröðustu kílómetrarnir í hlaupinu mínu. Þessi lokaspölur er hlaupinn inni í miðborg Zurich og í tvígang þurfti ég að öskra ACHTUNG þegar fólk var að lauma sér yfir brautina en því var auðvitað nokkur vorkunn því það býst enginn við að það séu einhverjir hálfvitar að taka endasprett eftir tæplega 4 klst hlaup bara til þess að ná einhverjum hallærismarkmiðum sem öllum er sama um. En hvað um það, það var gaman að geta sett inn aðeins meira í lokin og lofar góðu fyrir frekari bætingu í framtíðinni.
Með öðrum orðum, hlaupið gekk framar björtustu vonum hjá okkur öllum og þar kann að hafa ráðið einhverju um að aðstæður voru fáranlega góðar. Það var sól allan tímann og léttur andvari en aldrei svo heitt að maður þyrfti að hlaupa inn í skuggana sem er algengt þegar maður hleypur hérna suðurfrá.
Við ætlum að fagna þessu með því að fá okkur steik niðri í bæ í kvöld. Og ég ætla að fá mér franskar sem hafa verið á bannlista í langan tíma. Ef maður á ekki skilið að fá sér lúku af transfitu eftir að hafa leikið íþróttaálf allan daginn þá veit ég ekki hvenær maður á það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2015 | 17:55
Maraþon á morgun.
Eftir að hafa undirbúið þetta frá því í ágúst 2013 þá er loksins komið að því, Zurich maraþonið er á morgun. Ég veit um tvo Íslendinga fyrir utan mig sem ætla að reyna við heilt maraþon en það er slatti af mörlöndum sem ætla að fara 10 km. Hinir tveir sem ætla í heilt, Anton og Gylfi, komu í gær og þegar ég heyrði í þeim fyrr í dag þá voru þeir búnir að hlaupa úr sér hrollinn og ná í númerin sín. Þeir eru báðir ösku-fljótir og ég reikna með að þeir verði búnir í sturtu og komnir í jakkaföt þegar ég kem loksins í mark.
Við leggjum í hann kl. 8:30 að svissneskum tíma (6:30 að íslenskum tíma), stútfullir af hollustufæði sem við erum búnir að vera að stappa í okkur undanfarna dag. Þar fyrir utan er ég búinn að fjárfesta í (og hlaupa til) hátækni hlaupabomsum og svo dróg ég svitaband í hús s.l. föstudag ef ske kynni að maður myndi svitna á leiðinni. Þetta getur ekki klikkað. Reiknað er með sól en frekar köldu veðri. Ætli við séum ekki að hlaupa þetta í 4-8 gráðum sem er í sjálfu sér ekki svo slæmt fyrir langhlaup. Hitinn fer svo upp í 12-15 gráður seinni part dags en þá er vonandi allt um garð gengið.
Ég hef strögglað aðeins við það undanfarna daga á hvaða hraða ég á að reyna þetta því að löngu hlaupin sem ég er búinn að fara undanfarna 3 mánuði hafa verið hlaupin á ójöfnu tempói, oftar en ekki hægt í byrjun og svo koma kannski 20 km á góðum hraða en svo hægir á í restina. Ég hef farið 5 sinnum yfir 30 km og lengstu hlaupin í 16 vikna prógramminu voru 35-36 km. Í fyrsta skipti sem ég fór svona langt þá komst ég í gegnum krísu í kringum 31 km með því að hægja á mér á 2 km kafla og átti svo nóg eftir þegar ég hætti. Síðasta langa hlaup var á meiri hraða í upphafi en við frekar erfiðar aðstæður og ég átti ekki mikið úthald eftir þegar ég lauk því. Hefði þó klórað mig upp í heilt maraþon á örvæntingunni.
Annars eru langhlaup dálítið spes þegar kemur að taktík, a.m.k. þegar maður er að stunda þetta eins og amatör; því í flest öllum íþróttagreinum sem ég hef keppt í þá snýst sportið í raun um að maður leggur út með óbeisluðum ofsa frá fyrstu mínútu og lætur svo uppsafnaða reiði rigna yfir andstæðinginn þar til að maður getur ekki meira eða þarf að leggja á flótta. Langhlaup snúast um skynsemi sem hefur aldrei skilað mér langt en á morgun þá er sennilega rétt að eiga borð fyrir báru þegar kemur að því að velja sér tempó. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er öllum í heiminum sama um á hvaða hraða miðaldra skrifstofulúðar hlaupa maraþon. Þar fyrir utan þá lofaði ég mömmu því að ég myndi bara taka taxa ef þetta færi að verða strembið og ég hefði helst viljað losna við þá niðurlægingu. Það er þó alls ekki hægt að útiloka að sú staða gæti komið upp.
Því er ekki að neita að ég sakna hérans (frúarinnar) hér á síðustu metrum fyrir hlaupið. Hún er á Íslandi að passa upp á að túristarnir villist ekki en hún hefur verið ómissandi hlekkur í undirbúningnum. Hún hefur betri skilning á mér en ég sjálfur og mig hefur bráðvantað hana til þess að lesa á mælana hér undanfarna daga. En alla vega, markmiðin eru klár (sjá neðar). Mér skilst að það sé hægt að fylgjast með framvindunni á heimasíðu hlaupsins fyrir þá sem hafa áhuga. Keppnisnúmerið mitt er 2003 en tímaflögunúmerið er 22B285, ég veit ekki hvort númerið heimasíðan notar.
Markmiðin:
1) Komast í mark (án þess að taka leigubíl)
2) 4 klst og 15 mín.
3) 4 klst og 10 mín.
4) 4 klst og 5 mín.
5) 4 klst og 0 mín.
Sem sagt, ég hefði ekkert á móti því að vera á 56-58 mínútum og í góðu standi eftir fyrstu 10 km og reyna svo að halda 56 mín per 10 km eftir það (draumar kosta ekkert). Ef þið sjáið á heimasíðunni að ég er farinn að fara miklu hraðar en það, þá er ég kominn upp í leigubíl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2015 | 14:35
Að kljúfa hár í vindi
Ég er ekki einn um það að finnast atburðarrásin á flokksþingi Samfylkingarinnar vera hreint með ólíkindum. Látum það eiga sig að það er ekki nema fyrir gríðarlega vel þjálfað pólitískt auga að geta greint muninn á stefnu Árna Páls og Sigríðar Ingibjargar. Það er eins og að reyna að kljúfa hár í vindi. Fyrir þá sem ekki eru fermdir inn í þetta batterí þá er hin almenna skoðun sú að ÁPÁ og SII eru einfaldlega bæði smurð inn í ófögnuð velferðarstjórnarinnar, þar undir Icesave, bankauppbygginguna og árásina á heimili og fyrirtæki landsmanna.
En til þess að þétta raðirnar þá hvetja sumir flokksmenn nú liðið áfram með því að beina spjótunum að hinum sameiginlega óvini, vondu hægri stjórninni. Stærsti óvinur jafnaðarmanna er hins vegar ekki Framsókn, Sjallar eða forsetinn; stærsti óvinur jafnaðarmanna eru jafnaðarmenn og óendanlegur vilji þeirra og geta til þess að taka heimskulegar ákvarðanir. Hægri stjórnin mun sjá um að farga sér sjálf, til þess þarf hún enga hjálp.
Ég neita því ekki að ég hef ákveðna samúð með ÁPÁ eftir atburði gærdagsins en ef maður bakkar hins vegar þrjú skref afturábak og horfir yfir sviðið þá er eitthað svo óendanlega sorglegt að fylgjast með þessu. Þegar öllu er á botnin hvolft þá er fólk að berast á banaspjótum vegna ágreinings um hver eigi að skipa slitastjórnina hjá pólitískt gjaldþrota jaðarstjórnmálaafli, á fámennri eyju úti í miðju norður-Atlandshafinu. Fyrsta fórnarlambið í þessu drama er einfaldlega mannleg reisn þess fólks sem nennir að eyða tíma sínum í þetta. En ég skal taka hattinn ofan fyrir ÁPÁ ef honum tekst að vinna þokkalega úr þessari stöðu en ef ég væri í hans sporum þá myndi ég sofa með annað augað opið og hægri hendina á vopninu undir koddanum.
Þessa dagana er hins vegar hægt að gleðjast yfir því að Píratarnir skuli vera að háma í sig fylgið. Það bendir til þess að það sé ennþá lífsneisti með þjóðinni og gefur von um að einhvern tímann muni tímasetningar passa þannig saman að óánægjufylgið þjappi sér á bakvið eitt stjórnmálaafl eins og gerðist með Besta flokkinn í Borginni. Það er ekki víst að það heiti Píratar frekar en Samstaða eða Dögun þegar við náum á þann stað. Aðalatriðið er hins vegar að fólk átti sig á að þetta er eina leiðin til þess að þvinga í gegn nauðsynlegar breytingar í Íslenskum stjórnmálum.
Segjast sjá fingraför Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Benedikt Helgason (Seiken)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar